10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3883 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

257. mál, jarðalög

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það er hér gerð aths. við ákvæði í frv. til jarðalaga sem ég álít að sé eðlilegt að við ræðum lítils háttar. Ég skal reyna að eyða ekki á það mörgum orðum, en ég vil vekja á því athygli að þetta ákvæði í frv., sem hér er til umr., er óbreytt frá því sem var í fyrra frv., sem búið var að samþ. hér í hv. Ed. fyrir tveimur árum fullum. En ég vil einnig vekja athygli á því, að þegar það frv. var til meðferðar í landbn. Ed., þá fengum við til fundar við okkur nm. dr. Gauk Jörundsson prófessor og hann var inntur eftir því og sérstaklega inntur eftir því, hvort þetta ákvæði stangaðist á við stjórnarskrána, og taldi hann það ekki vera. Ég vil líka minna á það, að við höfum unnið þetta frv. upp að nýju og með okkur við þau vinnubrögð hefur verið ráðuneytisstj. í landbrn., Sveinbjörn Dagfinnsson, og hefur hann ekki fundið ástæðu til þess eða ekki metið málið þannig, að það væri ástæða til að breyta þessu ákvæði. Ég vil vekja athygli á því einnig, að í stjórnarskránni er gert ráð fyrir því að sölur megi ekki gera án lagaheimildar, og ég vil telja, hvað sem menn annars segja um þetta ákvæði, að með þessu sé fengin heimild í lögum til þess að selja jarðeign.

Ég sé því ekki að á þessu stigi sé neitt óvenjulegt við að samþ. þetta ákvæði eins og það er. Ég vil geta þess, að ef það kæmi í ljós við enn þá nánari athugun, sem ég á ekki von á, að hún leiði nýtt í ljós í þessu efni, þá er önnur deild eftir og mundi þess vegna vera hægt að kippa málunum í lag ef þetta dæmdist vera þannig að það stæðist ekki.

Ég vil því leggja til, herra forseti, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.