11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

303. mál, undanþága afnotagjalda af hljóðvarpi og sjónvarpi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef þessi svör að gefa við fsp.:

Í 15. gr. útvarpslaga, nr. 19 1971, segir svo: „Í reglugerð má ákveða að þeir, sem hljóta uppbót á elli- eða örorkulífeyri samkv. 21. gr. laga um almannatryggingar frá 1963 verði undanþegnir afnotagjöldum. Í reglugerð má einnig ákveða undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalda af hljóðvarpi.“

Í reglugerð nr. 260 1974 um ríkisútvarp segir svo í 31. gr.: „Veita skal þeim elli- og örorkulífeyrisþega, sem fær uppbót á lífeyri sinn samkv. 7. gr. reglugerðar nr. 32 frá 25. jan. 1972, um lágmarkslífeyri og hækkun tryggingabóta samkv. lögum um almannatryggingar, undanþágu frá greiðslu afnotagjalds af viðtæki í hans eigu, enda sé viðtækið hagnýtt til einkanota. Útvarpsstjóri ákveður undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalda af hljóðvarpi að fengnum till. samtaka blindra.“

Samkv. upplýsingum innheimtudeildar ríkisútvarpsins eru nú skráðir aðilar, sem njóta undanþáguákvæðis, samtals 883 með sjónvarpsog útvarpsviðtæki, 248 með útvarpsviðtæki eingöngu, enn fremur eru einstaklingar í stofnunum með 392 sjónvarps- og útvarpstæki samkv. öðrum ákvæðum en 31. gr. reglugerðarinnar. Tryggingastofnun ríkisins sendir innheimtudeild ríkisútvarpsins tilkynningar um þá sem njóta þeirrar sérstöku uppbótar sem þennan rétt veitir til afnotagjaldslausra sjónvarps- og útvarpsnota, en ákvæði um einkanot þessara tækja er síðan reynt að sannprófa, því að þetta fyrirkomulag býður heim þeirri freistingu að húsráðendur telji viðtæki eign þess aðila á heimilinu sem undanþáguákvæði kunna að ná til og munu vera einhver brögð að þessu.

Annar liður fsp., þ. e. hve mörgum væri heimil undanþága samkv. túlkun yfirmanna ríkisútvarpsins, þá er í rauninni ekkert um það að segja umfram það sem ég hef nú tekið fram. Túlkun yfirmanna ríkisútvarpsins getur ekki orðið mikið álitamál því að ákvæði reglugerðarinnar eru nokkuð afdráttarlaus. Í rauninni virðist eðlilegra — eða það er mín skoðun a. m. k. — að Tryggingastofnun ríkisins greiddi afnotagjöldin fyrir styrkþega heldur en að ríkisútvarpið veiti þennan afslátt. Mér sýnist að það væri eðlilegri leið. Ríkisútvarpið á erfitt með að koma þarna við sjálfstæðu mati. Og Tryggingastofnuninni er nú ætlað að styðja þá sem eru stuðnings þurfi. En hvað um það, þetta er ákvæði í lögum, heimildarákvæði, og það hefur verið ákveðið að nota það. Reglugerðin segir „skal“ og skal ég ekkert fara frekar út í þá sálma. En þó að ég hafi ekki sem nákvæmastar tölur í höndum um, hverju þessar fjárhæðir nema, þá er mér tjáð að gera megi ráð fyrir að þær skipti eitthvað um 29–30 millj. kr. fyrir ríkisútvarpið á einu ári.

Ég held að ég hafi þá svarað spurningum hv. fyrirspyrjanda eins og efni standa til.