10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst láta í ljós ánægju mína með afgreiðslu þessa máls úr hv. iðnn. Mér þykir vænt um þessa afgreiðslu, því ég álít að það sé þörf fyrir sveitarfélög á Suðurnesjum að fá það atvinnuöryggi og þá auknu fjölbreytni í atvinnulífi sem ég held að þessi verksmiðja geti veitt þeim.

Ég vil alveg sérstaklega taka það fram vegna orða síðasta hv. ræðumanns, að ég held að það sé svo í þessu tilfelli í fyrsta lagi, að ríkið ætli sér alls ekki að eiga meiri hl. í þeirri verksmiðju sem reist verður, og í öðru lagi gæti ég trúað því að sveitarfélög og fyrirtæki á Suðurnesjum hefðu fullan hug á því að gerast þarna hluthafar. Að það sé endilega nauðsynlegt að það sé erlent fé fram yfir innlent sé ég ekki neina nauðsyn á. Þetta er ekki það stórfyrirtæki borið saman við ýmislegt annað sem við höfum ráðist í, og að öðru leyti gætir nokkurrar sérstöðu hér, þar sem jörðin leggur til bæði orkuna og hráefnið, þannig að út kemur fullunnin vara og meira að segja vara sem að nokkru leyti er nýtt á okkar heimsmarkaði. Ég tel að það sé full þörf á að fara að vinna að þessari verksmiðju vegna þess að höfuðatvinnuvegur þessa umhverfis, sem þarna er um að ræða, þ.e. Suðurnesja, stendur höllum fæti og það er veruleg nauðsyn að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið á þessum stöðum heldur en nú er fyrir hendi.

Ég vil enn fremur taka það fram, sem hér hefur þegar verið drepið á, að einmitt þetta verkefni, saltverksmiðja á Reykjanesi, er sérstaklega vel undirbúið og sérstaklega vel rannsakað, eins og hv. frsm. gat um, kannske betur rannsakað en nokkurt annað stórverkefni sem við höfum ráðist í. Þess vegna held ég að við getum með nokkru öryggi haldið því fram að það álit sérfræðinganna sé rétt, að hér sé um álitlega verksmiðju að ræða, og ekki þurfi að óttast að það verði aldrei meira en tilraunaverksmiðja.