10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

7. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. meiri hl. (Gunnlaugur Finnsson):

Virðulegi forseti. Menntmn. hefur fjallað um þetta frv. á fjölmörgum fundum. Svo sem segir í nál., þá var frv. lagt fram með fyrstu málum þingsins, það er mál. nr. 7 og þskj. 7. En síðan frv. var lagt fram hefur orðið breyting á þar sem sett voru lög fyrir jól í vetur, nr. 94 frá 30. des. 1975, um breytingu á verkefnaskipun ríkis og sveitarfélaga, þann veg að almenningsbókasöfn, sem greitt var til að hluta af ríki og að hluta af sveitarfélagi, voru færð yfir til sveitarfélaganna að öllu leyti. í framhaldi af því flutti hæstv. menntmrh. brtt. á þskj. 197 þar sem tekið var tillit til þeirra breytinga sem átt höfðu sér stað.

Þegar n. tók að fjalla um þessar brtt. sem og frv. í heild eins og það lá fyrir, þá kom í ljós að ekki mundu allir sammála því að þær brtt. næðu fram að ganga, og á ég þá við fyrst og fremst fulltrúa sveitarfélaganna í landinu, þ.e.a.s Samband ísl. sveitarfélaga. það er rétt að geta þess að með verkefnayfirfærslunni var gert ráð fyrir því að niður félli 20 millj. kr. framlag af hálfu ríkisins, en kæmi aftur á móti til sveitarfélaganna í formi aukinnar hlutdeildar í söluskattsstigum.

Ég vil vekja athygli á því, að jafnhliða því sem gert var ráð fyrir að sveitarfélögin fengju á næstu þremur árum mjög aukið fjármagn frá ríkinu, þá var í upphaflega frv. líka gert ráð fyrir því, að sveitarfélögin sjálf verðu mun meira fé til almenningsbókasafna heldur en verið hefur á undanförnum árum, enda þótt staðreyndin sé sú að sum sveitarfélög verja nú þegar til almenningsbókasafnanna álíka mikilli upphæð og gert er ráð fyrir í frv. Þá var gert ráð fyrir því að hækkun framlaga ætti sér stað á þremur árum.

Ef við lítum á þessar 20 millj. sem gert var ráð fyrir að yrðu færðar yfir, þá samsvarar það tæplega 100 kr. á hvern íbúa í landinu. En á næstu þremur árum, að þessu ári meðtöldu, var gert ráð fyrir því að þessi upphæð hækkaði í 300 kr. á íbúa.

Það var grundvallarariði af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga, að jafnhliða því að ríkið hætti að veita stofnframlög og hætti að veita rekstrarstyrki, þá væri þessi málaflokkur að öllu leyti á vegum sveitarfélaganna og þar af leiðandi ætti ekki að setja lög um að skylda sveitarfélögin til eins eða neins í þessum efnum, að ætti að vera þeirra eigið málefni, þar sem þau hefðu veg og vanda af því hvernig tækist til um framkvæmd. Hins vegar var það skoðun menntmrn. að sveitarfélögunum hefðu verið lagðar vissar skyldur á herðar jafnhliða því að þau fengu auknar tekjur af söluskattinum, og það vildi ekki fallast á að skyldur yrðu ekki lagðar á herðar sveitarfélaganna. N. reyndi að finna millileið sem báðir aðilar gætu sætt sig við, en eins og fram kemur í nál. tókst það ekki að fullu. Ég geri ráð fyrir því að aðilar séu ekki alls kostar ánægðir með þær brtt. sem meiri hl. menntmn, varð sammála um að flytja.

N. náði ekki samstöðu um málið. Svava Jakobsdóttir og Magnús T. Ólafsson hafa skilað minnihlutaáliti. Ég vil enn fremur taka það fram að formaður n, var erlendis þegar hún gekk frá sínum till., en nefndarformaður Ingvar Gíslason vann mjög mikið í þessu máli enda þótt hann væri ekki viðstaddur þegar það fékk endanlega afgreiðslu. En hann hefur látið þess getið að hann standi að brtt. eins og n. gekk endanlega frá þeim, enda að verulegu leyti hans verk.

Ég ætla þá að snúa mér að því efnislega að drepa á þær brtt. sem meiri hl. n. leggur til að verði samþykktar.

1. brtt. er smávegis orðalagsbreyting. Þar er gert ráð fyrir því, að í staðinn fyrir að það sé talað um að í öllum byggðum landsins séu bókasöfn, þá sé það fyrst og fremst tryggt að allar byggðir landsins skuli njóta þjónustu almenningsbókasafna. Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst sú, að við teljum ekki rétt að í frv. séu ákveðin fyrirmæli um að í öllum sveitarfélögum landsins skuli vera almenningsbókasöfn. Nú er vitað að Samband ísl. sveitarfélaga hefur tekið upp orðið „byggð“ yfir sveitarfélag, og það hefur komið fram hjá bókafulltrúa og fleirum að til þess að ná viðunandi marki varðandi bókasafnsþjónustu í landinu sé það ekki skilyrði að bókasafn sé staðsett í hverju sveitarfélagi, heldur fyrst og fremst að hvert einasta sveitarfélag, hver einstök byggð njóti þjónustu almenningsbókasafna. Og þar hafa komið fram hugmyndir um ákveðinn fjölda bókasafna, ákveðinn staðal, þ.e.a.s. ákveðna stærð og ákveðna aðstöðu í hverju bókasafni og þjónustu útibúa frá því.

