10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. minni hl. (Magnús T. Ólafsson):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa óánægju minni með að þetta mál sé tekið til umr. á miðlungi vel sóttum næturfundi í hv. d. Þetta mál er, eins og allir hv. dm. vita, eitt af mestu hitamálum sem koma til kasta þingsins, búið er að ræða það oftar en einu sinni, en eins og hv. 11. þm. Reykv. tók fram, telja menn, hverja skoðun sem þeir hafa á málinu, að mál sé að þeim deilum linni og í ljós komi hvern hátt Alþ. vill hafa á meðferð stafsetningarmála. Um slíkt mál tel ég að eigi að fjalla í fullri dagsbirtu og á eðlilega sóttum þingfundi, en ekki laumast með málið um þingsali að næturþeli.

Eins og tekið er fram í upphafi nál. okkar, sem minni hl. skipum, er ekki svo að fyrir hv. d. liggi aðeins eitt frv. um stafsetningarmál. Frv. eru tvö. Annað er 115. mál, frv. Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl., um íslenska stafsetningu. Hitt málið er 194. mál, frv. hæstv. menntmrh. um setningu reglna um íslenska stafsetningu. Á þessum tveim frv. er grundvallarmunur. Þeir, sem bera 115. mál fram, gera ráð fyrir því að upp verði tekinn algerlega nýr háttur á meðferð íslenskra stafsetningarmála. Þeir gera ráð fyrir því að Alþ. kveði á um stafsetningaratriði með beinni lagasetningu. Það er tvímælalaust niðurstaðan af þeim málflutningi að hér eftir verði, ef það frv. verður samþ., stafsetning íslenskrar tungu ákveðin með atkvgr. á Alþ. um hvert og eitt atriði sem þar kemur til álita hverju sinni. Það er í sem stystu máli gert ráð fyrir, að upp sé tekin sú stafsetning sem ákveðin var með auglýsingu menntmrn. 1929, með einu fráviki hvað varðar undanþágu frá því ákvæðinu sem alkunna er að flm. bera sér í lagi fyrir brjósti. Þeir taka upp í frv. sitt undanþágu frá kennslu z í fyrstu 6 bekkjum skyldunáms sem veitt var á árinu 1934 og síðan gilti jafnlengi og auglýsingin frá 1929 gilti. Ég mun síðar koma að því hvað þessi málatilbúnaður felur í rauninni í sér, en vil áður í stuttu máli lýsa því meginefni sem felst í frv. hæstv. menntmrh.

Í því frv. er gert ráð fyrir þveröfugri starfsaðferð við þá sem felst í 115. þingmáli. Í frv. menntmrh. er ákveðið að menntmrn. setji, eins og hingað til hefur verið, reglur um íslenska stafsetningu. síðan eru ákvæði um það hverjir sérfróðir aðilar skuli fjalla um undirbúning að tillögum um stafsetningarreglur og breytingar sem til greina eru taldar koma á þeim stafsetningarreglum sem gilda á hverjum tíma. Er þar um að ræða mjög svipaða starfshætti og hingað til hafa tíðkast, nema tiltekið er frá hvaða aðilum skuli leita tilnefningar í n. sem fjalla skuli um stafsetningarreglur og breytingu á þeim. Vil ég lýsa því yfir strax fyrir mína hönd að þótt ég sé hlynntur frv. hæstv. menntmrh. tel ég vel koma til greina aðra skipun þeirrar n. en ákveðin er í 2. gr. frv. Hið nýja, sem lagt er til í 194. máli, frv. menntmrh., er að þegar fjallað hefur verið um stafsetningarreglur eða breytingar á þeim með svipuðum hætti og hingað til hefur tíðkast, þá skal niðurstaðan af því starfi lögð fyrir Alþ. í formi þáltill. Þar ætti að mínum dómi að vera fullnægt óskum þeirra sem telja að ekki sé rétt að gengið verði lengur fram hjá Alþ. og það fái tækifæri til að segja sitt orð um stafsetningarbreytingar sem á döfinni kunna að vera. En þetta er, eins og sjá má, gerólíkt því að fyrir Alþ. skuli koma hver og ein stafsetningarregla og geti þar komið til meðferðar í umr. og gengið undir atkv. Þegar til þess er litið að hér er verið að fjalla um sama mál, en sitt á hvorn hátt, með svo gerólíkum hætti sem ég hef lýst, þá þykir mér furðu gegna að meiri hl. menntmn. skyldi á fundi fella till. um að n. tæki til afgreiðslu bæði þessi frv. Þessi afstaða meiri hl. n. hefur orðið til þess að við í minni hl. höfum lagt til þá afgreiðslu 115. máls sem kemur fram í rökstuddri dagskrá okkar á þskj. 704 og ég mun síðar skýra nánar frá.

