10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

257. mál, jarðalög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka hér til máls við 3. umr. þótt komið sé fram yfir miðnætti hér í störfum Alþ., en það er vegna þess að ég vil vekja athygli á því að ég tel að við séum að breyta hér 40. gr. stjórnarskrár Íslands, en hún fjallar um tekjuöflun ríkisins og ráðstöfun á eignum ríkisins. Hún er stutt og ætla ég að fá leyfi til að lesa hana, en 40. gr. stjórnarskrár Íslands hljóðar svo: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neinar af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkv. lagaheimild.“

Með því að breyta þessu tekur Alþ. það mikilvæga skref, sem hefur verið í ártug hér í lögum, að falla frá því ákvæði í stjórnarskránni að það þurfi sérstök lög hverju sinni til að ráðstafa eignum ríkisins. Ég vek athygli á þessu merkilega skrefi í 28. gr. þessa frv. Að viðhöfðu nafnakalli við 2. umr. var brtt., er flutt var af minni hl. landbn., felld, en í 28. gr. segir: „Ráðh. er heimilt að selja jarðir eða jarðarhluta í ríkiseign.“ Hv. 12. þm. Reykv. taldi þetta einnig það mikilvægt ákvæði að rétt væri að hæstv. forseti frestaði umr. og kynnti sér nokkuð viðhorf manna í þessu efni og bæri viðhorf einhverra þekktra lagaskýrenda eða prófessora hér inn í hv. d. Við þessu hefur hann ekki orðið, nema það verði hlustað á þessa ósk nú, en ég hefði gjarnan viljað fá þetta athugað nánar. Hins vegar tel ég það nauðsynlegt fyrir þá, er túlka eiga þessi lög siðar og fara eftir þeim, að það liggi þá alveg ótvírætt fyrir að hæstv. ráðh. telji að þessi stjórnarskrárheimild veiti honum almennt vald skv. því frv., er síðar verður að lögum skv. 28. gr. þessa frv., til þess að selja eignir ríkisins að fenginni ákveðinni umsögn og þurfi ekkert um það að ræða fremur við Alþ. En hér á sér stað mjög merkileg og athyglisverð breyting. Fyrsti hluti þessarar gr. er um almenna tekjuöflun og að ekki verði lagður skattur á hinn almenna borgara nema að fenginni lagaheimild. Einnig hefur stjórnarskrá lýðveldisins jafnan tryggt að ekki verði ráðstafað eignum lýðveldisins nema að fenginni lagaheimild. Þetta hafa allir flokkar talið eðlilegt. Ef hv. Alþ. vill hér gjörbreyta um og fela einum manni, sama hver það er, um óákveðna framtíð almenna ráðstöfun eigna ríkisins, að fenginni að vísu ákveðinni umsögn og meðmælum ákveðinna manna, þriggja manna, jafnvel pólitískt skipaðra, að ósk ráðh., þá er hér um grundvallarstefnubreytingu að ræða að mínu mati og fleiri manna hér í hv. d. Ég tel þetta ákvæði svo mikilvægt að það sé ekki verið að spyrna gagnvart anda þessa frv. og laga væntanlegra, heldur að við verðum að gera okkur nákvæmlega grein fyrir því út í hvað við erum að fara hér, hvaða vald við erum að taka af Alþ. og selja í hendur eins manns, þó hann leiti umsagnar þriggja annarra manna og það ágætra manna oft á tíðum auðvitað.

Ég vil vekja athygli á þessu enn einu sinni, og ég verð að láta í ljós þá ósk að við fáum umsögn góðra manna, sem eru stjórnlagafræðingar, því jafnvel þó að ágætir menn hafi samið þetta frv. og það hafi verið rætt í n., þá hefur oft komið fyrir að mönnum hafi skotist yfir viss atriði, það verð ég að segja. Hæstv. forsrh. er nú viðlátinn, en gat ekki verið viðlátinn atkvgr. áðan, og það væri ekki úr vegi að heyra skoðun hans á þessu mikilvæga máli. Ég ætla ekki nokkrum manni það að hann sé að halla á rétt og hlut ríkisins — alls ekki. Ég vil aðeins að málið sé athugað eilítið nánar, og ég skal ekki tefja meira fyrir málinu þannig að það fái ekki eðlilegan framgang. En ég vil undirstrika það, að hér liggi um nánari og ákveðnari umsögn. Verði gr. samþ. óbreytt tel ég að Alþ. breyti anda 40. gr. stjórnarskrárinnar og afhendi ráðh. óhindrað vald til að selja eign ríkisins, og það er ákaflega athyglisverð breyting. Ég get ekki annað, herra forseti, en vakið athygli á þessu, vegna þess að þegar þetta frv. er orðið að lögum tel ég að hæstv. ráðh. hafi þetta vald og þurfi aðeins að leita umsagnar um ráðstöfun til þessarar n. Hann ræður svo hvað hann gerir með þá umsögn. En við erum búin að afsala honum til handa valdinu í þessari gr. stjórnarskrárinnar, því þegar þetta er orðið að lögum má gera þetta örugglega almennt talað.