10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér er sönn ánægja að svara þessari fsp. Þannig var mál með vexti að meðan gert var ráð fyrir 750 þús. tonna framleiðslu á salti fannst þeim, sem að þessu unnu, vera á mörkum arðsemi að flytja saltið út. Var þá hafin athugun á því hvort ekki mætti nýta þetta salt innanlands. Sú rannsókn fór síðan fram, þótt markaðshorfur fyrir saltið sem slíkt stórum bötnuðu, og um síðustu áramót kom út skýrsla, mjög ítarleg skýrsla, hjá Rannsóknaráði um þetta.

Við þessa framleiðslu er hugmyndin, sem Baldur Líndal hefur skoðað og gert sjálfstæðar og mjög athyglisverðar rannsóknir á, að sumu leyti einstæðar tilraunir, að saltið verði notað og með svokölluðum „jónaskiptum“ framleitt úr sjó eða fellt út úr sjó magnesíumklóríð. Í þessu sambandi þarf töluvert mikinn skeljasand á seinna stigið, þar sem magnesíumklóríð er síðan tekið og framleitt magnesíumoxíð. Þá þarf mikinn skeljasand, og það er alveg hárrétt, sem hv. þm. sagði, að í þessu sambandi hefur einmitt og það fyrir löngu verið vakin athygli á því að áður en tekinn yrði skeljasandur í Faxaflóa, þá yrði að rannsaka þær námur langtum betur.

Þegar markaðshorfur fyrir efni þessarar verksmiðju sem slíkrar bötnuðu var þetta lagt til hliðar. Enginn skeljasandur er notaður við þá framleiðslu sem hér er gert ráð fyrir. Það er sem sagt á framhaldsstiginu sem skeljasandur yrði nauðsynlegur.

Hitt vil ég taka fram, að það eru einmitt Í sambandi við þessa saltverksmiðju mjög athyglisverðir möguleikar á framhaldsiðnaði, ekki aðeins á framleiðslu magnesíums, heldur framleiðslu á klóri og fleiru, ef hér kæmi slíkur efnaiðnaður, og það er eitt af því sem hefur ávallt mjög ýtt undir það hjá mér að styðja þessa rannsókn.

Ég vona að ég hafi svarað hv. þm. Sem sagt, fyrir þetta stigið er enginn skeljasandur nauðsynlegur, en ef farið yrði út í magnesíumframleiðsluna, þá er þarna nauðsynleg mikil athugun.