10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Þegar þetta mál var endanlega afgreitt frá iðnn. þessarar hv. d. tók ég það fram, að ég vildi ekki vera aðili að því nál. sem samþ. var af meiri hl. n. Afstaða mín byggist ekki á því að ég sé andvígur því að farið sé út í slíkar framkvæmdir eins og hér er um að ræða. Ég vil strax taka það fram að ég er ákaflega mikill stuðningsmaður þess að við reynum til hins ítrasta að nota á sem fjölbreytilegastan hátt allar þær orkulindir sem fyrirfinnast í okkar landi, bæði til framleiðslu raforku og svo enn fremur í framhaldi af því til margs konar iðnaðar. Og ég vil taka það fram að ég lýsi fyllstu ánægju minni og vanmet ekki á neinn hátt það mikla verk sem ég veit að hefur verið unnið í sambandi við undirbúning þessa máls. Það hefur verið unnið af árvekni og kostgæfni, og mér er fyllilega ljóst að hér liggur að baki mjög merkileg og þýðingarmikil starfsemi hinna ágætustu og færustu vísindamanna okkar á þessu sviði.

Það, sem veldur mér nokkrum áhyggjum Í sambandi við það frv. sem hér liggur frammi, er sú stefna sem í þessu frv. er mörkuð eins og í svo mörgum öðrum. Þegar á að fara út í stærri framkvæmdir í okkar þjóðfélagi í sambandi við að nota þá miklu möguleika sem við kunnum að eiga til að nýta þá miklu orku eða margvíslegu orkugjafa sem fyrirfinnast hjá okkur, þá er eins og menn sjái enga aðra leið heldur en að þar eigi hið opinbera eða ríkisvaldið að hafa alla forustu um framkvæmdir í slíkum málum.

Ég get nú þegar lýst því yfir að ég er fyrir löngu búinn að fá mig fullsaddan af þeim yfirlýsta áhuga sem virðist vera ríkjandi í okkar þjóðfélagi um að efla á öllum svíðum, hverju nafni sem nefnist og hvar sem við verður komið, ríkissósíalisma.

Slík stefnumið stríða gjörsamlega á móti minni lífsskoðun, bæði sem einstaklings og enn fremur hélt ég að þau væru algerlega gagnstæð grundvallarstefnu þess stjórnmálaflokks sem ég er fulltrúi fyrir hér á hinu háa Alþingi.

Ég hef talið og hef oft látið þess getið að ég teldi ekki óeðlilegt fyrir okkur sem þjóð að við hefðum þá stefnu í málum sem þessum, þar sem um er að ræða mjög fjárfrekar framkvæmdir og enn fremur framkvæmdir þar sem þörf er á mikilli tækniþekkingu, að þá gerðum við mögulegt að nýta erlent fjármagn og tækniþekkingu og flytja hana til landsins eða, ef svo mætti að orði komast, veita slíkri starfsemi landvistarleyfi, en að okkar aðild byggðist fyrst og fremst á orkusölunni, að veita aðstöðuna, og svo að við létum Í té vinnuaflið og þjónustuna.

Frá mínum bæjardyrum er það grundvallaratriði að fjárhagsleg afskipti ríkisins af slíkum fyrirtækjum verði sem allra minnst og helst engin. Hins vegar gæti fyllilega komið til greina að einstaklingum og fyrirtækjum innlendra aðila væri heimilað og jafnvel gata þeirra greidd til þess að annast um slík samskipti sem nauðsynleg væru milli hins erlenda aðfengna fjármagns og tækniþekkingar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu og teldi einmitt að það væri fyllsta ástæða fyrir hið opinbera að gera þær breytingar, sem nauðsynlegar kunna að vera, bæði á reglum um meðferð og vegferð erlends gjaldeyris og fjármagns, að slíkt væri gert miklu auðveldara fyrir alla aðila heldur en nú er.

Í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., kemur fram Í 4. gr. frv. að fyrst og fremst er verið að heimila ríkisstj. að leggja fram reiðufé allt að ákveðinni upphæð, 60 millj. kr., leggja svo félaginu til mannvirki og undirbúningsrannsóknir. Í þriðja lagi að veita ríkisábyrgðir fyrir lánum allt að 100 millj. kr. Þarna er sem sagt um mjög háar upphæðir að ræða til hluta sem gersamlega eru gerðir í tilraunaskyni og enginn getur sagt um hvort verður jákvæður árangur af ellegar ekki.

Á fundi í hv. iðnn. gerði ég fsp. til sérfræðinga, sem voru staddir á fundinum, um það hvort þeir teldu ekki eðlilegt, miðað við þær aðstæður sem eru nú Í okkar þjóðfélagi eftir að við höfum gert nýja kjarasamninga, eftir að þó nokkuð mikið gengissig hefur orðið, hvort þá væri ekki ástæða til að endurskoða þær upphæðir sem tilgreindar eru á 4. gr. þessa frv., miðað við það að þessar upphæðir voru búnar til, að ég hygg, seint á árinu 1975. Nú leynist það engum að áætlunarupphæðir, sem reiknað er með seint á árinu 1975, geta undir engum kringumstæðum verið fullnægjandi fyrir framkvæmdum sem á að framkvæma á miðju ári eða síðla yfirstandandi árs. Mér var hreinlega svarað fsp. mínum og aths. á þann hátt að þegar þessar áætlunarupphæðir hefðu verið samdar, þá hefði verið svo ríflega áætlað fyrir hugsanlegum verðaukningum að það væri óhætt að treysta þessum tölum sem hér eru tilgreindar. Ég fyrir mitt leyti sætti mig ekki við þessa skoðun, og ég er alveg sannfærður um að þegar til framkvæmda kemur munu þær tölur, sem eru tilgreindar í 4. gr. frv., reynast gjörsamlega úreltar, svo veikur er grundvöllurinn, sem þessi framkvæmd er byggð á. En það skiptir nú kannske ekki meginmáli í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Aðalatriðið er sú stefnumörkun sem felst í frv. sjálfu og ég er gjörsamlega andvígur. Ég tel ekki óeðlilegt, þegar búið er að vinna jafnþýðingarmikið rannsóknarstarf og hér hefur verið gert, að þá væri það gert kunnugt og mætti jafnvel auglýsa að þessar niðurstöður væru fyrir hendi og að mönnum væri heimilt að gera hreint og beint tilboð um það að gerast aðilar að slíkri framkvæmd sem hér er fyrirhuguð með nánara samkomulagi við hlutaðeigandi stjórnvöld. Ég segi fyrir mitt leyti að ég get ekki séð hættuna sem felst í því þó að erlendu fyrirtæki, ef á annað borð slíkt fyrirfinnst, væri veitt leyfi t.d. til að setja á stofn þessa tilraunaverksmiðju um saltvinnslu á Reykjanesi sem rætt er um í þessu frv. Ég held að það væri enginn vandi fyrir okkur að búa svo um hnútana að það yrði ekki til skaða fyrir íslenskt þjóðlíf þó að þetta væri gert og fjármagnað af erlendum aðilum. Það vildi ég láta taka mjög til athugunar:

Ég vil svo að lokum ítreka að ég er innilega samþykkur þeirri stefnu að við reynum til hins ítrasta að nota allar þær orku- og auðlindir sem fyrirfinnast í okkar þjóðfélagi, en ekki á þann hátt og ekki skv. þeirri stefnu sem mörkuð er í þessu frv.