10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það hefur verið margsagt að þetta frv. sé seint á ferðinni inn í þingið og mjög óheppilegt að það skuli jafnvel koma í síðustu vinnuviku til afgreiðslu hér í hv. Ed. Þrátt fyrir það að hver þingflokkur hefur átt fulltrúa við undirbúning að samningu frv., þá er, eins og síðustu ræðumenn drápu á og jafnframt hæstv. ráðh., málið þannig vaxið í eðli sínu að það er viðkvæmt og verður alltaf viðkvæmt, og undir þau orð hæstv. ráðh. vil ég taka að enginn fær allt er hann vill í þessu efni. Hlýtur málið í eðli sínu að vera samkomulagsatriði og því er réttmæt sú ósk hv. þm., sem hér hafa talað, að nokkurt svigrúm gefist til umfjöllunar í þessari hv. d. Ég segi fyrir mig, að ég tók það margsinnis fram í undirbúningsnefndinni, að ef hugur fylgdi máli ætti að vera unnt að skila drögum að frv. í hendur ráðh. þegar fyrir jól. Þetta margsagði ég í haust, að ég skyldi þannig standa að því, vinna það mikið í þessu. Þrátt fyrir ýmsar annir að haustlagi hjá þm. og sumum okkar er vorum í fjvn., þá var málið það mikilvægt að bæði ég og fleiri í n. vildum fórna í það nægum tíma svo hæstv. ráðh. fengi drög að þessu frv. í hendur fyrir jól. Þannig átti að vera unnt að koma því fyrr áleiðis og allir þm. hefðu fengið svigrúm til að ræða málið, bæði innbyrðis í sínum þingflokki og út á við. Auðvitað verður aldrei fullyrt og ekki unnt að fullyrða að það hefði fengið betra form með þessum hætti. Það kemur aðeins eitt upp á teningnum þegar honum er kastað og ekkert að vita hvort heildarniðurstaða hefði orðið betri. En hitt held ég að megi segja, að með því að ræða málið eins og það hefur jafnan verið gert frá upphafi og leyfa mönnum að tjá sig mjög um málið, þá sé að vænta þess að betur verði staðið að því að framfylgja lögum og reglum á hafinu, þegar menn hafa átt tækifæri á að koma með aðfinnslur og ábendingar og heyrt rök á móti, að ekki sé hægt að taka allt til greina.

En það var eins og hv. 1. þm. Vesturl. benti á, að mjög brestur á um að menn virði lög og reglur á þessum vettvangi, því er nú verr og miður, og eru of mörg dæmi um það að menn hafi brotið þau okkur til tjóns.

Hér er vissulega mál á ferðinni er snertir undirstöðu okkar efnahagslífs, og er því ekkert óeðlilegt að menn telji nauðsynlegt að fara um það mörgum orðum og hafa til þess í n. verulegan tíma. Þannig háttar nú þingfundi og tímasetningu þessa dags, að ekki ætla ég að þreyta hv. þm. um of og eyða of löngum tíma í 1. umr., en geyma mér heldur lengra mál til 2. umr. É g vil þó aðeins fjalla um frv. af því ég hef átt sæti í þremur n., er starfað hafa hér á Alþ. við undirbúning að þessari fiskveiðilöggjöf okkar, í fyrsta skipti var ég formaður þeirrar n., og jafnan fórum við vítt um landið og heyrðum í mörgum mönnum. Slíkt hefur átt sér stað enn einu sinni við undirbúning þessa frv., og ég tel rétt og sanngjarnt að sem flestir eigi kost á því að koma fram hugmyndum sínum og skýra sín sjónarmið, þó að það sé jafnan viðurkennt að þau sjónarmið byggist oft og einatt mjög sterkt á því hvað snertir eiginhagsmuni og jafnvel stundum mjög þrönga hagsmuni. En þetta frv. getur ekki tekið tillit til slíkra þröngra einkahagsmuna. Það hlýtur að vera hafið yfir það og fyrst og fremst mótast af því að taka tillit til þess ástands, sem fiskstofnarnir eru í, og heildarhagsmuna þjóðarinnar. Ég tel að frv. í núverandi mynd geri þetta. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að koma frv. í það form sem- það í raun og veru er í að mestu leyti til að tryggja sem mestan heildarárangur, eins og segir þegar í 1. gr., að hér á að stuðla að viðgangi og hagkvæmustu nýtingu fiskstofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Það hlýtur og á að vera tilgangur frv.

