10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

238. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur haft til athugunar frv. til l. um skipulag ferðamála. Við 1. umr. þessa máls gerði hæstv. samgrh. grein fyrir efni frv. og þeim breyt. sem það gerir ráð fyrir frá því sem er í núgildandi lögum, en þær eru helstar að Ferðaskrifstofa ríkisins annast framvegis aðeins almennan ferðaskrifstofurekstur ásamt rekstri Edduhótelanna, en Ferðamálaráð taki við annarri starfsemi sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur annast. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir ýmsum breyt. á skipan og starfsemi Ferðamálaráðs. Þá er kveðið á um 10% gjald á vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík, sem renni annars vegar til landkynningar og hins vegar til endurbóta á aðstöðu fyrir ferðamenn á fjölsóttum stöðum. Einnig eru auknir möguleikar Ferðamálasjóðs til að sinna hlutverki sínu.

Samgn. hefur rætt þetta mál á fundum sinum og var einn sameiginlegur með samgn. Nd. Á þeim fundi mættu Ólafur Steinar Valdimarsson, form. n. þeirrar sem undirbjó þetta frv., Lúðvík Hjálmtýsson, form. Ferðamálaráðs og Björn Vilmundarson, forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins, og skýrðu þeir þær breyt. sem í frv. felast. Samgn. varð sammála um að leggja fram nokkrar brtt. við frv. og eru þær á þskj. 656.

Í 1. gr. er bætt inn orðunum „og félags-“ til að leggja áherslu á að ferðamálin eru mikilvægur þáttur bæði í atvinnu- og félagslífi.

Skv. 7. gr. frv. eru Ferðamálaráði falin fjölþætt verkefni og til þess að leysa þessi verkefni hlýtur að vera æskilegt að nýta sem best þekkingu allra þeirra sem þar sitja og að þessum málum vinna. Samgn. leggur því til að ákvæði 5. gr. frv. um, að Ferðamálaráði skuli skipuð sérstök stjórn, verði fellt niður og sama skipan verði höfð eins og verið hefur með Ferðamálaráð að því leyti, en í staðinn verði kveðið á um að Ferðamálaráði sé heimilt að skipa undirnefndir sem vinni að einstökum málaflokkum og þannig verði meiri hagkvæmni í starfsemi ráðsins og einnig sé heimilt að skipa sérstaka framkvæmdanefnd komi í ljós að slíkt sé æskilegt, en um það og fleira verði sett nánari ákvæði í reglugerð. En samhliða þessari breyt. á skipulagi Ferðamálaráðs leggur samgn. til að bætt verði tveimur fulltrúum í ráðið, þannig að samgrh. skipi þrjá og önnur flugfélög en Flugleiðir hafi rétt til að tilnefna einn, en eins og við vitum gegna minni flugfélög allmiklu hlutverki í ferða- og samgöngumálum hér á landi. Það kom til tals að fjölga í ráðinu, þannig að það yrði þá skipað allt að 15 fulltrúum, en samgn. gengur ekki lengra en þetta í fjölgun í till. sínum, en e.t.v. verður það þá skoðað siðar ef æskilegt þykir.

Í samræmi við þessa breyt., að fella niður ákvæði um stjórn, þá fellur niður orðið „stjórn“ í nokkrum greinum frv., og kemur það fram í brtt. n. Skv. frv. er gert ráð fyrir að 10% gjaldið af vörusölu Fríhafnarinnar skuli fyrst og fremst renna til landkynningar, eins og ég sagði áður, en þó sé Ferðamálaráði einnig heimilt að veita styrki af því til að koma upp eða endurbæta aðstöðu fyrir ferðamenn á stöðum sem eru fjölsóttir, og mun þar átt við tjaldstæði, hreinlætisaðstöðu og fleira þess háttar. Sú till. stafar af því að augljóst er hvað viða er brýn þörf á slíku. Samgn. taldi að engu síður væri nauðsynlegt að Ferðamálaráð hefði helmild til að stuðla að og styrkja byggingu gistirýmis þar sem reynslan hefur sýnt að skortur á því er viða mikið vandamál, bæði fyrir þá, sem skipuleggja hópferðir um landið og vantar aðstöðu til gistingar á eðlilegum áfangastöðum, og einnig fyrir heimamenn vegna þess fjölda sem heimsækir ýmsa staði enda þótt aðstaða sé þar ekki viðunandi. Af þessum sökum leggur n. til að 8. gr. frv. verði breytt þannig að Ferðamálaráð hafi heimild til að láta nokkurn hluta 10% gjaldsins renna til Ferðamálasjóðs sem skv. 24. gr. noti það til að örva byggingu gistirýmis, eins og Ferðaskrifstofa ríkisins mun aðeins hafa gert, en eðlilegt virðist að þetta sé nú hlutverk Ferðamálasjóðs, annaðhvort með framlögum eða eignaraðild, eftir því hvort heppilegra þykir, en það getur riðið baggamuninn að einhver slík örvun og stuðningur fáist.

Við 18. gr. er bætt ákvæði um að upphæð bankatryggingar fyrir rekstur ferðaskrifstofu skuli endurskoðuð ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti og þá breytt til samræmis við almennar verðbreytingar. Enn fremur er við 18. gr. bætt því ákvæði að ferðaskrifstofur skuli árlega senda rn. ársreikninga sína, endurskoðaða af löggiltum endurskoðanda, en n. taldi óeðlilegt að fella slíkt ákvæði alveg úr lögum eins og gert var ráð fyrir með frv.

Að lokum leggur n. til að 35. gr. verði breytt þannig að í stað ákvæða um aðgangseyri að fjölsóttum ferðamannastöðum í umsjá ríkisins komi ákvæði um heimild fyrir innheimtu á sanngjörnu gjaldi fyrir veitta þjónustu á slíkum stöðum, en þó þurfi samþykki Náttúruverndarráðs fyrir slíku á þeim stöðum sem eru á þess vegum. Þetta er fyrst og fremst orðalagsmunur, að kalla þetta gjald fyrir veitta þjónustu í staðinn fyrir aðgangseyri að slíkum stöðum.

Samgn. er sammála um að mæla með samþykkt frv. með þessum breyt., en fjarverandi við afgreiðslu málsins var Jón Árnason.