10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3835 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af ræðu hv. þm. Jóns G. Sólness.

Ég ætla ekki að blanda mér í kapítalismann og allt það. Ég vil hins vegar segja það persónulega, að ég mundi aldrei samþ. að erlendum aðila væri afhent rannsókn á okkar náttúruauðlindum, t.d. virkjun náttúruauðæfa, hvorki Kröflu né suður á Reykjanesi. Þetta er verk sem við eigum að annast sjálfir. Svo kemur hitt til athugunar, þegar að framleiðslunni kemur, hvort þar á til að tryggja markað og fleira að leita þátttöku erlendra aðila. Ég held að þetta sé misskilið. Hér er um tilraun að ræða, hér er um rannsókn að ræða, og erlendir aðilar hafa engu betri aðstöðu en við til að framkvæma hana.

Annars stóð ég fyrst og fremst upp til þess að leiðrétta atriði sem ég held að hann hafi aðeins misskilið. Hann gat þess að hann spurði sérfræðing, sem hjá okkur mætti, Baldur Lindal, um kostnaðaráætlun. Baldur útbýtti til okkar sundurliðaðri kostnaðaráætlun sem gerð var 2. febr. 1976 og hann gat þess, þegar hann var að því spurður hvort hún gæti enn staðist, þá sagðist hann hafa bætt við hana 25% og sagði að þrátt fyrir þær hækkanir, sem hefðu orðið, teldi hann ekki að hím væri enn þá komin upp fyrir þetta. Um þetta geta menn vitanlega haft skiptar skoðanir, en ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst að Baldur Lindal hafi riflega bætt við þessa kostnaðaráætlun sina. Hitt skal ég taka undir með hv. þm., að þegar til framkvæmda kemur verður þessi tala eflaust orðin hærri, og um það var ekki spurt og um það er ekki deilt.