Síðan gat hæstv. ráðh. um formið á frv. og það er einnig gert í grg. Við sjáum í 2. gr. að íslenskum skipum eru bannaðar veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni nema þar sem sérstakar heimildir eru veittar til slíkra veiða í lögum þessum. Þetta er hið gamla form. Hæstv. ráðh. er kunnugt um það að við í n. vildum geta litið svo á að veiðar íslenskra skipa væru frjálsar, — það þyrfti ekki að taka fram að þær ættu að vera bannaðar, þær ættu að vera frjálsar frá ákveðinni línu, sem við töldum rökrétt að hafa til lágmarksöryggis, og út að 200 mílunum, þótt um togveiðar, botnvörpu og flotvörpu, væri að ræða. Það væri geðþekkara að geta haft þennan hátt á, og ég fæ reyndar ekki skilið, þegar við lítum á það sem heild að við höfum nú yfir þessari lögsögu að ráða, hvers vegna þarf að tala um að banna íslenskum skipum þessar veiðar. Ég felli mig ekki við röksemd prófessorsins. Við bönnum auðvitað öllum erlendum aðilum að veiða í okkar landhelgi, en að banna sjálfum okkur að gera það sætti ég mig ekki við að sé lífsnauðsyn. Ég vil heldur að það verði hægt að banna veiðar á ákveðnum svæðum, eins og er gert ráð fyrir í vissum greinum frv. Það er lífsspursmál og mun ég koma að því síðar. Sennilega verður ekki hægt að viðurkenna þetta sjónarmið mitt, en ég vil þó að það komi skýrt fram, að miklu geðþekkara hefði verið að líta þannig á, og þetta vildum við sumir í n. að væri form. frv.

Hv. Alþ. verður sennilega að lúta sjónarmiðum þeirra er túlka þau lög er við hér setjum, þó mér fyndist að við ættum að hafa þann þroska og það rökrétta hugsun að við gætum búið til lög sem héldu í þessu efni.

Frá 5. gr. og nokkru lengra í frv. er fjallað um mikilvæga þætti og ætla ég lítils háttar að drepa á þá þætti.

Það er þá í fyrsta lagi að við vorum allir sammála um í þessari hv. undirbúningsnefnd að þetta frv. ætti samkv. 1. gr. sinni og tilgangi að gera átak í því efni að hægt væri að stuðla að aukinni friðun og sérstaklega skyndifriðun þar sem komið hefur í ljós, — og það segir í okkar grg. og það segir einnig í athugasemdum við frv., — að óhóflegt smáfiskadráp hefur átt sér stað við landið. Það er öllum ljóst og þarf ekki að vitna í margumrædda skýrslu frá Hafrannsóknastofnuninni um ástand fiskstofna og annarra dýrategunda á Íslandsmiðum og nauðsynlegar friðunaraðgerðir innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi til að rökstyðja það að þetta frv. verður að bera það með sér að um aukna friðunarmöguleika sé að ræða. Og af því tilefni var orðuð upp, ef ég man rétt, frá fyrri lögum 5. gr. núgildandi laga, en þar segir: „Nú á sér stað á tilteknu veiðisvæði seiða- og smáfiskadráp í þeim mæli að varhugavert eða hættulegt getur talist, og skal þá sjútvrn. að fengnum umsögnum Hafrannsóknastofnunarinnar gera nauðsynlegar friðunarráðstafanir til að sporna við því. Er rn. heimilt með tilkynningu að loka afmörkuðum veiðisvæðum um lengri eða skemmri tíma fyrir öllum togveiðum svo og öðrum veiðum ef nauðsynlegt þykir. Jafnan skal umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar liggja fyrir áður en slíkar tímabundnar veiðitakmarkanir eru úr gildi numdar.“ Þetta segir í 5. gr. núgildandi laga.

