10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3937 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

46. mál, fasteignasala

Frsm. (Ellert B. Schram):

Virðulegi forseti. Frv. þetta var lagt fram í Ed. og er um breyt. á lögum um fasteignasölu og felur það í sér að skylt sé að geta þess í öllum skjölum varðandi fasteignakaup hver hafi samið skjölin. Enn fremur skulu þeir, sem fasteignaviðskipti annast, geta nafnsins í auglýsingum, eins þótt viðskiptin séu rekin í nafni skrásetts firma. Gert er ráð fyrir því að sams konar ákvæði verði sett í lög og þetta nái jafnframt til kaupa og sölu á skráningarskyldum skipum.

Röksemdin með þessu frv. er sú að fasteignafirmum fjölgi stöðugt, en að sama skapi ríkir nokkur óvissa um það hver annist eða beri ábyrgð á fasteignafyrirtækjum. Jafnframt er nokkur óvissa í því hver hafi samið viðkomandi skjöl, sem oft geta orkað tvímælis og valda oft málaferlum eða alla vega deilum. Til þess að koma í veg fyrir þessa óvissu er þetta frv. lagt fram. Það hefur fengið samþykki Ed. og allshn. Nd. mælir með samþykkt þess.