Í samræmi við þetta er 2. brtt., að í þeim sveitarfélögum þar sem héraðsbókasafn er ekki starfandi eða önnur bókasöfn, þá sé orðalagið aðeins: í hreppum þar sem héraðsbókasöfn eru ekki. Þetta samrýmist fyrri breytingunni betur að því leyti, að það er ekki ákveðið orðað að bókasöfn skuli vera í öllum hreppum.

3. brtt., sem flutt er, varðar raunar höfuðágreiningsefni um þetta frv., en það er lögbundið framlag sveitarfélaganna. Með þeirri brtt., sem meiri hl. menntmn. leggur til að verði samþykkt, er gert ráð fyrir þeirri upphæð sem brtt. menntmrh. frá því í vetur gera ráð fyrir. Hins vegar er gert ráð fyrir því að undanþágu sé hægt að gefa frá þessari lágmarksupphæð. Og í viðbótargr. segir, að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar gr. getur sveitarfélag ákveðið annað lágmark ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, enda mæli félmrn. með undanþágu hverju sinni. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á því að meiri hl. n. valdi félmrn. til þess að vera hinn lögformlegi aðill sem samþykki undanþágurnar, séu þær gefnar, vegna þess að félmrn, fer með yfirstjórn málefna sveitarfélaganna. Það hefur aðstöðu til að fylgjast með og kanna fjárhagsáætlanir og reikninga sveitarfélaganna og meta það hvort ástæða sé til að þessi undanþága verði veitt, enda þótt menntmrn. fari að öllu öðru leyti með málefni almenningsbókasafnanna.

4. brtt. er í fullu samræmi við lögin frá í vetur um yfirfærslu verkefna og gerir ráð fyrir því að 9. gr. frv. falli niður.

Í 5. brtt. eru numin brott þau ákvæði sem kveða á um aðild ríkissjóðs.

Í 6. brtt. er gert ráð fyrir því að það sé starfandi sérstakur fulltrúi sem í rn. annist málefni safnanna, og þar er gert ráð fyrir því að þessi fulltrúi sé að öðru jöfnu bókasafnsfræðingur með reynslu í starfi. Þar er enn fremur gert ráð fyrir því að ráðh. geti skipað ráðgjafarnefnd og séu í ráðgjafarnefndinni tveir fulltrúar, annar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og hinn frá Bókavarðafélagi Íslands og hann sé starfandi í almenningsbókasafni.

7. brtt. er till. um nýja gr. í frv. Þar er gert ráð fyrir að bæjarbókasöfn, borgarbókasafnið í Reykjavík þar undir, og bæjar- og héraðsbókasöfn, svo sem þau eru skilgreind í 3. gr. frv., þ.e.a.s. bókasöfnin starfa í kaupstöðum og rækja jafnframt bókasafnsþjónustu í byggðum í kring, þau ráði forstöðumann sem er bókasafnsfræðingur. Auk þess er gert ráð fyrir því að bókasafnsfræðingar eigi að jafnaði forgangsrétt til bókavarðarstarfa. Má því segja að þessi grein tryggi á nokkurn hátt réttindi bókasafnsfræðinga.

8. brtt. fjallar svo um það að reglugerð skuli samin í nánu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga og að höfðu samráði við sérstaka fulltrúa Bókavarðafélags Íslands og Félags bókasafnsfræðinga, einn frá hvoru félagi. Breytingin í þessari gr. er fyrst og fremst sú, að rn. er ekki skorinn stakkur um einstök ákvæði reglugerðarinnar og bókasafnsfræðingar koma þarna inn ásamt Bókavarðafélaginu og Sambandi ísl. sveitarfélaga sem ráðgjafaraðilar og aðilar að samningu reglugerðarinnar.

9. brtt. er í raun og veru í samræmi við breytta tímasetningu. Þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir að lögin tækju gildi 1. jan. 1976. Nú er komið langt fram yfir þann tíma. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi nú þegar, en að umþóttunartíminn, 3 ár, verði frá 1. jan. 1976 að telja, þannig að lögin ættu að vera komin til fullra framkvæmda á sama tíma og upphaflega frv. gerði ráð fyrir.

Og þá er að lokum 10. brtt. þar sem tekin er inn ný gr., ákvæði til bráðabirgða, þar sem menntmrn. og Samband ísl. samvinnufélaga skulu sameiginlega gangast fyrir gerð heildaráætlunar um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna. Mér þykir ástæða til þess að vekja sérstaklega athygli á þessari grein. Ég tel mjög brýna þörf á að slík athugun eigi sér stað. Mér er fullkunnugt um að málefnum almenningsbókasafnanna hefur verið misjafnlega sinnt hjá sveitarfélögunum. Eins og ég sagði áðan verja sum sveitarfélög þegar álíka hárri upphæð til almenningsbókasafna og gert er ráð fyrir í frv., eins og það var lagt fram í haust. En hitt er vitað, að á — ég vil segja — ótrúlega mörgum stöðum eru málefni safnanna í hinum megnasta ólestri. Þegar sú athugun hefur átt sér stað sem hér er gert ráð fyrir, þá ætti að vera miklum mun auðveldara að meta hvert átak þurfi að gera til þess að bókasafasmálin í heild komist í viðunandi horf. Og í ljósi þeirra upplýsinga sem þá liggja fyrir, tel ég eðlilegt að Alþ. fjalli aftur um það mál og taki þá sínar ákvarðanir varðandi málefni safnanna í heild.