10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um saltverksmiðju á Reykjanesi og skilar áliti á þskj. 651. Þar mælir meiri hl. iðnn., allir nm. nema einn, með samþykkt frv. með þeim breytingum sem þar koma fram og ég mun gera lauslega grein fyrir síðar.

Ég vil geta þess í upphafi, eins og fram kemur í grg. þessa frv., að þetta mál er búið að vera lengi í meðferð. Fyrst var rannsókn á salti framkvæmd hjá Raforkumálaskrifstofunni og var þá Krýsuvík höfð í huga. Var þá reiknað með 50 þús. tonna framleiðslu. Hún reyndist ekki hagkvæm, einkum vegna þess að kostnaður var ákaflega mikill við að dæla sjó upp Krýsuvíkurbjarg og til Krýsuvíkur. Nokkru síðar vakti Baldur Líndal verkfræðingur athygli á því að aðstaða mundi vera stórum betri suður á Reykjanesi þar sem jarðhiti er mikill og auk þess vatn í þeim jarðhita mjög mengað af sjó, ef víð getum kallað það svo, svo mjög að gjarnan er það vatn nefnt jarðsjór.

Rannsóknaráð ríkisins ákvað að standa að athugun á þessu og var fyrsta athugunin gerð 1966 með því að fá þá verkfræðingana Vilhjálm Lúðvíksson og Baldur Líndal til þess að gera frumkönnun á þessu svæði á Reykjanesi. Þeir gerðu það með miklum ágætum, efnagreindu þetta vatn og gerðu sér grein fyrir hinum ýmsu eiginleikum þess. Í ljós kom að þessi jarðsjór er Í fyrsta lagi sjór sem hefur misst um það bil 40% af vatnsinnihaldi sínu og er þess vegna með töluvert meira innihald salts og annarra fastra efna en sjór, en auk þess hafa orðið veruleg efnaskipti við ferð sjávarins í gegnum hin neðri jarðlög, dottið út ákveðin efni, en önnur aukist. Er það mest áberandi að magnesíum fellur út, en kalsíumklóríð hefur aukist töluvert og sömuleiðis kali. Að vandlega athuguðu máli var talið að þarna gæti verið grundvöllur til framleiðslu á salti og e.t.v. einhverjum öðrum hliðarefnum.

Var þá ráðist í næsta skref þessara rannsókna og gerð athugun á hagkvæmni 150 þús. tonna saltverksmiðju á Reykjanesi. Í ljós kom að saltverksmiðja af þeirri stærð mundi vera alveg á mörkum, en hins vegar kom þá einnig í ljós að það mundi vera æskilegt að framleiða þarna önnur hliðarefni sem til falla við þessa framleiðslu, fyrst og fremst kalsíum, klórið, kalí og brómíum. Fleiri efni falla þarna til, en í töluvert minna magni og ekki talið arðbært að vinna. Haldið var síðan áfram þessum rannsóknum stig af stigi og að lokum stöðvast við 250 þús. tonna saltverksmiðju sem Rannsóknaráð skilaði um ítarlegri skýrslu í júlí 1972 og ég er með hér.

Þá vil ég geta þess, að í þessu sambandi öllu voru framkvæmdar ítarlegar hliðarrannsóknir. M.a. hafði Orkustofnun með höndum mjög ítarlega rannsókn á orkusvæðinu, og í þessu tilfelli var Orkustofnun ákaflega treg til að láta í té umsögn um orku svæðisins fyrr en hún hefði fengið að bora mjög mikið. Á hennar vegum voru boraðar samtals 8 holur og þar af 3 vinnsluholur. Mér fannst þetta töluvert mikið í lagt á sínum tíma, en ég er sannfærður um að þetta var rétt. M.a. kom í ljós að þetta orkusvæði var svo frábrugðið því, sem þeir höfðu þekkt áður, að þeir töpuðu tveimur vinnsluholum, þær hrundu saman. Það var ekki fyrr en tekin var upp sú aðferð að fóðra holu niður í botn að síðasta holan stóð og stendur enn og blæs með miklum krafti. Ég held satt að segja að viðar á orkusvæðum okkar hefði mátt hafa svo vandlega athugun áður en ályktun er gerð og álit gefið.

