10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3850 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

257. mál, jarðalög

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til umfjöllunar og rætt það á fundum sinum, en nm. náðu ekki samstöðu um það. Einn nm., minni hl. landbn., Bragi Sigurjónsson, skilar séráliti sem hér hefur verið lagt fram og geri ég það ekki að umtalsefni frekar, en vil í örfáum orðum koma að viðhorfi okkar í meiri hl. n. til þessa frv.

Ég get að vísu sparað mér að tala langt mál um þetta stóra frv. þar sem hæstv. landbrh. gerði ítarlega grein fyrir því við í. umr. um það. Ég vil þó undirstrika það að frá því að það var lagt fram hér fyrir tveimur árum fullum hafa verið gerðar á því ýmsar þýðingarmiklar breytingar og tel ég að þær séu veigamestar sem varða þau ákvæði frv. að sveitarstjórnunum er fenginn með ótvíræðum hætti ákveðinn réttur til ákvörðunar um ráðstöfun jarðeigna og nýtingu þeirra og að þær fái til þess bakstuðning jarðanefnda, eins og þær eru nefndar í þessu frv. sem hér er til umr. Þá er einnig að mínum dómi og okkar í landbn. veigamikil breyt. hvað varðar skipulagsmál í strjálbýli. Er frv. nú samræmt sveitarstjórnarlögum þar sem sveitarstjórnirnar hafa eftir þeim fyrst og fremst og eingöngu með skipulagsmál að gera. Það var að nokkru leyti samtvinnað verkefni byggðaráðs í frv. eins og það var flutt. Þá gerir þetta frv. ráð fyrir því að Landnám ríkisins starfi áfram og byggðaráðunum, sem áður hétu svo, en nú eru kölluð jarðanefndir, er ætlað að vera til aðstoðar sveitarstjórnum, eins og ég nefndi áðan, og landnámsstjórn, en um leið er gert ráð fyrir því, að leggja niður landnámsnefndir héraðanna sem starfa eftir landnámslögum.

Þá er þess að geta, að í þessu jarðalagafrv. er að finna ákvæði um sumarbústaði, um skipulega uppbyggingu sumarbústaðahverfa og um ákvörðunartöku í sambandi við landssvæði sem hentug eru talin til útilífsnota fyrir almenning.

Það má segja að í þessu, sem ég hef hér nefnt, sé að finna veigamestu atriðin sem komið hafa til breyt. við endurskoðun jarðalagafrv.

Ég tel ekki, eins og ég sagði áðan, ástæðu til að fara neitt frekar út í þær breyt., hvernig þær eru. Það hefur hæstv. landbrh. gert áður, eins og ég gat um. En ég vil aðeins segja það að lokum að einn nm. skrifar undir þetta nál. með fyrirvara sem hann mun skýra hér á eftir, og hefur hann flutt brtt. við frv. sem meiri hl. landbn. gat ekki orðið ásáttur um.

Eins og fram kemur á nál. meiri hl. leggur meiri hl. landbn. til að frv. verði samþ. óbreytt. Meiri hl. n. sem sagt flytur ekki brtt. við frv. og leggur til að það verði samþ.