10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3860 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

257. mál, jarðalög

Frsm, meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að segja mörg orð um það sem hér hefur komið fram eftir að ég skýrði frá áliti okkar í meiri hl. landbn. Ég held að ýmislegt af því, sem sagt hefur verið síðan, hafi verið sagt vegna vanþekkingar á því málefni sem hér er til umr.

Mér er alveg sama um það hvort t.d. hv. 12. þm. Reykv. er sjálfstæðismaður eða hvort hann talar hér sem sveitarstjórnarmaður, hann hefur ekki fundið þann þráð sem er í þessu frv. og virðist ekki vita af því markmiði sem liggur að baki því. Og ég vil halda því fram að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem sveitarstjórn á Íslandi þarf að styðja sig við einhvern bakhjarl þegar hún tekur ákvörðun. Ég veit ekki betur en sveitarstjórn í strjálbýlinu megi ekki taka ákvörðun um fjármálaskuldbindingar nema bera það undir sýslunefnd, og ég hygg að það sama gildi um kaupstaði, að þeir verði að hafa samráð við það rn. sem yfir þá er sett. Og þetta, sem er gert ráð fyrir í þessu frv., að jarðanefnd sé til ráðuneytis við sveitarstjórn, er fyrst og fremst fyrir það að það hefur komið í ljós að sveitarstjórnir eru víða um land það veikar fyrir að þær þurfa bakstuðning til þess að koma fram ákvörðunum sem þær eiga að taka skv. lögum. Er þar ekki eingöngu um að ræða málefni eins og það sem hér er til umr. Það eru ýmis önnur ákvörðunarefni sem sveitarstjórn þarf að taka sem líkt stendur á um, og vil ég þá sérstaklega nefna forðagæslu, sem ég veit að vísu að hv. 12. þm. Reykv. hefur ekki mikla reynslu í. En annað er, sem hann ætti að hafa nokkra reynslu í, en honum virðist hafa gleymst, og það er að sveitarstjórnir hafa þurft að taka ákvörðun og leggja hömlur á vilja borgaranna að fleiri fyrirmælum heldur en þeim sem eru í þessu frv. sem hér er til umr. Ég held að ég muni það rétt að borgarstjórn Reykjavíkur hafi t.d. þurft að ákvarða um ráðstöfun fasteignar hér í borginni til ákveðinna nota á þessum vetri. Ég hygg að það hafi ekki verið í heimildarleysi eða fyrir það að borgarstjórnin hafi ekki þóst vera að gera rétt. Ég er ekki að gagnrýna á neinn hátt þá ráðstöfun þegar neitað var um að setja upp markað við Sundahöfn. Það er ég ekki að gagnrýna á neinn hátt. Ég vil aðeins benda á það að sveitarstjórn tók þarna í taumana og hamlaði gegn umráðarétti á eign innan borgarmarkanna.

Ég ætla ekki að fara ýkjamörgum orðum um þetta frekar. En út af því, sem hv. 2. þm. Reykn. gerði hér að umtalsefni í sambandi við 14. gr. frv., hvort hér væri átt við að ábúandi jarðar mætti leysa til sín sumarbústaði á jörðinni, þá er að sjálfsögðu fjarri lagi að við það sé átt. Ég hygg að sveitarstjórnarmenn og bændur hafi aldrei lagt þann skilning í sumarbústað að hann héti jarðarhluti, sem er beinlínis getið um í þessu frv., þannig að ég tel að það fari ekkert á milli mála hvað er átt við í því efni.

Áður en ég lýk máli mínu þykir mér rétt að koma hér lítils háttar að einu atriði sem hv. 7, landsk. þm. kom að. Það var till. frá Ragnari Arnalds sem var samþ. hér í Ed. þegar fyrra frv. var hér til afgreiðslu og hann sagði að hefði verið til komin fyrst og fremst vegna dæmis um jarðarsölu austur í Flóa, svokallaðs „Votmúlamáls“. Hættulegra mál var það ekki en svo, að Votmúlabóndinn gat ekki selt, svo það varð ekki að hættuefni í því tilliti. En ég vil undirstrika það sem ég gat um í umr. þá, að ég er andvígur því að um eignir manna gildi ekki sömu ákvæði hvar sem þær liggja í landinu, og ég var andvígur því að það væru reistar sérstakar skorður við því hversu hátt verð mætti vera á bújörðum bænda, en ekki öðrum eignum í landinu.

Ég staðfesti það að sjálfsögðu að um þetta efni eru ekki þau ákvæði sem samþ. voru hér að till. Ragnars Arnalds á sínum tíma. En ég vil minna á það, að í stefnuræðu forsrh., sem flutt var í okt. s.l., er skýrt frá því að ríkisstj. hafi tekið til endurskoðunar ýmis ákvæði skattalaga, svo sem skattlagningu söluhagnaðar, og ef þarf að setja einhverjar sérstakar skorður við því sem er um að ræða í þessari tillögugerð sem Ragnar Arnalds var með og hv. 7. landsk. þm. tekur nú upp, þá tel ég miklu eðlilegra að það sé gert með einu ákvæði fyrir allar eignir í landinu heldur en að taka út úr aðeins jarðir í strjálbýli.