Það er nauðsyn að alþm. geri sér ljóst hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir meðferð stafsetningarmála hvor aðferðin er valin, sú sem lögð er til í frv. Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl. eða sú sem hæstv. menntmrh. leggur til í frv. sínu að viðhöfð sé. Það er ljóst af því sem á undan er gengið að ef tekinn verður upp sá háttur að Alþ. fjalli um einstök stafsetningaratriði, setji um þau lög og afgreiði þau, þá hljóta þeir, sem óánægðir eru með niðurstöðuna hverju sinni, að leita fyrsta færis að fá fram breytingu með tillöguflutningi á Alþ. Það er því gefið að verði sá háttur upp tekinn, sem gert er ráð fyrir í frv. á þskj. 140, þá verða stafsetningarmál til meðferðar á Alþ. ævinlega þegar svo stendur á að einhver umtalsverð óánægja ríkir með eitthvert atriði stafsetningar. En nú er öllum ljóst að mjög er torvelt að fjalla um eitt stafsetningaratriði án tillits til annarra í flestum tilvikum. Því getur farið svo, ef þessi háttur er upp tekinn, að einstök stafsetningaratriði séu ákveðin með atkvgr. á Alþ., þá skapist ýmiss konar misræmi og árekstrar í stafsetningarreglum sem gætu haft í för með sér verulegan og afdrifaríkan glundroða þegar að því kæmi að kenna stafsetningarreglur og fara eftir þeim.

Sú starfsaðferð, sem viðhöfð hefur verið við ákvörðun stafsetningarreglna, er ekki sprottin af duttlungum neinna einstakra manna, heldur viðhöfð vegna þess að menn hafa þóst sjá að stafsetningarreglur þyrfti að skoða í heild, að undirbúa þær í heild og afgreiða sem heild því að þar grípa svo mörg atriði hvert inn í annað. Þetta er líka sá háttur sem við yrði hafður ef farið væri að þeim ákvæðum sem felast í frv. hæstv. menntmrh. á þskj. 406. Þeirri meðferð máls mundi fylgja að Alþ. tæki í þál.- formi afstöðu til stafsetningarreglna í heild, samþykkti þær eða synjaði, en tæki ekki að setja stafsetningarreglur í einstökum atriðum. Ég vil því leggja sérstaka áherslu á að að mínum dómi er mjög áríðandi að menn geri sér við afgreiðslu þessa máls sem ljósast að hér er ekki verið að fjalla fyrst og fremst um einstakt stafsetningaratriði, hvort z skuli rituð eða ekki í íslensku ritmáli, heldur er fyrst og fremst verið að fjalla um það hvaða starfsaðferðum á að beita þegar ákvarðanir eru teknar um íslenska stafsetningu. Þegar af þeirri ástæðu fæ ég blátt áfram ekki skilið hvernig meiri hl, menntmn. fær rökstutt þá afstöðu sína að einungis önnur starfsaðferðin, einungis önnur hlið málsins skuli afgreidd þar úr n., því að óhjákvæmilegt er í öllum skynsamlegum vinnubrögðum að fjalla fyrst um og ákveða starfsaðferðina áður en farið er að eiga við framkvæmdina ef vel á að fara.

