10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3888 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

257. mál, jarðalög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef átt sæti í þeirri n. sem átti hlut að þessu máli og frá því fyrsta að farið var að ræða þetta frv. var haft samráð við lögfræðinga, aðra en þá, sem beinlínis unnu að málinu, en sem kunnugt er þá er ráðuneytisstjórinn í landbrn. glöggur lögfræðingur. Í öðru lagi minnist ég þess, að þegar þetta frv. var hér til meðferðar áður í Alþ., þá átti sæti í landbn. Ed. Alþ. sýslumaður rangæinga, Björn Fr. Björnsson, og var hann mjög krítískur á allt það í þessu máli sem varðaði eignarréttinn, og geta aðrir einnig um það borið hér í hv. Ed., fleiri en ég, ef það er vefengt sem ég segi. Ég minnist þess, að n., sem vann þetta mál, hafði náið samband við Gauk Jörundsson prófessor og einnig landbn. Ed. á sínum tíma og hann taldi hvorki þetta ákvæði í frv. né heldur önnur hliðstæð brjóta í bága við stjórnarskrána. En eigi að síður finnst mér, úr því að þetta er vefengt hér, að þá getum við vel frestað þessu máli til morguns og reynt að afla frekari upplýsinga um þetta mál heldur en að menn virðast gera sér að góðu nú. Það er hvorki minn vilji né annarra dm. hér að samþ. það er brýtur í bága við stjórnarskrána. En á það vil ég minna í sambandi við 28. gr. þessa frv., að hér er einungis um sölu að ræða til sveitarfélaga, ekki til einstaklinga. Sveitarfélögin eru ekki heldur frjáls að því að selja sínar eignir nema með samþykki annarra aðila. Og í þriðja lagi koma þarna til í öllum þessum tilvikum þær n. sem hafa talsvert með að gera jarðeignamálin, ef þetta frv. verður að lögum, þ.e. jarðanefndir. Ég ætla því að það sé ekki svo laklega um þessa hnúta búið eins og kannske virðist vera í fljótu bragði.

Síðast, en ekki síst vil ég á það minna að í öll þau ár, sem ég hef verið á Alþ. og leitað hefur verið lagaheimildar um að selja ríkiseignir eða ríkisjarðir, man ég ekki eftir því að Alþ. hafi hafnað slíkum heimildum fyrir hönd ríkisins og það þótt einstaklingar hafi átt í hlut í flestum tilvikum. Gegnir um það þó nokkuð öðru máli heldur en þegar um félagsheildir er að ræða eins og sveitarfélögin. En eigi að síður, eins og ég tók fram áðan, vil ég ekki vera meinsmaður þess að þessi gr. frv. og aðrar þær, sem talið er að brjóti í bága við stjórnarskrána, verði nánar athugaðar.