10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3945 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

7. mál, almenningsbókasöfn

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál, en ég vil aðeins lýsa því yfir að ég mun styðja brtt. sem lagðar hafa verið fram af meiri hl. menntmn. Ég hlýt þó að segja að ég er ekki alls kostar ánægður með þá miklu forsjá sem gert er ráð fyrir að ríkið muni hafa með sveitarfélögunum samkv. þessu frv., forsjá sem ég tel óþarflega mikla. Ég tek það þó fram að rammalöggjöf um bókasafnsmál tel ég alveg sjálfsagða, og ég held að þetta frv., ef samþ. verður, muni reynast hæf rammalöggjöf um almenningsbókasöfn.

Ég held að fyrirmæli í lögum sem þessum þurfi að vera hófleg og þ. á m. fyrirmæli um fjárframlög sem sveitarfélögunum er gert að greiða í þessu skyni. Það má segja að með brtt. er komið til móts við þetta sjónarmið af meiri hl. menntmn. Það kann vel að vera að einhverjum þyki það gamansöm lausn sem á þessu er fundin með síðasta málsl. 3. brtt., þar sem veitt er heimild til þess að víkja frá lágmarksframlögunum að vissum skilyrðum fullnægðum. En ég sætti mig sem sagt við þessa till. eins og hún þarna er orðuð.

Ég held að það sé dálítið erfitt að meta það hvert skuli vera lágmarksframlag til einstakra verkefna, í þessu tilfelli til bókasafna. Mér sýnist að 1300 kr., sem ætlaðar eru á hvern íbúa í kaupstað, séu nokkuð há upphæð. En um það ætla ég ekki að ræða sérstaklega nú. Ef það kemur í ljós, þá munu vafalaust einhver sveitarfélög sækja um lækkun á þessu framlagi samkv. heimildinni í 8. gr. ef hún verður samþykkt.

Um nál. minni hl. menntmn. væri kannske ástæða til þess að fara nokkrum orðum. Það segir í álitinu að með þeirri breytingu, sem gerð var á verkefnum sveitarfélaga í des. s.l., svipti meiri hl. Alþ. bókasöfnin ríkisframlagi með öllu, en sveitarfélögum einum gert að skyldu að leggja fram fé til þessara mála. Þetta er alveg rétt, og menn geta orðað þetta með þessum hætti ef þeir vilja. Það er alveg rétt að þarna var gengið til móts við þær óskir sveitarfélaganna að þetta verkefni yrði algerlega í þeirra höndum. Það hafði verið sett fram löngu áður sem ósk sveitarfélaganna að þau önnuðust ein um bókasöfnin. Með því móti gera sveitarfélögin sér að sjálfsögðu grein fyrir því að þau verði að leggja fram fé til bókasafnanna og standa þar á eigin fótum. Ég hef bent á það áður og geri það enn, að það, sem gert hefur verið í bókasafnsmálum úti um land, hefur verið gert þrátt fyrir ríkisframlagið, en ekki vegna þess. Ríkisframlagið hefur ekkert dregið sem heitið getur hjá þeim sveitarfélögum sem hafa verið að koma sér upp bókasöfnum eða halda þeim við.

Um óánægju margra sveitarstjórnarmanna, sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði hér frá, kann ég ekki neinar sögur. Ég kannast ekki við það að í hópi sveitarstjórnarmanna hafi komið fram óánægja sérstaklega með yfirfærslu þessa verkefnis. Um önnur verkefni, sem voru yfirfærð, erum við ekkert að ræða hér. Hún kom vissulega fram um ýmis þeirra, en ég kannast ekki við óánægju með þetta. Um persónulegt álit framkvæmdastjórans ætla ég heldur ekkert að ræða hér. Það kemur mér á óvart ef hann hefur lýst því yfir á fundi menntmn. að hann vildi færa þetta í sama horf og áður. En það ætla ég að sjálfsögðu ekki að rengja hér, ég hef enga aðstöðu til þess.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði að það væri óeðlilegt að félmrn. úrskurðaði eða veitti leyfi til lækkunar á framlagi sveitarfélagsins og með því væri kippt úr hendi menntmrn. fjárhagslegum umráðum yfir söfnunum, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég sé satt að segja ekkert eðlilegt við það að menntmrn. hafi fjárhagsleg umráð yfir sveitarfélögunum að þessu leyti. Þau umráð eru í hendi félmrn. (Gripið fram í.) Já, þarna er um að ræða einn þátt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, og það er miklu eðlilegra að þetta úrskurðarvald sé í hendi félmrn. eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég veit að hæstv. menntmrh. er maður til þess að svara fyrir sig, en mér þykir það nokkuð harkalega að orði komist þegar sagt er af hv. þm. Svövu Jakobsdóttir að menntmrh. muni með þessu nánast ganga af bókasöfnum í landinu dauðum. Þetta er ekki sæmandi málflutningur, svo ekki sé meira sagt.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín miklu fleiri, en mér sýnist að aðalatriðin í þessu máli séu þessi: Frv. hlaut að breytast frá því sem það var lagt fram hér á fyrstu dögum þingsins vegna þess að Alþ. varð við þeirri beiðni sveitarfélaganna að yfirfæra þetta verkefni til þeirra. Sveitarfélögin hafa ekki síðan farið fram á breytingu í þá átt að ríkisstyrkur yrði tekinn upp að nýju, eins og minni hl. menntmn. leggur til að gert verði. Óttinn við að bókasöfnin muni drabbast niður vegna þess að ríkið leggi ekki lengur neitt til þeirra, sá ótti er ástæðulaus með öllu, það fullyrði ég. Ég fullyrði að sveitarfélögunum verður það metnaðarmál að gera meira, gera stærra átak í eflingu bókasafna sinna eftir að þau hafa fengið meiri umráð yfir þeim en áður. Það verður þeim metnaðarmál, og þess vegna er ég bjartsýnn á að vegur þeirra muni fremur vaxa heldur en hitt.

Með þessu frv. er sett löggjöf um almenningsbókasöfn, — löggjöf sem ég held og vona að hægt verði að una við. Ég tek undir með hv. þm. Ingvari Gíslasyni að ákvæðið til bráðabirgða um samstarf menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga að gerð heildaráætlunar um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna, þetta ákvæði er mikilvægt. Og ég ítreka að sveitarfélögunum er vel treystandi til átaka í þessum efnum. Þeim er treystandi til þess reyndar án sérstakrar forsjár ríkisins. En ég legg hins vegar áherslu á það að samstarf þessara aðila, ríkisins og sveitarfélaganna, verði vonandi þessum málaflokki til gagns.