10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3141)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera neinar sérstakar athugasemdir við frv. það til l. um Fiskveiðasjóð sem hér er til umr. og afgreiðslu nú, heldur aðeins benda á að 3. gr. gerir ráð fyrir því að sá banki, sem hér er verið að stofna, verði um aldur og ævi, a.m.k. þangað til fyrirhuguðum lögum verður breytt, eins og í 3. gr. segir:

„Auk stofnfjár samkvæmt 3. gr. l. nr. 75 13. maí 1966, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal fjáröflun til Fiskveiðasjóðs vera með eftirtöldum hætti:

a) Vextir af lánum og öðrum kröfum.

b) Útflutningsgjöld af sjávarafurðum sem renna til sjóðsins lögum samkvæmt.

c) Til viðbótar tekjum sjóðsins samkvæmt b-lið greiðir ríkissjóður honum árlega fjárhæð er nemi 3/4 hlutum af tekjum samkvæmt b-lið.“

Ég hefði talið eðlilegra að allar tekjur af útflutningsgjöldum rynnu í þennan sjóð, og ég hefði talið eðlilegt að d-liðurinn yrði eitthvað tímabundnari heldur en hann er. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Til viðbótar framlagi til sjóðsins samkvæmt b- og e-liðum greiðir ríkissjóður honum árlega 35 millj. kr.“

Mér finnst að við verðum að gera ráð fyrir því þegar við erum að stofna svona sjóði, sem eru raunverulega ekkert annað en vísir að bönkum, að þeir verði einhvern tíma sjálfstæðar stofnanir, og þá fyndist mér ekki óeðlilegt að þeir, sem eru fulltrúar ríkisstj. í þeirri sjóðsstjórn, falli úr henni og sjóðurinn lúti þá alfarið stjórn atvinnuveganna. Ég held að við verðum að snúa við þeim hugsunarhætti sem ríkir yfirleitt þegar sjóðir eru myndaðir, að viðkomandi atvinnugreinar verði um aldur og ævi styrkþegar hjá ríkissjóðnum. Það var bara þetta sem ég vildi benda á. Ég held það hefði verið hugljúfara fyrir atvinnugreinina sjálfa að eygja það að einhvern tíma í framtíðinni yrði hún algjörlega sjálfstæð.