Reynslan sýnir okkur því miður, að þrátt fyrir þetta ákvæði, sem við töldum á sínum tíma að væri mikið spor fram á við til að koma í veg fyrir smáfiskadráp, hefur framkvæmdin verið þung í vöfum og oft tafist um of að tryggja friðun samkv. þessari gr. Því var samin hér í þessu frv. ný gr. sem er 8. gr. Raunar má segja að það fjalli fleira um þetta í frv. Það má segja að það byrji þegar í 6. gr. og sé áfram fjallað um það í 7. gr. og 8. gr. að tryggja eftirlit, sem við lögðum mikla áherslu á að yrði nú betur gert en verið hefði nokkru sinni áður. Í 6. gr. segir: „Nú á sér stað á tilteknu veiðisvæði seiða- og smáfiskadráp í þeim mæli að varhugavert eða hættulegt getur talist, og skal þá sjútvrn, gera nauðsynlegar ráðstafanir“ o.s. frv. Og í 7. gr. er fjallað um að það skuli auglýsa þegar í stað. En í 8, gr., og hún er breytt frá því sem við vildum flestir eða allir hafa, þar segir: „Stefnt skal að því, að auk eftirlits Landhelgisgæslunnar skuli sérstök eftirlitsskip, sem gerð verði út af Hafrannsóknastofnuninni, fylgjast með fiskveiðum í fiskveiðilandhelginni í því skyni að koma í veg fyrir óhóflegt smáfiskadráp.“ Við höfum allir talið að óhjákvæmilegt væri að tryggja fast eitt eða tvö skip. Þau þyrftu ekki að vera stór, en þyrftu að hafa valdsvið til þess að vera á veiðisvæði. Það er mikill misskilningur að það sé eingöngu verið að eltast við togara, það sé alltaf verið að eltast við togara. Það er fjöldi báta á togveiðum og ýmsum öðrum veiðum sem eftirlit þarf að vera með og hefur aldrei verið gert og mun ekki verða gert nema 8. gr. tryggi að þetta sé hægt, og það verður ekki gert að mínu mati og flestra í þessari n. nema hafa skipin fyrir hendi. Þau mega vera bátar, jafnvel innan við 100 tonn, eða þá eftirlitsmenn um borð, en ég tel persónulega að vel athuguðu máli að ógerningur sé að hafa eftirlitsmann um borð, honum sé varla stætt á því að vera þar dag eftir dag og þurfa að berjast við erfiðar aðstæður. Þess vegna hallaðist ég að því að við ættum að reyna t.d. tvo báta og vildi því hafa þessa grein ákveðnari.

Nú hefur nýlega verið tryggt mikið fjármagn til fiskleitar. Það frv. er nú þegar orðið að lögum, Ég hefði, ef ég hefði verið staddur hér á þinginu, bætt við að það ætti að fara einnig í eftirlit. Þó að peningar samkv. þeim lögum eigi að renna til Landhelgisgæslunnar, þá hefði ég viljað tryggja það a.m.k. að ákveðin upphæð færi í þessa 2–3 báta sem ég tel alveg lífsnauðsyn að komi og það verði tryggt betur en 8. gr. gerir, því hún fer aftur á hlið miðað við það sem við vildum allir í n., að skyndifriðanir verði miklu raunhæfari en verið hefur. Og þetta viðurkenna allir, sem nálægt þessum málum hafa komið undanfarið, og var viðurkennt um allt land margsinnis af ræðumönnum, hvar sem þeir voru á fundum, og það mun formaður n., herra fiskimálastjóri, geta viðurkennt að þetta kom alls staðar fram, þannig að ég er undrandi á því að sjá að þetta skuli vera svo, nema á þeirri einu forsendu að menn séu svo bjartsýnir að við losnuðum við átök við bretana innan skamms og þá geti Landhelgisgæslan snúið sér að þessu eftirliti. En þá þarf ekki stórt skip í það. Það þarf ekki skip sem kostar milljón á dag í olíu, það er öðru nær. Nei, það er vel hægt að fá bát, sem kostar aðeins nokkur þús. kr. að reka á dag, í svona eftirlit eins og ég hugsa mér og við gerðum í n., og hann getur fylgst með mörgum bátum og hann getur líka fylgst með mörgum togurum og hann getur sent menn um borð er skoði allan afla, er upp kemur, og fylgist því með því hvað er að ske á miðunum. Og þá kemur spurningin: Hvað á þessi maður að hafa mikil völd? Það er erfitt atriði og um það greinir hálærða menn á. Hér gerir frv. ráð fyrir tveimur dögum. Ég tel þetta einum degi of lítið sem lágmark. Ég tel lágmark vera þrjá daga, eingöngu vegna eðlis málsins, að ráðh. hafi smá svigrúm. Jafnvel þó hann vilji tilkynna og staðfesta ákvörðun þessara eftirlitsmanna þegar í stað, sem ég veit að a.m.k. hæstv. núv. ráðh. vill gera sem allra fyrst, þá getur staðíð svo á að hann sé bæði upptekinn, og hann á sitt eðlilega frí um helgar og helga daga og ekki hægt að heimta það, hvorki af honum né hans starfsmönnum, að þeir séu alltaf við fyrirvaralaust. Þess vegna tel ég rétt, að þriggja daga ákvæði haldist, þó ekki sé lítið á annað en eðlilegan frítíma sem allir eiga og flestir vilja nota a.m.k. að sumri til. Þess vegna finnst mér farið aftur á bak frá því sem við vildum í þessari margumræddu undirbúningsnefnd. Staðfesting á þessum skyndilokunum og nauðsyn þeirra mun svo eiga sér stað þegar smásvigrúm hefur unnist til að taka betur á því, annaðhvort með beinum sérstökum rannsóknum á vegum hafrannsóknaskips eða með öðrum betri og öruggum tilraunum eða athugunum.

