10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3943 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

7. mál, almenningsbókasöfn

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ekki skal ég sverja fyrir það að þetta frv. um almenningsbókasöfn, sem verið hefur til meðferðar hjá menntmn. í vetur, hafi reynst vandræðabarn og talsvert erfitt meðferðar. En hins vegar held ég að niðurstaðan af starfi n. sé eftir atvikum sæmileg og að flestir geti vel við unað ef rétt er skoðað. Þau tíðindi gerðust í vetur, sem hér hefur verið lýst, að það fór fram verkefnayfirfærsla milli ríkis og sveitarfélaga, þannig að kostnaðurinn við almenningsbókasöfnin var fluttur alveg yfir á sveitarfélögin og sveitarfélögin fengu að auki aukna hlutdeild í söluskattstekjum.

Þá var það náttúrlega að ýmsu leyti óeðlilegt, þegar svo var komið að sveitarfélögin fengu þarna auknar tekjur, að ríkið tæki að sér að halda uppi þessum sérstaka þætti í félags- og menningarþjónustu. Og það var ekki nema eðlilegt að hæstv. menntmrh, liti svo á að eðlilegast væri að sveitarfélögin tækju þetta alfarið á sig með beinu lagaboði.

En við urðum fljótlega vör við það, sem störfum í menntmn., að þessum till. hæstv. menntmrh. var afar illa tekið af hálfu sveitarfélaganna og þetta setti málið sem sagt í erfiða stöðu fyrir okkur. Og það hefur komið í okkar hlut að reyna að finna leið út úr þessum ógöngum. Það má vel vera að það megi finna ýmsa agnúa á þeirri leið sem við höfum valíð sem styðjum brtt. á þskj. 658, en ég er alveg sannfærður um að Alþ. átti ekki betri kosta völ eins og þessu máli var komið. Þess vegna vil ég mæla alveg sérstaklega með þessum till. Auk þess er það svo að ýmis ákvæði koma ný inn í frv. í brtt. meiri hl. menntmn. sem ég tel vera mjög mikilvægar. Menntmn. hefur lagt sig fram um það m.a. að lögfesta aukin réttindi bókasafnsfræðinga, og það kemur viðar fram í þessum brtt., og ég tel það vera mikla framför frá því sem áður var. Ég tel eðlilegt að þegar við eigum orðið allmikinn fjölda vel menntaðra bókasafnsfræðinga, þá er það fullkomlega eðlilegt að þeir fái að njóta sinnar menntunar og gangi fyrir almennt í bókavarðarstöður og einkum þó stöður yfirbókavarðar við öll hin stærri söfn. Um þetta lágu fyrir hjá menntmn. sérstakar óskir frá Félagi bókasafnsfræðinga, og ég hygg að öll menntmn. sé sammála um að rétt hafi verið að ganga sem mest til móts við óskir þeirra og kröfur.

Svo vikið sé nánar að þessum brtt. sem hér liggja fyrir, þá er þetta höfuðbreytingin, brtt. 3 á þskj. 658, við 8. gr., um það hvernig hún skuli orðast. Ef hún er nú lesin með réttu hugarfari og af gaumgæfni, þá held ég að mönnum sé ljóst að í rauninni er verið að lögfesta lágmarksframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna og tilgreint hvernig það skuli vera. Þar er farið í einu og öllu eftir þeim till. sem hæstv. menntmrh. flutti við málið í vetur. En hitt er rétt, að til þess að reyna að sætta sveitarfélögin við sinn hlut, þá er ákvæði, sem er undanþáguákvæði sem sveitarfélögin geta gripið til ef sérstaklega stendur á og ef félmrn., sem mest samskipti hefur við sveitarfélögin, gefur samþykki sitt til, þannig að ég held að ef þessi gr. er lesin rétt og skilin rétt, þá þurfi menn ekki að óttast að þarna sé ekki um að ræða verulega framför frá gildandi löggjöf og þetta muni ekki auka stórlega framlög til bókasafnsmála í landinu. Auk þess vil ég benda á það, að í till, menntmn. er ákvæði til bráðabirgða þar sem menntmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga er gert að gangast fyrir gerð heildaráætlunar um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna. Ég held að þó að þetta ákvæði láti kannske ekki mikið yfir sér, þá leyni það nokkuð á sér. Þarna er gerð till. um að stofna til samstarfs á milli menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga um bókasafnsmálin, um gerð heildaráætlunar um uppbyggingu þeirra og hvar þau skuli vera staðsett. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði og sé rétt að lesa það í framhaldi af eða með 8. gr., eins og hún kæmi til með að orðast ef brtt. meiri hl. menntmn. yrðu samþykktar.

Það er að vísu alveg rétt, sem fram kom hér hjá hv. 5. landsk. þm., að ástand margra bókasafna er mjög slæmt. En ég held að við megum ekki heldur gleyma því, að það hafa orðið alveg gífurlegar framfarir í bókasafnsmálum á ýmsum stöðum á landinu og bókasafnsmálum er mjög vel komið á mörgum stöðum, vil ég segja. Sveitarfélögin hafa lagt þar mikið á sig. Ég nefni í því sambandi Reykjavíkurborg sem heldur uppi myndarlegri bókasafnsstarfsemi og hefur í huga að gera enn betur. Ég vil nefna Hafnarfjörð, Ísafjörð og einnig og alveg sérstaklega Akureyri þar sem gert hefur verið mjög myndarlegt átak á síðustu árum í þessum efnum. Þar hefur verið reist stór og myndarleg bókhlaða og safnið hefur verið eflt á allan hátt. Þar vinnur allstór hópur manna við bókasafnið og bæjarfélagið hefur lagt á sig gífurlega miklar fjárhæðir við að halda uppi þessari starfsemi, þannig að það er náttúrlega algerlega ofmælt að ekki hafi neitt verið gert í þessum málum. Ég held að það sé möguleiki á því að hvetja sveitarfélögin yfirleitt til þess að vinna meira að þessum málum, og ég held m.a. að ef það verður, sem við höfum lagt hér til, meiri hl. menntmn., að menntmrn. og sveitarfélögin setjist niður í sameiningu til þess að fjalla um þessi mál og gera áætlun í þessum efnum, þá er ég ekki í neinum vafa um að það á eftir að bera mjög jákvæðan árangur, þannig að ég held nú, þrátt fyrir það að þetta frv. hefur sannarlega verið vandræðabarn hér í þinginu og einkum og sér í lagi erfiður krógi fyrir okkur menntmn.- menn, þá vona ég nú samt að við séum búnir að siða það svo til og uppfæra það svo snoturlega í falleg föt að það eigi eftir að verða okkur til sóma frekar en hitt, sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir var hér að lýsa áðan.