10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3892 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

238. mál, ferðamál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef setið í Ferðamálaráði sem varaformaður frá stofnun Ferðamálaráðs. Og ég vil segja það, að þessi till. er orðrétt það sem Ferðamálaráð hefur allan tímann barist fyrir. Ég vil ítreka það, sem ég sagði við fyrri umr. um þetta sama mál, að Ferðamálaráði hefur orðið nokkuð ágengt í þessu máli. Ferðamálaráð hefur óskað eftir því við menntmrn. að fá að fylgjast með þegar heimavistir eru á teikniborðinu og menntmrn. hefur ávallt sýnt mikinn samstarfsvilja. Ef Ferðamálaráð hefur ekki verið ánægt með undirtektir, þá hafa þær verið annars staðar frá en frá menntmrn. Þá hafa þau verið frekar frá skólaeftirlitinu og hönnuðum bygginganna. En sem sagt, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir mínar sjónir, við höfum starfað á þennan hátt og ég tel sjálfsagt að þessi brtt. verði samþ. En ég vil gefa hæstv. ráðh. þær upplýsingar að heimavistir fyrir börn og fullorðna án þeirra þæginda, sem ferðamenn gera kröfur til að hafa, þ.e. blöð og klósett við hvert herbergi, eru ekki lengur boðlegar í dag fyrir heimavistarfólkið sjálft. Við erum að færast nær og nær nýjum tímum, og það er ekki sjálfsagðara að láta ferðamenn hafa þessi þægindi heldur en fólkið sem býr þar að vetri til. Ég held við þurfum að betrumbæta þær heimavistir, sem þegar hafa verið byggðar, og sjá til þess að þær, sem byggðar eru í framtíðinni, fullnægi þeim kröfum sem nútíminn og framtíðin gera.

Ég vil upplýsa það að Ferðamálasjóður hefur oft af veikum mætti reynt að koma til móts við byggingaraðila og standa undir þeim viðbótarkostnaði sem heimavistirnar að sjálfsögðu þurfa vegna fullkomnari herbergja og aðstöðu heldur en þeir höfðu kannske hugsað sér að hafa án þess að gera viðkomandi heimavistir að sumarhótelum. En Ferðamálasjóður hefur verið vanmáttugur. Hann hefur alls ekki haft yfir að ráða því fjármagni sem til þess þurfti að standa undir þeim kostnaði, sem hann sjálfur vildi.

Í þessu frv. er Ferðamálasjóður fjármagnaður svo langt fram yfir það sem hann hefur verið hingað til að ég held að hann geti gegnt þessu hlutverki sínu án þess að hafa reglulegt fjármagn eða framlög eða lán, eins og hér segir í brtt., allt að 20 millj. kr. árlega. Ég hefði viljað fella niður þessi síðustu orð: „allt að 20 millj. kr. árlega“ — og þá yrði síðasta málsgr.: „Jafnframt er heimilt í þessu skyni að veita Ferðamálaráði eða viðkomandi byggingaraðila lán úr ríkissjóði fyrir milligöngu Ferðamálasjóðs.“ Og þá fer það bara eftir þeirri upphæð, sem vantar hverju sinni, og náttúrlega að undangenginni athugun, hvað sú upphæð er stór.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því samkv. 8. gr., með leyfi hæstv. forseta, sem ég leyfi mér að lesa hér upphafið að, en það hljóðar svo: „Lagt skal sérstakt gjald á vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík og skal það nema 10% af árlegu söluverðmæti. Gjald þetta rennur óskipt til Ferðamálaráðs Íslands sem ráðstafar því til landkynningarverkefna á sinum vegum. Ferðamálaráði er heimilt að veita einka- eða opinberum aðilum styrki af þessu fé til að koma upp eða endurbæta aðstöðu fyrir ferðamenn á stöðum sem fjölsóttir eru. Ákvarðanir stjórnar Ferðamálaráðs um ráðstöfun þess fjár skulu staðfestar af ráðh.“ Þetta eru viðbótartekjur, ef þær þá skila sér reglulega, þá er þetta til mikilla bóta fyrir Ferðamálaráð. En eins og menn vita eflaust, þá var sams konar ákvæði í samningum sem við gerðum við þá aðila sem fengu einkasöluleyfi á Keflavíkurflugvelli sem ekki stóðust. Við fengum ekki þá peninga þaðan sem við gerðum ráð fyrir í upphafi.

Í 25. gr. er gert ráð fyrir því, með leyfi hæstv. forseta, að tekjur Ferðamálasjóðs verði þessar: „1. Árlegt framlag úr ríkissjóði, eigi lægra en 40 millj. kr.“ Þetta er nýtt ákvæði sem gerir það að verkum að Ferðamálasjóður er miklu öflugri og starfhæfari en hann hefur verið.

Þar til viðbótar segir í 26. gr.: „Ferðamálasjóði er heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka allt að 300 millj. kr. lán eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt ef árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins nær ekki til að hann geti á viðunandi hátt gegnt hlutverki sínu.“ Þetta er líka veruleg aukning á þeirri lánsheimild sem við höfðum áður. Ferðamálasjóður er því miklu öflugri eftir samþykkt þessa frv. heldur en hann hefur verið. En ef þetta nægir ekki, ef Ferðamálasjóður er þrátt fyrir þessar breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, ekki nógu öflugar, þá tel ég alveg nóg að láta þessa grein standa eins og hún er, en að niður falli síðustu orðin: „allt að 20 millj. kr. árlega.“

Að öðru leyti lýsi ég samstöðu minni um þessa brtt. Ragnars Arnalds.