10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3941 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

7. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. minni hl. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. á þskj. 685, þá höfum við hv. 3. landsk. þm. skilað séráliti í þessu máli og leggjum við til að frv. um almenningsbókasöfn verði samþykkt í því formi sem það var upphaflega lagt fram, þ.e.a.s. við leggjum til að fjármögnun verði háttað á þann veg sem gert er ráð fyrir í hinn upphaflega frv., að ríki og sveitarfélög leggi fjármagn til bókasafnanna. Við getum þó fallist á þær brtt. meiri hl. sem lúta að innri starfsemi safnanna og við teljum þær til bóta. Þeim hefur hv. frsm. meiri hl. þegar lýst. En á brtt. meiri hl., sem lúta að fjármögnun safnanna, þ.e.a.s. 3., 4. og 5. brtt., getum við ekki fallist.

Það er skemmst af að segja að þetta frv. hefur verið algert vandræðabarn meiri hl. menntmn. Nd. í allan vetur og orðið um það mikill ágreiningur. Undir lokin lá við að maður væri hættur að greina, hver væri að deila við hvern og hver væri á móti hæstv. ráðh. í þessu máli og hver með honum. Og það var raunar ekki að undra þótt ýmsir rugluðust, því að það var hæstv. menntmrh. sjálfur sem snerist að nokkru gegn eigin frv. Þegar það var lagt fram í haust, þá voru skýr ákvæði um framlög bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga, og það voru fleiri þm. en ég sem töldu að hér væri um stórmyndarlegt átak að ræða. Við vissum að bókasöfn voru víða í fjársvelti. Fjárframlög ríkis höfðu verið allt of lág og mörg sveitarfélög höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til að sinna bókasafnsmálum sem vert væri. Þetta frv. miðaði að því að auka fjárráð safnanna, og fögnuðu nú allir, eins og ég sagði áðan, þessu framtaki hæstv. ráðh. En fögnuðurinn minnkaði heldur betur í des. þegar breytingin var gerð á verkefnum sveitarfélaga með l. nr. 94/1975. Bókasöfnin voru svipt ríkisframlagi, og hafði frv. hæstv. ráðh., sem beið allan tímann í n., þá rýrnað heldur betur. Eftir stóðu framlög sveitarfélaga, sem hæstv. ráðh. hækkaði að vísu aðeins með brtt. Rétt er þó að geta þess, að í hlut sveitarfélaga komu 20 millj. til bókasafnsmála eða vegna bókasafnsmála, án þess þó að nokkur trygging væri fyrir því að þessum 20 millj. yrði varið í það verkefni fremur öðrum.

Ég þarf ekki að tíunda hér óánægju margra sveitarstjórnarmanna með þessa lagabreytingu. Um hana vita allir hv. þm. Og þegar eftir þá lagabreytingu bárust menntmn. Nd. boð frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga í bréfi þar sem óskað var eftir því að frv. yrði endurskoðað. Framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga kom á fund n. og kom í ljós að endurskoðunin átti að hníga að því að burt yrði kippt ákvæði um lágmarksframlög sveitarfélaga úr því að ríkið hefði kippt að sér hendi með sín framlög. Á þessum fundi upplýsti framkvæmdastjórinn að frv. hefði í sinni upprunalegu mynd fengið jákvæðar undirtektir Sambands ísl. sveitarfélaga, enda búið að hafa samráð við stjórnina um það frv., að því er mér skildist. Sagði framkvæmdastjórinn að persónulega fyndist sér ekki fráleitt að taka upp aftur samstarf ríkis og sveitarfélaga í bókasafnsmálum, en því aðeins að peningar kæmu til. Ég ítreka, þetta var hans persónulega skoðun.

Eins og sjá má af brtt. meiri hl., þá féllst hann ekki á þessa kröfu Sambands ísl. sveitarfélaga að öllu leyti, en lét æðimikið undan, því að í 3. brtt. er kveðið svo á að sveitarstjórn geti ákveðið annað lágmark ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi, enda mæli félmrn. með þeim. Í fyrsta lagi er afskaplega óeðlilegt að leyfi félmrn., sem hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með framkvæmd bókasafnsmála að gera, skuli þurfa til. Með því er í rauninni verið að kippa úr menntmrn. allri yfirstjórn fjármála bókasafnsmála. Í öðru lagi er alveg augljóst að hér er verið að kippa síðustu stoðinni undan fjármögnun bókasafna. Þetta ákvæði, að sveitarstjórn geti ákveðið annað lágmark, þýðir í raun og veru að hún geti sleppt því að verja fé til bókasafna ef hún telur sérstakar ástæður til. Svo slæm sem lög um almenningsbókasöfn frá 1963 voru hvað snertir fjármögnunina, þá er þetta frv. enn verra því að hér er opnuð leið til þess að svo geti farið að líði ár eftir ár án þess að nokkru fjármagni sé varið til bókasafna.

Menntmn. barst umsögn frá bókafulltrúa ríkisins, þeim manni sem hefur með bókasafnsmál að gera á vegum menntmrn. Og það er fróðlegt að lesa hér umsögn hans um það hvernig háttað er bókasafnsmálum í landinu um þessar mundir. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Best er ástandið í kaupstöðum þar sem fastráðnir starfsmenn eru við bókasafnið. Aðrir liðir hækka þá í hlutfalli við laun. Þó er farið að kreppa að söfnunum í þessum bæjum einnig. Í héraðsbókasöfnunum er ástandið vægast sagt hörmulegt. Þeim hefur mörgum verið haldið uppi með sjálfboðavinnu fórnfúsra manna, og má raunar sama segja um flest söfn í landinu. Þegar þessi fórnfúsa kynslóð fellur frá sígur á ógæfuhliðina, því að engar tekjur eru til að greiða henni laun. Mörkuð stefna var að eitt safn í sýslu eða héraði væri einhvers megnugt og gæti í auknum mæli tekið við bókasafnsþjónustunni. Þessi hefur ekki orðið raunin á þar sem Alþ. hefur ekki látið sig neinu skipta hvort héraðsbókasöfn störfuðu eða yrðu að loka vegna húsnæðisleysis og rekstrarfjárskorts.“ — Sýnir bókafulltrúinn fram á það, hve framlag ríkisins hefur farið síminnkandi á undanförnum árum og engan veginn verið í samræmi við fjárþörf.

Ég held, herra forseti, að það þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta. Við, sem gerðum okkur vonir um að nú ætti að gera stórátak í bókasafnsmálum, höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum. Við höfðum ætlast til annars af hæstv. menntmrh. en hann gengi nánast af bókasöfnum í landinu dauðum.