10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

154. mál, sálfræðingar

Frsm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) ; Hæstv. forseti. Ég tók til máls við 2. umr. þessa máls og þarf þar litlu við að bæta. Ég vil lýsa ánægju minni yfir að hv. 11. þm. Reykv. hefur dregið till. sína til baka. Ég held að afstaða hans byggist á nokkrum misskilningi, en ég skil fyllilega hvað fyrir honum vakir. Hann tók svo til orða að lögin, eða frv., eins og það liggur fyrir nú mundi, ef að lögum verður, geti svipt menn sinni lærdómsgráðu. Þetta er nú ekki rétt því að sannleikurinn mun vera sá að það mun enginn háskóli til sem útskrifar menn sem sálfræðinga. Þeir útskrifa þá með lærdómstitlum sem fela ekki sjálft sálfræðinganafnið í sér, eins og cand. psych., maitre de psych. o.s.frv., eftir því hvaða háskóli er annars vegar. Þessir lærdómstitlar eru auðvitað þeim, sem þá hafa öðlast, heimilir. Lærdómsgráðan verður sem sagt alls ekki tekin af þeim, heldur eru nokkrar hömlur settar á notkun heitisins sálfræðingur, sem eins og við bentum á um daginn felur í sér samkv. áorðinni hefð annarra ríkja í þessu máli ekki einungis lærdómsgráðuna, heldur einnig starfsréttindin. Þannig held ég að það sé rétt ábending sem hér kom fram síðast, að höfundar þessa frv. hafa viljað með 1. gr. skapa almenningi tryggingu fyrir því að menn gætu ekki stundað sálfræðistörf einungis í krafti síns háskólaprófs, heldur þyrftu þeir að mati rn., og stéttarfélagsins að hafa nauðsynlega hæfni til að bera. Ég tel frv. sem sagt betra eins og það stendur án brtt. og fagna því að fram komin brtt. hefur verið dregin til baka.