10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3898 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

154. mál, sálfræðingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Hér er um nytsamlegt og nauðsynlegt frv. að ræða sem ég fyrir mitt leyti hef stutt og mun styðja að verði að lögum. Þegar eru í gildi, eins og hv. þm. er kunnugt og komið hefur fram í umr., lagaákvæði hverjir megi nefna sig verkfræðinga, arkitekta og félagsráðgjafa, og nú bætast sálfræðingar í þennan hóp sem hefur lögverndað starfsheiti.

í þessu sambandi vil ég vekja athygli á og beina því sérstaklega til hæstv. menntmrh. að hann athugi það mál nánar, að vandamálið er viðtækara en svo að það hafi verið leyst með þeim lagaákvæðum sem nú eru í gildi um verndun tiltekinna starfsheita háskólamenntaðra manna. Ég nefni í þessu sambandi starfsheiti það sem sú deild veitir sem ég starfa við í Háskóla Íslands, viðskiptadeildin. Henni var komið á fót árið 1940 og hefur þannig starfað í 35 ár. Það starfsheiti, sem hún veitir, er svo sem kunnugt er viðskiptafræðingur. Áður höfðu starfað hér hagfræðingar og hafði aldrei verið neinn ágreiningur um að hagfræðingur væri gott orð og starfsheiti sem aldrei hefur verið neinn ágreiningur um. Á síðari árum, eftir að nám í viðskiptadeild var lengt, komu upp þær hugmyndir meðal stúdenta deildarinnar að breyta nafni hinna brautskráðu og nefna þá einnig hagfræðinga, sem er gamla starfsheitið á þeim sem lagt hafa stund á þær höfuðgreinar sem í viðskiptadeildinni eru kenndar, hagfræði. Ekki er þetta þó ágreiningslaust, hvorki meðal stúdenta né kennara deildarinnar. Áður fyrr var viðskiptafræðinámið þriggja ára nám, en er nú fyrir löngu orðið fjögurra ára nám minnst, auk þess sem námsefni er orðið miklu fjölbreyttara en það áður var. Hefur þetta orðið tilefni til umr. um það hvert vera skuli starfsheiti þeirra sem ljúka prófi í viðskiptafræðum í viðskiptadeildinni. En auk þess er um það að ræða að viðskiptadeildin er orðin ein af fjölmennustu deildum Háskóla Íslands og það er álitlegur fjöldi kandídata sem brautskráist á hverju ári frá viðskiptadeildinni. En samtímis því stunda ýmsir nám í svipuðum greinum við erlenda háskóla, og þess eru dæmi að slíkir menn nefni sig einnig viðskiptafræðinga þótt á vitorði allra, sem til þekkja, sé að nám þeirra svari engan veginn til þess viðskiptafræðanáms sem lögð er stund á í viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Á allra síðustu árum hefur og skotið upp öðrum nýjum starfsheitum. Ýmsir nefna sig rekstrarhagfræðinga, aðrir nefna sig rekstrarfræðinga, og er ekki von að almenningur geti áttað sig á því hvað í þessum starfsheitum felst. Hér hefur sem sagt á sviði þeirra manna, sem hafa lagt stund á hagfræðigreinar fyrst og fremst og leggja stund á þau störf, komið til skjalanna nokkur ruglingur varðandi starfsheiti. Væri mjög æskilegt að þetta vandamál yrði kannað og reynt að koma á fastri skipan líkt og átt hefur sér stað varðandi verkfræðinga, arkitekta, félagsráðgjafa og nú stendur til að lögfest verði varðandi sálfræðinga.

Ég leyfi mér að beina því til hæstv. menntmrh. að hann taki þetta mál til athugunar. Það hefur verið rætt verulega meðal kennara og stúdenta viðskiptadeildar og er orðin brýn nauðsyn á því að einhverri fastri og skynsamlegri reglu verði komið á varðandi starfsheiti þeirra sem fyrst og fremst hafa lagt stund á háskólanám í hagfræðigreinum.