Ég vil einnig geta þess, að í þessu sambandi var leitað til erlendra aðila um markaðshlið þessa máls, m. a. samið við fyrirtækið Sviss Battelle Institute sem tók að sér sérstaka rannsókn á markaði fyrir kalsíumklóríð og kall. Einnig fékkst tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna og hingað til lands ágætur kanadískur sérfræðingur sem starfaði að markaðsathugun í marga mánuði, ferðaðist viða um Evrópu og Norður-Ameríku og skilaði mjög ítarlegri skýrslu um söluhorfur á þeim efnum sem þarna er um að ræða.

Því nefni ég þetta nú hér, að vísu aðeins í fáum orðum, til þess að menn geri sér grein fyrir því að þessi athugun öll var mjög ítarleg. Þá er einnig eðlileg sú spurning, sem komið hefur fram: Hvers vegna er nú nauðsynlegt að byggja tilraunaverksmiðju? Er þessari rannsókn ekki lokið? Í þessu sambandi öllu verður að gæta þess að hér er um að ræða vinnslu úr jarðsjó sem mun ekki eiga sinn líka annars staðar í heiminum. Salt og ýmis föst efni eru að vísu unnin viða úr saltlegi, sem kallað er á ensku brine, en yfirleitt eru þessir legir með mjög mismunandi eiginleikum, sumir súrari, en aðrir basískari, sums staðar mikil útfelling og tæring mikil, og þessi lögur, sem er á jarðhitasvæði, mun ekki eiga sinn líka annars staðar þar sem við höfum getað fengið um upplýsingar. Það var því alveg ljóst í upphafi að einn mikill og kostnaðarsamur liður í þessu yrði ítarleg könnun á því hver útfelling og tæring yrði við frumstig þessarar vinnslu sem er að losna við vatnið úr jarðsjónum og fá mettaðan lög hinna föstu efna. En ekki var talið rétt að ráðast Í þá kostnaðarsömu tilraun nema í mjög litlum mæli. Það var gert Í mjög litlum tækjum, sem kostuðu lítið, aðeins til að fá frumhugmyndir. En ekki var talið rétt að leggja í heildartilraun fyrr en málið hefði fengið enn nákvæmari athugun.

Því var skilað um þetta skýrslu, eins og ég sagði áðan, árið 1972, sem fór til iðnrrn. sem lét framkvæma mjög ítarlega endurskoðun á þessu, bæði verkfræðilega endurskoðun og hagfræðilega endurskoðun. Skýrslur bárust frá þeim aðilum sem þetta framkvæmdu, annars vegar Þjóðhagsstofnun og hins vegar Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, ásamt amerískum sérfræðingum á sviði eimingartækni, og var það sameinað í skýrslu iðnrn.: „Saltverksmiðja á Reykjanesi“, sem kom út í mars 1974. Í þeirri skýrslu eru niðurstöður Rannsóknaráðs að öllu leyti staðfestar og að sumu leyti jafnvel markaðshorfur taldar betri en þar.

Þá vil ég nefna það sem þarna á að framleiða.

Gert er ráð fyrir því að framleiða 250 þús. tonn af salti, en um þetta salt verð ég að fara nokkrum orðum því mér fannst í n. koma fram töluverður misskilningur á eiginleikum þessa salts. Salt og salt getur verið tvennt ákaflega ólíkt. Salt það, sem unnið er með sólarorku með uppgufun, inniheldur öll önnur föst efni sem falla til botns þegar vatnið gufar upp. Það getum við kallað óhreint salt. En það er hins vegar nógu gott til þess að nota t.d. í saltfisk og margt fleira. Hins vegar ef nota á saltið til iðnaðarframleiðslu, til framleiðslu á t.d. klóri, sem notað er hins vegar í plastiðnað, þá verður saltið að vera hreint og þá er þetta salt tekið, það leyst upp og eimað á mjög svipaðan máta og ætlunin er að gera hér, þannig að önnur föst efni, sem í því eru, eru felld út. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði. Það salt, sem hér er verið að tala um að vinna, er þetta hreina iðnaðarsalt sem er í þrefalt hærra verði á heimsmarkaði heldur en hið — ja, ég vil kalla það óhreina eða ósundurskilda salt, heldur en salt jarðar, mætti segja.

