10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3916 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að svara þeim fsp. sem hér hafa komið fram.

Það er spurt um það hvort orðalag frv. gefi tilefni til þess að álykta að forstjóri skuli vera einn eða fleiri. Í þessu sambandi er það alveg rétt, að orðalag frv. segir ekkert ákveðið um það, hvort forstjóri skuli vera einn, þeir skuli vera tveir eða fleiri, hvort hér er um eintölu, tvítölu eða fleirtölu að ræða. Í raun er samkv. frv. ákvörðun um það lögð í vald stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar og samkv. því mun ríkisstj. skipa forstjóra stofnunarinnar.

Í öðru lagi er spurt um það eða um það rætt hvort hér eigi inn að koma einhver ákvæði þess efnis að forstjórar megi ekki gegna öðrum störfum, eins og t.d. störfum alþm. Menn eru þó sammála um það, hygg ég, hvort sem þeir eru þeirrar skoðunar að fremur beri að forðast það eða það skipti ekki máli í þessu tilviki, að ekki sé æskilegt að hafa það lögákveðið, og er það eins og er nú um bankastjórastörf.

Ég vil láta það koma fram, að það er alveg rétt að hér er um seinbúið frv. að ræða og það eru viss ágreiningsefni sem eru á þessum vettvangi milli stjórnarflokkanna. Hér er um málamiðlun að ræða. Ég vil í tilefni af orðum síðasta hv. ræðumanns láta það koma fram, að málsvarar Sjálfstfl. gagnrýndu fyrst og fremst þrjú meginatriði í frv. um Framkvæmdastofnun.

Það var í fyrsta lagi að hér væri um of mikla miðstýringu ofan frá að ræða. Úr henni hefur verið verulega dregið og gert ráð fyrir að hér sé meira um samræmingaraðila að ræða en stjórnvald sem með valdbeitingu fengi vilja sínum framgengt.

Í öðru lagi var gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þá lund að kommissarakerfið svokallaða eða framkvæmdaráðskerfið væri í raun á þann veg að framkvæmdaráðið þyrfti ekki að standa stjórn stofnunarinnar skil á gerðum sínum og væri naumast ábyrgt gagnvart ríkisstj. Um þetta var reyndar deila. Nú er þessu fyrir komið eins og er í ríkisbönkunum og hefur það ekki sætt gagnrýni af hálfu sjálfstæðismanna né annarra alþm.

Í þriðja lagi var það gagnrýnt af hálfu sjálfstæðismanna að það væri opnuð leið til valdbeitingar í lögum um Framkvæmdastofnun. Það skal undirstrikað og um leið viðurkennt að til slíkrar valdbeitingar kom aldrei í starfi Framkvæmdastofnunarinnar, þótt viss uggur væri í mönnum að til þess gæti komið. Þessi valdbeitingarleið er ekki til staðar í því frv. sem hér er um að ræða.

Ég vildi þá aðeins skýra það, að í frv. því, sem hér er borið fram, er gert ráð fyrir ákveðnum tekjum Byggðasjóði til handa. Hér er um lágmarkstekjur að ræða og það er á valdi fjárveitingavaldsins við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni að kveða á um hvort þetta sé hæfilegt eða nægilegt fjármagn í þessu skyni eða hvort ákveða þurfi Byggðasjóði meiri tekjur. Það var mat ríkisstj., strax eftir að hún var mynduð og þegar stjórnarflokkarnir gerðu sinn stjórnarsáttmála, að verulegs átaks væri þörf og því var ákveðið að ætla 2% af útgjöldum fjárlagafrv. sem tekjur í Byggðasjóð. Það er enn álit ríkisstj. að þessara tekna sé þörf út þetta kjörtímabil, og við, það mun verða staðið, eins og ég lýsti yfir í minni ræðu. Hins vegar er ekki óeðlilegt að í tengslum við þetta mat á tekjuþörf sjóðsins sé ákveðin til frambúðar einhver lágmarksviðmiðun sem ætla má að sé tekjuþörf í framtíðinni, og í því felst einnig nokkur stefnumörkun að ætla Byggðasjóði og því mikilvæga verkefni, sem sá sjóður hefur að rækja, nokkuð öruggan tekjustofn. Hér er ekki um ósamræmi að ræða, heldur ákvarðanir sem eru fyllilega rökréttar og í samræmi hvor við aðra, annars vegar yfirlýsing ríkisstj., sem gildir a.m.k. þetta kjörtímabil, og svo stefnumörkun til lengri frambúðar.

Við 1. umr. þessa frv. sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það.