Ég mun ekki að svo stöddu gera sérstaklega að umtalsefni þær röksemdir sem flm. færa í grg. fyrir flutningi frv. á þskj. 140. En ég vek aðeins athygli á því að í þeim málatilbúnaði, grg. og rökstuðningi er ekki orði víkíð að þessu meginatriði málsins, að því hversu hér er verið að leggja til að breytt sé frá þeim starfsháttum sem fylgt hefur verið hingað til og hverjar afleiðingar það hlýtur að hafa að breytt sé frá þeim á þann hátt sem frv. á þskj. 140 felur í sér. Hins vegar er einmitt þetta atriði meginefnið í grg. með frv. hæstv. menntmrh., og því get ég ekki fallist á þá staðhæfingu hv. 11. þm. Reykv. að frv. á þskj. 140 eigi skilyrðislaust að hafa forgang. Ég teldi þvert á móti að það málið, sem grípur á grundvallaratriðinu, sjálfri málsmeðferðinni, ætti að hafa forgang í afgreiðslu menntmn. og í meðförum hv. d. Það er ósvinna að mínum dómi af hálfu meiri hl. að gera í raun og veru þessa tilraun til að stinga frv. á þskj. 406 undir stól í bráð a.m.k. og láta eins og það sé ekki til, en afgreiða aðeins annað tveggja mála sem fjalla um sama efni, en á gerólíkan hátt.

Það er nauðsynlegt að hv. alþm. athugi þetta mál og bæði frv. hleypidómalaust. Og það er sjálfsögð aðferð skynsamra manna að taka ákvörðun um aðferð, þegar fleiri en ein kemur til greina, áður en farið er að fjalla um framkvæmdaatriði. Þessi er ástæðan til að við í minni hl. menntmn. leggjum til að mál það, sem hér liggur fyrir, verði afgr. með rökst. dagskrá sem svo hljóðar:

„Þar sem ákvæði þessa máls fela í sér lagasetningu um einstök atriði stafsetningar, en fyrir d. liggur einnig frv. um meðferð stafsetningarmála í heild, sem gerir ráð fyrir lokaákvörðun Alþ. um stafsetningarreglur í formi þál., tekur d. þetta mál af dagskrá, en tekur í staðinn á dagskrá fyrsta fundar næsta fundardag 194. mál, frv. menntmrh. til I. um setningu reglna um íslenska stafsetningu.“

Það kann að vera að einhverjum hv. alþm. komi þessi málsmeðferð, sem hér er lögð til, ókunnuglega fyrir sjónir, og það skal fúslega viðurkennt að hún er ekki alvanaleg. En ég hygg að við nánari athugun sjái þeir að hún er fyllilega þingleg og styðst við þingsköp í alla staði, að þessi leið, sem lagt er til í rökstuddri dagskrá okkar í minni hl., er eina leiðin sem við áttum völ á til þess að koma því til leiðar að hv. d. tæki ekki aðeins afstöðu til málsins á þskj. 140, heldur einnig málsins á þskj. 406. Og það er, eins og ég áður sagði, sannfæring mín og okkar, sem að þessu nál. stöndum, að eðlilegt sé, eins og þetta mál er vaxið, að frv. á þskj. 406 hafi forgang. Það yrði tvímælalaust affarasælast fyrir meðferð stafsetningarmála í bráð og lengd að viðhöfð verði framvegis þau vinnubrögð sem þar er gerð till. um.

Ég kvaðst mundu víkja lítillega í máli mínu að því ákvæði sem felst í 4. gr. frv. á þskj. 140 og hljóðar á þá leið að heimila menntmrh. að kveða svo á að þess skuli ekki krafist í 1.-6. bekk grunnskóla að kennt sé að nota z, heldur megi í þess stað nota s í bekkjum þessum. Hvernig geta menn látið sér til hugar koma að lögfesting slíks ákvæðis geti samræmst þeim lúðurhljóm sem felst í upphafsorðum þessa frv.? „Ein skal vera stafsetning íslenskrar tungu.“ Þrátt fyrir þessi hljómmiklu orð, þrátt fyrir þessa stóru fullyrðingu er lagt til í sama frv. að ekki skuli þurfa að kenna þessa einu stafsetningu öll fyrstu 6 ár skyldunáms. Í þessu felst að mínum dómi slíkur tvískinnungur að ég sé ekki hvernig Alþ. ætlar að afgreiða mál, sem slík áhersla hefur verið lögð á, sem svo mjög hefur verið rætt, á þennan hátt. Ef menn telja fortakslaust að z verði að vera í íslensku ritmáli, þá eiga menn að stíga skrefíð til fulls, Það á ekki að vera að búa til tvenns konar stafsetningu að óþörfu og það á þann hátt að úr verður annars vegar lærðra manna stafsetning, þeirra sem læra til hlítar að nota z og viðhafa hana í rituðu máli og svo hinna sem skemmri skólagöngu fá og verða ekki aðnjótandi svo langrar stafsetningarkennslu að þeir geti tileinkað sér z-reglur til gagns.

