10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3894 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

238. mál, ferðamál

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru örfá orð aðeins. Ég held að þetta sé nú kannske mergurinn málsins sem hv. 5. þm. Austf. sagði núna seinast að í 24. gr. þessa frv. hefur Ferðamálasjóður allar þessar heimildir. Hann hefur heimild til þess að veita einka- og opinberum aðilum lán til framkvæmda við gisti- og veitingastaði gegn fullnægjandi tryggingum og aðrar slíkar heimildir eru allar þarna.

Annars stóð ég nú upp vegna atriðis sem ég hlýt að gera athugasemdir við. Hv. 2. þm. Vestf. sagði að sumir skólar væru illa nýtanlegir fyrir gistihús. Þetta er rétt. En það á aðeins við gömlu skólana, en ekki þá sem verið er að byggja nú á síðustu árum. Það á alls ekki við nýja skóla, eins og t.d. nýja barnaskólann á Hallormsstað sem er talinn úrvals gistihús, — hann hefur ekki baðaðstöðuna að vísu, — og það á ekki við skólann á Reykholti, heimavistina þar, þetta er úrvals aðstaða. Það er ekkert annað, sem þarna skilur á milli í heimavistunum, heldur en það að ekki fylgir bað hverju herbergi. Þetta vil ég láta koma fram.

Sumir geta kannske tekið undir það, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, að fólkið, sem býr í heimavistunum á vetrum þarf að hafa böð og klósett við hvert herbergi. En hins vegar á ég satt að segja bágt með að taka undir þetta á meðan við búum við þau ofboðslegu vandræði í húsnæðismálum skólanna á Íslandi eins og þau eru í dag. Tugum ef ekki hundruðum nemenda er kennt uppí á háalofti hérna g Kennaraháskólanum í Reykjavík. Sums staðar er alls ekkert skólahúsnæði til. Um allt land meira eða minna vantar okkur íþróttahúsnæði við skólana, svo maður nefni nú það sem alkunna er. En auðvitað er það ánægjulegt ef við getum veitt börnum okkar og unglingum, sem dveljast í heimavistum, þessa aðstöðu, en það verður þá sem sagt að koma í gegnum ferðamálin og fjármagnið að vera tryggt.

Hv. þm. 5. þm. Norðurl. v. greindi frá því og það kom ljóst fram, að hann gerir ráð fyrir því að með því að fá húsnæðisaðstöðu þetta bætta muni menn fyrst geta rekið hótelin með viðunandi árangri og þá líka hiklaust greitt þennan mismun. Þetta út af fyrir sig leyfi ég mér að draga algjörlega í efa. Ég er ofurlítið kunnugur rekstri hótela í skólahúsnæði, og það er að vísu kvartað yfir gömlu húsunum. Aftur á móti í nýjum húsum, eins og á Hallormsstað, er ekki kvartað fyrir hönd þeirra gesta sem bera uppi sumarreksturinn, en það eru hóparnir. Ég held að þá hópa, sem bera uppi sumarumferðina á Edduhótelunum, vanti ekki fyrst og fremst dýrara húsnæði sem yrði þá að vera nokkuð miklu dýrara ef það ætti að bera uppi þennan kostnað. En aftur á móti benti hv. 12. þm. Reykv. á, að það er gert ráð fyrir því að Ferðamálasjóður hafi samkvæmt frv. beinar tekjur sem mætti þá grípa til ef reksturinn stæði ekki undir auknum kostnaði.

Annars er ég í sjálfu sér ekkert að berjast á móti þessari till. frá hv. þm. Hv. dm. mega ekki skilja orð mín þannig. En hitt er svo annað mál, að einmitt þetta, viðleitni eða áhugi fyrir að hafa skólahúsnæðið dýrara en bær reglur greina, sem almennt er gengið út frá með skólahúsnæði, hefur valdið menntmrn. drjúgum erfiðleikum. Hitt held ég að sé alveg óhætt að taka undir, að það hefur verið fullur samstarfsvilji af hálfu menntmrn, og þeirra, sem hafa hannað skólahúsnæði, að teygja sig eins og hægt hefur verið við ríkjandi aðstæður í þá átt að gera húsnæðið sem best nýtilegt fyrir ferðamannaþjónustuna. En ég held að meginatriðið sé það, að heimildir eru í frv. eins og það er, og brtt. því ekki nauðsynleg.