11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

38. mál, staða Félagsheimilasjóðs

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hafði á þinginu í fyrra spurt um nær hið sama en þó ekki svona ítarlega. Þá kom auðvitað nákvæmlega sama í ljós og nú, að skuldahalinn er ærið langur. Afkoma sjóðsins er slík að sveitarfélög og aðrir eigendur hafa mátt bera ómældar byrðar vegna vanskila og dráttar á greiðslunni frá sjóðnum.

Ég spurði að þessu þá vegna ákveðins tilefnis. Ég minnti þá á eldri húsin, elstu félagsheimilin. Nú stendur fyrir dyrum mikið viðhald og endurbætur á mörgum þeirra og vitanlega er engin heimild til þátttöku Félagsheimilasjóðs í því verkefni. Vegna þess að sumir standa nú andspænis þessu, annars vegar að leggja út í dýran viðhalds- og endurbótakostnað án þátttöku Félagsheimilasjóðs eða hreinlega reyna að komast í sjóðinn þrátt fyrir hans stöðu og byggja nýtt hús, þá held ég að það væri rétt, þrátt fyrir þessa slæmu stöðu, þrátt fyrir þennan langa skuldahala sem þarna er, að fara að koma inn heimild til einhverrar þátttöku Félagsheimilasjóðs í meiri háttar endurbótum á hinum elstu félagsheimilum. Ég hygg að ég muni flytja um þetta frv. nú í vetur, því að ég held það að til lengdar verði það hagstæðara Félagsheimilasjóði að taka þátt í verulegum endurbótum á félagsheimilunum, þeim elstu, sem þurfa þeirra með, heldur en ef eigendur þeirra ákvæða hreinlega að byggja ný og dýr hús, því að þessi hús hafa orðið með ári hverju stærri og íburðarmeiri eins og kannske vera ber í samræmi við íbúðarhúsin okkar, sem hafa auðvitað ráðið þeirri þróun einnig.

Ég minni aðeins á þessi elstu hús. Þau eru mörg hver illa farin, þurfa mikilla endurbóta við. Sveitarfélögin og aðrir eigendur ráða ekki við þetta einir og fara þá kannske þá leið að fara í nýja byggingu á dýru húsi. Þar af leiðandi held ég að það sé nauðsynlegt að sjóðurinn fái heimild til að taka þátt í þótt ekki væri nema hluta af endurbótakostnaði félagsheimilanna.