10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3859 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

257. mál, jarðalög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að hafa mál mitt langt. Ég verð samt að láta það álit mitt í ljós að mér hefur alltaf fundist óþarfi þessar takmarkanir á ráðstöfun þeirra fasteigna, er hér um ræðir, frekar en annarra. Lengst af hefur verið hægt að fara með okkar jarðeignir eins og aðrar fasteignir, og þrátt fyrir það sé ég ekki annað en að við framleiðum landbúnaðarafurðir handa okkur sjálfum og sé algjör óþarfi að auka þá framleiðslu, þannig að það ætti ekki að vera í þeim tilgangi gert að tryggja að hver sú jörð, sem ekki er nýtt til landbúnaðar í augnablikinu, skuli innan tiltekins árafjölda verða nýtt sem landbúnaðarjörð. Það er fyrst og fremst það sem ég hef að athuga við þetta. Mér finnst 13. og 14. gr. vera óeðlilegar, og mig langaði til að koma með tvær fsp. til ráðh.:

1. Hvað á þessi skipting að ná langt aftur? Það er vonandi ekki svo að reykvíkingar geti keypt upp afganginn af landnámi Ingólfs eða að ákvæðin nái aftur til 17.–18. aldar, því jarðir voru nefnilega miklu stærri áður fyrr heldur en núna. En það getur ekkert um það í greinunum hvað um sé að ræða annað en að það sé jarðarpartur og einmitt, eins og mun nú vera algengast, að þarna er um skipti vegna erfða að ræða. Þá er þetta ansi viðkvæmt mál viða, og ég held það sé algjörlega ástæðulaust að líta þannig á að það hamli landbúnaði í landinu verulega þó að fleiri eigendur en einn séu að stöku jörð í landinu. En það er með þetta eins og margt annað, áróðurinn hefur verið sterkur. Hver sá, sem á jarðarpart, er talinn braskari, og þetta hefur haft þau áhrif að nú virðast í raun og veru allir á einu máli um það, að erfingjum skuli mismunað. Þótt finna megi dæmi um óheppilegar ráðstafanir, þá eru það undantekningar. Ég held að það sé algjör misskilningur hjá 12. þm. Reykv. að þetta sé gert fyrir bændurna, að það séu hagsmunir þeirra sem séu hafðir í huga þegar verið er að setja þessi lög því að allar takmarkanir á ráðstöfun fasteigna, jarðanna, hljóta að þýða að menn séu óöruggari með að fá fjármagn sitt til baka sem þeir hafa lagt í framkvæmdir á sínum jörðum, og ég held að þetta sé ekki það sem muni lyfta okkar landbúnaði upp.

En það, sem mig langaði mikið til að vita, var m.a. varðandi 13. og 14. gr., hvort um er að ræða t.d. lönd sem erfingjar hafa fengið til þess að geta byggt, við skulum segja sumarbústað þar sem þeir eru uppaldir eða við hvað á að miða því að eins og gengið er frá þessu í greinunum, þá held ég að það sé eingöngu komið undir áhuga sveitarstjórnar eða ráðh. hvað langt á að ganga í því að gera land upptækt. Ég á ósköp erfitt með að fella mig við það að slíkt eignarnám sem hér á að fara fram sé eitthvað í þágu almennings. Ég get ekki séð að það sé neitt sem styður þá hugmynd, og eins og ég segi, ég held að allt, sem torveldar viðskipti með jarðirnar, verði til þess að menn hiki meira við að fjárfesta í jörðum, bæta þær og gera þær verðmeiri, einmitt vegna þess að þeir vita að það er ekki öruggt að þeir fái það til baka sem þeir hafa lagt í þær.