Hins vegar má nota þetta salt í saltfiskverkun. Með það voru gerðar tilraunir. Segja má, að það sé óþarflega hreint, og kom í ljós við þær tilraunir að það var galli að missa víss efni burt. Var það lagað með því að blanda þeim í, einkum kalsíum klóriði, sem fæst í ríkum mæli við þessa framleiðslu einnig. Er unnt að fá þannig að mati Rannsóknastofnunar Fiskifélagsins fyrsta flokks salt. Þó þarf einnig að breyta kornastærð, það er of fínt þetta salt sem þarna fæst, og er það gert með því að þjappa það saman og mala það síðan aftur með slíkri íblöndun, þjöppun og mölun. Er þá framleitt mjög gott salt til saltfisks framleiðslu, og er gert ráð fyrir því í þessum áætlunum að um það bil 50 þús. tonn renni til slíks.

Nokkuð hefur verið á það deilt að saltið til innanlandsframleiðslu hefur verið verðlagt töluvert hærra heldur en saltið sem flutt er út.

Vissulega hefur þessi íblöndun og þjöppun og mölun aukinn kostnað í för með sér, það er ljóst. En hitt skal viðurkennt, að við verðlagningu á þessu salti var tekið jafnframt mið af innfluttu salti og verðið sett þar aðeins neðar. Þannig má segja að með þessari sölu innanlands, þó hún sé til hagsbóta fyrir saltfisksframleiðendur, með nokkru verið að greiða niður það salt sem fer til útflutnings, skiptingin er á þann veg.

Auk þessa salts er gert ráð fyrir að framleiða þarna um 67 þús. tonn af kalsíumklóriði, um 24 þús. tonn af kalí og kringum 700 tonn af brómí.

Við markaðsathuganir á þessu kom í ljós að kalíið og brómið er mjög vel seljanlegt, en kalsíumklórið er erfiðara með. Þó fengust tilboð frá Svíþjóð og reyndar viðar um kaup á nokkru magni af kalsíum klóríðí.

N. hafði þetta mál til meðferðar og fékk á sinn fund bæði Vilhjálm Lúðvíksson og Baldur Líndal. Var þar upplýst það sem nm. vildu um undirbúning málsins og málið sem slíkt. Þar voru einnig lögð fram mikil gögn um þessa verksmiðju, bæði skýrslur, sem ég er með hér, og miklu meira, m. a. bréfaskriftir, sem fram fóru meðan málið var hjá iðnrn., við ýmsa norræna aðila, t.d. aðila eins og Norsk Hydro og Boligen í Svíþjóð og fleiri stóra innflytjendur salts og annarra slíkra jarðefna sem hér um ræðir. Kom þar fram mjög eindregin þeirra skoðun að framleiðsla þessarar verksmiðju væri vel seljanleg, að sjálfsögðu ef framleiðsluverðið er samkeppnisfært. Vitanlega er það háð því.