Þetta vildi ég leggja á mikla áherslu og tel að þessu þurfi að breyta. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur hlotið að athuga þetta mál nokkuð áður og sjálfsagt kemur fram einhver skýring, annaðhvort í ræðu á eftir eða á nefndarfundi, hvers vegna þetta var ekki gert heldur sterkara en frv. gerir ráð fyrir. En ég sætti mig ekki við þetta eins og það er, þó í held sé ég ánægður með frv. eins og ég sagði áðan, og þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa komið því þannig áfram.

Síðan segir í 9. gr.: „Starfsmenn Framleiðslueftirlits sjávarafurða skulu fylgjast með samsetningu landaðs sjávarafla“. Þetta er nú þegar tryggt í lögum um það, að fara skal fram mat á öllum fiski. En hér er það betrumbætt og settur á viðbótarhnútur svo ekki geti þeir skotið sér undan því að meta fisk samkv. samsetningu, en það var þegar tryggt í hinum lögunum. En sjálfsagt er nauðsynlegt að hafa það einnig í þessum lögum. Hins vegar er ég ekki alveg ánægður með seinni mgr.: „Skipstjórum veiðiskipa er skylt að veita þær upplýsingar um samsetningu afla í afladagbók sem Fiskifélag Íslands segir fyrir um á hverjum tíma.“ Spurningin er um: Hvað er afli? Mönnum finnst kannske undarlega spurt. En þegar það er staðreynd að menn verða stundum að henda 10–20% af þeim fiski sem í ákveðið veiðarfæri kemur, þá set ég spurningarmerki við orðið „afla“ hér. Ég nefnilega lít á það sem afla sem inn fyrir borðstokk kemur þó honum sé hent frá borði. Það þarf ekki að landa öllum afla í land á íslandi, og þá fer að verða erfitt fyrir þessa menn sem eiga og skulu samkv. frv. og skulu samkv. væntanlegum lögum fylgjast með samsetningu aflans. Ég sé því ekki annað en það verði að skylda skipstjórnarmenn til að segja til um samsetningu afla, er inn fyrir borð kemur, eða eitthvað í áttina að því, sem sagt að gera þeim skylt að segja frá því er í veiðarfæri kemur og samsetningu alls þess afla. Það getur vel verið að menn segi að það sé ekki hægt að treysta slíkum skýrslum, en það verður á það að reyna, og ég ætla mikinn meiri hluta skipstjóra það ráðvanda og heiðarlega að þeir muni satt frá skýra. Ég ætla það, þrátt fyrir að sumir hafi talið það mjög hvimleitt að heyra skipstjóra ákveðinna flota og ákveðinna veiðisvæða gefa sjálfum sér siðferðisvottorð, þegar á heildina er litið séu þetta menn sem vilja hafa það í raun er sannast og réttast er. Því tel ég að lög með slíku ákvæði geri þeim ekki neitt erfitt að standa við það, sem lögin ætlast til að þeir geri, og segja samviskusamlega frá öllum afla. En ef þetta stendur svona, þá er létt verk að skjóta sér undan því og segja: Aflinn er aðeins það sem á land kemur — og hafa ekki áhyggjur af því er fyrir borð fer, sem er ekki leyfilegt að landa og er of smár fiskur, og þá er illa farið.