Án þess að ætla að ræða eða endurtaka það, sem sagt hefur verið í umr. áður um einstök stafsetningaratriði, vildi ég leggja höfuðáherslu á þann hugarklofning, þann tvískinnung sem þarna kemur fram í frv. á þskj. 140. Sömuleiðis vil ég vekja athygli á því á þessu stigi máls að það er síður en svo að stafsetningarmálum sé skipað til einhverrar frambúðar með þessu frv. Mestur hluti af því starfi, sem stafsetningarnefndin síðasta vann, var ekki fólgin í því að breyta reglunum frá 1929, breytingarnar ná til tiltölulega mjög fárra atriða, þótt sum þeirra séu þýðingarmikil, það skal skýrt tekið fram. En þau eru fá. Aðalstarfið og aðalafraksturinn af starfi þeirrar n. og aðalefnið í þeim stafsetningarreglum, sem settar voru að því starfi loknu, felast í því að fyllt er í eyður sem voru eftir að stafsetningarreglurnar frá 1929 gengu í gildi, eyður sem komu í ljós í skólastarfi á áratugunum sem liðu á milli þess að þessar tvenns konar stafsetningarreglur voru settar. Þar var kveðið á um atriði sem einskis var getið og ekki um fjallað í fyrri reglum. Þar voru fyrri reglur nánar útfærðar á margan hátt, eins og reynsla undanfarinna áratuga hafði kennt þeim mönnum, sem um fjölluðu og allir voru móðurmálskennarar, að nauðsyn bæri til. Það er algerlega þýðingarlaust að halda því fram að í stað þessa starfs og þeirra reglna, sem af því spruttu og fylltu í eyðurnar sem hinar stuttu stafsetningarreglur frá 1929 skildu eftir, sé fylgt með ákvæði 3. gr.: „Að öðru leyti skal um stafsetningu fylgt þeim meginreglum sem farið var eftir á tímabilinu frá 1929–1973.“ Til þess að þetta ákvæði hefði eitthvert gildi yrði að liggja til grundvallar rannsókn á því hvaða reglum var fylgt, hvaða óskrásettum reglum var fylgt um stafsetningaratriði sem ekki var um fjallað í þágildandi stafsetningarauglýsingu.

En þessar aths. mínar við nokkur atriði í frv. á þskj. 140 eru sem sagt ekki í mínum augum mergurinn málsins, heldur það hvort brugðið verður á það ráð að Alþ. setji stafsetningarreglur, hverja og eina, eða hvort taka á upp þann hátt að Alþ. fjalli um stafsetningarreglur í heild, eftir að þær hafa verið unnar kerfisbundið með svipuðum hætti og verið hefur og verði hér eftir ekki settar einvörðungu á ábyrgð menntmrh. á hverjum tíma, heldur fái meðferð Alþ. áður en þær ganga í gildi.

Ég vil t.d. benda hv. alþm. á, hvernig farið hefur fyrir frændum okkar norðmönnum. Þar hefur geisað áratugum saman illvíg barátta sem norðmenn kalla „målstriden“ og þykir ein hvimleiðasta plága sem getur þar í landi. Þar takast menn ákaflega á utan þings og innan oft og einatt um tunguna, ekki aðeins um stafsetningaratriði, heldur einnig um málfarsatriði, og hefur það tvímælalaust orðið til þess að torvelda óþarflega málþróun og menningarstarf í því ágæta landi Noregi. Skilyrði eru þar auðvitað töluvert önnur en hér, mállýskuskipting í einangruðum byggðum, svo að ég er ekki að gera því skóna að við lendum alveg í sömu súpunni og norðmenn hafa gert ef á það ráð er brugðið sem lagt er til í frv. á þskj. 140. En ég efast ekki um að verði það frv. samþykkt, þá verður á ókomnum árum leikinn hér á landi leikur sem að breyttu breytanda verður eftirmynd af málþrætu og máltogstreitu þeirra norðmanna, en áreiðanlegt er að við hana vildu þeir langflestir vera lausir og óska að aldrei hefði verið til hennar efnt.