Að þessu öllu undangengnu hefur sem sagt hæstv. iðnrh. ákveðið að beita sér fyrir því að síðasta skrefið í þessari tilraun, — á það legg ég áherslu, þetta er tilraun enn, — verði stigið, þ.e.a.s. byggð tilraunaverksmiðja á Reykjanesi. Um hana hefur verið gerð kostnaðaráætlun og er hún upp á 137.6 millj. kr. Það er raunar meira en kostnaðurinn við byggingu tilraunaverksmiðjurnar, þar er líka rekstur, áætlanagerð o.fl. Gert er ráð fyrir því að með þessari tilraunaverksmiðju verði rannsakað fyrsta skrefið, að losna við vatnið úr jarðsjónum og metta hann. Það er það skref sem er hættulegast með tilliti til tæringar og viðkvæmast með tilliti til allra hitaflata, hvað þeir þurfa að vera stórir o.s.frv. og úr hvaða efni þeir þurfa að vera. Gert er ráð fyrir því að með þessari tilraun fáist allar nauðsynlegar hönnunarforsendur. Tilraunaverksmiðjan gengur sem sagt ekki lengra en að framleiða þennan mettaða jarðsjó. Það er ekki ætlunin að halda áfram og fella út efnin. Það er tækni sem er vel þekkt og er engum vandkvæðum bundin.

Ég tel þannig að enn sé haldið áfram á þeirri braut, sem upphaflega var mörkuð, að undirbúa þetta mál sem allra best. N. taldi hins vegar rétt að leggja nokkru meiri áherslu á það en fram kemur í frv. að hér er um undirbúningsfélag að ræða, ekki endanlegt félag. Okkur fannst þetta geta valdið misskilningi, það orðalag sem í frv. er. Við leggjum því fram brtt. á þskj. 651.

Fyrsta brtt. við frv. er við fyrirsögn þess og er liður nr. 3 í brtt. Lagt er til að fyrirsögnin verði: „Frv. til l. um undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi.“ Í öðru lagi þá gerir n. ráð fyrir breytingu á 3. gr. sem eru ekki efnislegar, en draga betur fram það verkefni félagsins að vanda undirbúning þessara framkvæmda og saltverksmiðjunnar. N. leggur til að upphaf gr. verði orðað svo: „Hlutafélagið skal láta endurskoða þær niðurstöður sem fyrir liggja. Það skal framkvæma eða láta framkvæma hvers konar viðbótarrannsóknir sem það telur nauðsynlegar til undirbúnings að byggingu og rekstri saltverksmiðju, m.a. skal félagið láta reisa og reka tilraunaverksmiðju. Þá skal undirbúningsfélagið láta framkvæma ítarlegar markaðsathuganir“ o.s.frv. óbreytt frá því sem nú er.

Þetta er efnislega með öðrum orðum eins, en þarna er sérstaklega dregið fram að endurskoða enn einu sinni það sem fyrir liggur og ég vil ekki síður leggja áherslu á að láta framkvæma markaðsathuganir, því þótt þær séu ítarlegar, eins og ég lýsti áðan, og hafi raunar stöðugt verið í gangi, þá eru á þessum sviðum miklar breytingar í allri efnaframleiðslu og nauðsynlegt að hafa þær nýjustu fyrir hendi þegar endanleg ákvörðun verður tekin um þessa verksmiðju.

Þá er samkvæmt ábendingu frá Náttúruverndarráði lagt til að skotið verði inn í 7. gr. orðinu „náttúruvernd“ á undan „mengunarvarnir og öryggi, heilbrigði“ o.s.frv., þ.e.a.s. í þá upptalningu, sem þar kemur fram, er skotið inn orðinu „náttúruvernd“.

Þá vil ég geta þess, að leitað var umsagna um þetta frv. hjá Iðnþróunarstofnun og Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum og eru þær umsagnir báðar jákvæðar. Iðnþróunarstofnun getur þess að það kunni að vera óþarfi að hafa þetta hlutafélag. Á það get ég fallist, en ég leitaði óformlega álits sveitarstjóra á Suðurnesjum um það atriði og taldi hann alls ekki ólíklegt að sveitarfélög þar vildu taka þátt í þessu félagi með einhverjum smáhlut, og mér finnst alls ekki saka að það sé opið. Ég hef því fyrir mitt leyti og þeir, sem undir þetta nál. skrifa, ekki lagt til að á því verði gerð breyting.

Ég vona að ég hafi skýrt þetta mál nokkuð. Ég hef reynt að drepa á það sem mér fannst dálítið misskilið þegar um málið var rætt, vona það hafi skýrst, og legg málið fyrir til umr.