10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (3161)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er komið fram frv., sem beðið hefur verið eftir, að lagagerð sem nauðsynleg er, og fer ekki á milli mála að við verðum að stuðla að því að lagasetning í þessa veru eigi sér stað. Ég hef fyrr gert grein fyrir því úr þessum ræðustól í vetur að ég hefði óskað þess að þetta frv. hefði komið svo snemma fram að hægt hefði verið að nota þinghlé til þess að kynna það úti í kjördæmunum. Ekki er svo að skilja að ,ég ímyndi mér að við munum nokkru sinni setja lög varðandi veiðar í fiskveiðilandhelgi sem allir muni vel við una, málið er þess eðlis. En ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið mjög æskilegt að sjómenn okkar og útgerðarmenn í kringum landið hefðu fengið tækifæri til þess að ræða þetta frv., til þess að deila um það innbyrðis, þannig að við hefðum getað orðið þeirrar leiðbeiningar aðnjótandi að hlýða á aths. þeirra, jafn margbreytilegar og þær hljóta að verða, áður en málið væri tekið til lokaafgreiðslu. En ég skil það sjónarmið hæstv. sjútvrh. að vilja fá þetta frv. afgr.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Árnasyni, að betur hefði verið unnið þannig að sjútvn. þessarar d. hefði fengið að taka meiri þátt í umfjölluninni með sjútvn. Nd. Svo vill til að flestir nm., sem stóðu að samningu þessa lagafrv., eiga sæti í sjútvn. Nd. Þar hafa þeir að sögn, svo ég noti þeirra eigið orðalag eða form. n., þvælt um málið vikum saman án þess að við í sjútvn. Ed. höfum fengið neitt tækifæri til að fylgjast með rökstuðningi þeirra. Af þessu leiðir það sem raunar sjútvrh. sagði áðan, að hann byggist við og ætlaðist til að við þyrftum að fjalla um þetta mál ákaflega mikið að nýju í sjútvn. Ed. Það gladdi mig að heyra það á máli hans að hann ætlaðist til þess að við gerðum það ærlega og gerðum það vandlega, en náttúrlega rösklega þar sem ætlast er til þess að málið verði afgr. á þessu þingi.

Ég sé ekki betur en við hljótum að kveðja á okkar fund fjölmarga sérfræðinga til þess að ræða málið við. Að vísu eigum við aðgang að hinum háttskrifuðu og fjölgáfuðu og grandvöru nm. í sjútvn. Nd. sem fjölluðu um samningu þessa frv. En eigi að síður hljótum við að fjalla um það sjálfstætt að mínu viti í sjútvn. þessarar d., og ég geri ráð fyrir því að ég muni standa að nokkrum breyt., ekki ákaflega veigamiklum, en þó nokkuð veigamiklum, og bera fram brtt. við frv. En ég held að við hljótum eigi að síður að verða við beiðni hæstv. sjútvrh. um að flýta störfum eftir því sem við getum. Enn fremur finnst mér nú að við eigum að fresta afgreiðslu frv. heldur en að afgr. það með sýnilegum göllum vegna tímaskorts.