Miklar umr. urðu um það í n. hversu viðtækt vald hæstv. ráðh. ætti að hafa samkv. þessu frv. og voru sumir á því að ráðh. ætti að hafa mjög mikið vald og geta sett reglugerðir um næstum allt varðandi fiskveiðar. Ég var hins vegar á því, eins og frv. ber með sér, að við ættum að lögleiða hér grundvallaratriði, grunnlínurnar, sem við mættum fiska að landinu með flotvörpu, og það væri ekki nema á valdi Alþ. að hreyfa þær vegna þess að það hefur sýnt sig í gegnum árin að það er mjög viðkvæmt atriði og snertir menn mjög misjafnlega, og ég efast um að nokkur ráðh., hver svo sem hann væri, mundi æskja eftir því að hafa slíkt vald. Þó hafði komið mjög skýrt fram sums staðar á fundum og jafnvel innan n., ekki eiginlega þingmannahópsins, heldur fyrst og fremst hinna, eða sú skoðun ríkti að það væri lífsnauðsyn nú til þess að hafa hemil á ýmsum vandamálum að ráðh. hefði allt þetta vald í hendi sér og gæti stjórnað með reglugerðum næstum daglega, eins og einu sinni var orðað. Þetta held ég að sé mikill misskilningur og ég tel það farsælt eins og frv. hefur farið þarna milli skers og báru, að leysa ákveðin erfið vandamál með ákveðinni löggjöf, en gefa hins vegar ráðh. færi á því að bjarga viðkvæmum málum með reglugerð og undirbúa það í tæka tíð. Einnig var uppi sú hugmynd að hæstv. ráðh. yrði að ræða við verktaka í ráðgjafanefnd í þessu skyni og bera mikið undir hana. Við lögðumst sumir eða allir þm. heldur á móti slíku, og ég sé að hæstv. ráðh. hefur fallist á það sjónarmið okkar að það væri ekki æskilegt að hafa of mikið bundið í þessu efni. Hann hefur auðvitað alltaf aðgang að stjórn Fiskifélagsins og Fiskifélaginu og mörgum öðrum hagsmunahópum og hlýtur að leita til þeirra eftir því sem hann telur efni og ástæðu til, og er ég honum sammála í því efni, að núv. búningur frv. sé eðlilegur í þessu skyni.

Hæstv. ráðh. hefur þegar — og það er mjög þakkarvert - hlustað á till. er n. gerði á sínum tíma um stækkun á möskva og breytingar á friðunarsvæðum, og vil ég sérstaklega þakka honum það að hann stækkaði friðunarsvæðið fyrir Norðurlandi sem í mörg ár hafði verið mikið áhugamál mitt og ég vildi alltaf hafa stærra og fast allt árið, hvað sem líður vísindalegum rannsóknum til þess að byggja þessa friðun á. Sumir sögðu að hún væri ekki nægileg fyrir hendi. Við margir, sem erum aldir þarna upp og höfum róið á þessi mið árum saman, vitum að á þessu svæði er jafnan smáfiskur. Og það er ekkert nema gott um það að segja ef stór fiskur dvelst þar um stund og stækkar. Þá fá austfirðingar hann bara síðar heldur búsnari en hann var áður og síðan sunnlendingar ef hann sleppur frá Vestfjarðamiðum. Ég tel hér engu hætt, heldur mikla bót í þessu efni. Þess vegna þakka ég hæstv. ráðh. sérstaklega fyrir að hlusta á þessar raddir sem vildu þessa friðun.

Önnur friðunarsvæði hafa verið stækkuð og aðrir möguleikar. Sumir segja að það sé um að gera að friða allt og friða, en það verða líka öfgar og fjarstæða. Við verðum að drepa fiskinn. Kjarni málsins er að drepa fiskinn rétt og eðlilega. Á því lifum við. Og eitthvað verður drepið af smáfiski þó að við verðum að fara varlega í það og sérstaklega varlega í það næstu 2–5 árin.

