10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands sem hefur fengið, að því er virðist, sæmilegan tíma til meðferðar í Nd. Ég ætla að margir séu þeirrar skoðunar að fyrirhuguð lánveiting til kaupa á eldri fiskiskipum sé til mikilla bóta og að ýmislegt annað í þessu lagafrv. horfi til bóta.

Mér þótti gott að heyra hæstv. sjútvrh. greina frá því að tekið hefði verið tillit til skoðana starfsmanna Fiskveiðasjóðs varðandi réttindi þeirra. Fulltrúar starfsmanna komu hér í Alþingishúsið í þann mund sem fjallað var um þetta lagafrv. í Nd. og lýstu yfir áhyggjum sínum varðandi réttarstöðu sína, og nú skilst mér og ég trúi því, sem hæstv. ráðh. segir, að ráðin hafi verið bót á þeim meinbugum sem starfsmennirnir sáu helst á þessu atriði.

Varðandi skipun sjóðsstjórnarinnar, þá er ég ekki reiðubúinn að trúa því að talan 7 sé endilega sú eina sanna og rétta, fyrst 5 manna stjórnin var ekki nægilega fjölmenn, þá sé 7 manna stjórn endilega sú stjórn sem henti þessum sjóði. Það eru til fleiri helgar tölur en talan 7 ef út í það er farið, og ég hef ekki heyrt rökstuðning fyrir því að fyrst 5 manna stjórn var ekki nógu fjölmenn, þá sé 7 manna stjórn vissulega nógu fjölmenn.

Ég hefði óskað eftir því að tími gæfist til að fjalla um þetta frv. í n. í Ed. líka á eðlilegan hátt. En nú er bara svo komið með öll þessi síðbornu frv. hæstv. ríkisstj. og einlægan ásetning þeirra, sem þingstörfum ráða, að ljúka störfum Alþ. áður en langt líður fram yfir miðjan mánuðinn, að svo virðist sem hin veigamestu og þýðingarmestu frv. þurfi að afgreiðast með undra skjótum hætti. Ég hef sjálfur ekki orðið var við það að starfsþrek eða gáfur þm. ykjust svo ört með hækkandi sól að hægt sé að ætlast til þess að þessi vaska drengjasveit, sem hefur látið vefjast fyrir sér lítil mál, lítilvæg mál allan veturinn, hún sé þess umkomin að afgr. hin stærstu og þýðingarmestu mál af mikilli skynsemi á örfáum dögum.