Við verðum að byggja fiskstofnana upp með heilbrigðri og skynsamlegri nýtingu og heilbrigðri og skynsamlegri sókn, og þess vegna er vandamálið svo mikið, að nú er stofninn í algjöru lágmarki. Um það deila menn ekki. Ég tel að þrátt fyrir margt gott í þessu frv. og sem heild ágætt, þá verði að herða hér nokkuð á svo að framkvæmd þessarar viðleitni, sem frv. ber með sér, verði tryggð. Ég óttast ella að það fari í sömu átt og verið hefur undanfarin ár. Um þetta mikilvæga atriði um skyndifriðanir vegna óvarlegs smáfiskadráps á vissum svæðum, þar sem erfitt er að ýta skipstjórum burt, verður að hafa ákvæði í lögum er tryggi að svæðunum sé lokað. Þá eru allir skipstjórarnir jafnir. Það er svo erfitt fyrir góða menn, sem vilja passa sig, 2–3–4 af 10–20 togara hóp, að fara eina burt. Við verðum að skilja að það er raunverulega frágangssök, jafnvel þó menn verði að henda þriðja til fjórða hverjum fiski, þá eru aflamenn einu sinni aflamenn og þegar aðrir gera það, þá neyðast þeir nauðugir viljugir til að halda veiðunum áfram. Þetta hafa ágætismenn margsinnis sagt mér og jafnvel menn er hafa stuðlað að verulega miklum friðunum og hafa skrifað um þær í blöð og vilja standa við það hvar og hvenær sem vera skal — mjög miklir og góðir aflamenn. En þetta er viðkvæmt mál, að sigla burt frá góðum afla þó fiskur sé smár og jafnvel hættulega smár þegar margir aðrir halda áfram. Þá er engin önnur leið en að friða um stund svæðið og sjá hvað setur í því efni, hvort fiskur fjarlægir sig aftur, hvort smáfiskurinn grisjar sig frá hinum eða ekki. Um þetta verður að vera skýrt ákvæði í lögum, og það er eiginlega það eina sem ég er sérstaklega óánægður með að skuli ekki vera heldur harðara en við gerðum ráð fyrir, því það er farið aftur á bak í því efni eins og frv. er nú sett fram.

Ég tek undir aftur með 1. þm. Vesturl. að við verðum að tryggja það að lög og reglugerðir í þessu efni séu vel haldin. Það er ekki sæmandi að una við annað, og frv. verður að tryggja að svo sé. Það mun kosta eitthvert fjármagn, en við verðum þá að tryggja það um leið. Ég tel að nýsamþykkt lög geri það. Þess vegna verðum við að bæta heldur úr í 8. gr., og ég vona að sjútvn. komi með þá breyt. að tryggja eitthvert lágmarksátak. Mér finnst ekki nóg að segja: „stefnt skal að“. Það verður þá að liggja fyrir að eitthvað sé að ske hér á miðunum í okkar landhelgismáli er sannfæri mig um að verkefni okkar skipa verði ekki bundið við annað starf en að eiga við okkur sjálfa fyrst og fremst. Auðvitað kemur að því og vonandi fyrr en síðar að okkar landhelgisskip verði fyrst og fremst eftirlitsskip gagnvart okkur sjálfum og björgunar- og þjónustuskip. En því miður er það ekki fyrir hendi í dag. Ég vildi þess vegna hafa þetta á hreinu í væntanlegum lögum og mun stuðla að því að þetta frv. geti haldið áfram og verði að lögum nú í vor. En ég vildi aðeins í leiðinni forvitnast um það hjá hæstv. ráðh.: Hefur hann auglýst nú þegar breytingu á væntanlegri möskvastærð á trolli, svo menn viti um það í tæka tíð að stefnt sé að því að stækka möskvann? Margir vita það, en hefur það verið auglýst í tæka tíð svo menn komi ekki með undanþágubeiðnir og vandræðakröfur, og einnig að þau atriði, sem hann hefur gert grein fyrir á öðrum vettvangi, verði tryggð á þessu ári? Ég veit að hann persónulega vill a.m.k. stuðla að því að það komist í höfn.