10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3956 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

115. mál, íslensk stafsetning

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Það var nú ekki beint ætlun mín að tala lengi um þetta mál og mun ekki gera það. Hins vegar verð ég að segja það, að það kom mér nokkuð á óvart að þetta mál skyldi vera tekið upp á þessum fundi og e.t.v. stefnt að því að hafa atkvgr. hér í kvöld um málið. Ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta að svo verði a.m.k. ekki gert, það fari ekki fram atkvgr. um þetta mál nú á þessum fundi, heldur verði henni frestað til næsta fundar.

Ég tel það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að það séu skiptar skoðanir um það hvernig eigi að stafsetja íslenskt mál. Mér finnst það vera ósköp eðlilegt að menn skiptist í flokka um það eða skiptist á skoðunum um það eins og flest annað. En hitt verð ég að segja, að þær deilur, sem hér hafa orðið á undanförnum árum um stafsetningarmál, hafa komið mér þannig fyrir sjónir að þetta sé sótt af einhvers konar íþrótt og ofurkappi sem ég felli míg ekki við. Og nú sé ég ekki betur heldur en það sé meining þeirra, sem að þessu frv. standa. Og ég felli mig ákaflega illa við það, og ég harma það alveg sérstaklega að mínir ágætu félagar í þeirri n., sem ég stýri, skuli verða til þess að ýta undir þetta ofurkapp vissra manna. En það, sem ég vil sérstaklega benda á, er þetta, að ég fæ ekki betur séð en þetta ofurkapp hafi það beinlínís að markmiði að reyna að knésetja hæstv. menntmrh. um sitt mál, beinlínis sé ástæðan sú að reyna að knésetja hæstv. menntmrh. um það mál sem hann hefur borið hér fram í þinginu. Hann hefur gert það sem í hans valdi hefur staðið og það sem honum bar að gera. Hann hefur lagt fram frv. um stafsetningarmál, og ég tel að það sé óeðlilegt að sækja svo fast að þessu frv. hæstv. menntmrh. eins og fram kemur í aðferð þeirra sem standa að því frv. sem hér er til umr.

Ég hef vissu fyrir því að hæstv. menntmrh. hefur gert tilraun til þess að ræða við flm. frv. og reyna að finna sameiginlega leið út úr þessu. En eftir því sem næst verður komist, og raunar bera þessar umr. því vitni, það að málið er á dagskrá nú ber því vitni að þessi viðleitni hæstv. menntmrh. til þess að koma á sáttum í málinu hefur ekki borið árangur. Ég vil vekja athygli þingheims á þessu sérstaka atriði, þessari alveg einstöku aðferð til þess að reyna að knýja hæstv. menntmrh. til undanhalds með ofurkappi.

En eins og ég segi, þá finnst mér það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að það geti orðið deilur um stafsetningarmál og menn hafi mismunandi skoðanir á því hvernig best sé og eðlilegast að stafsetja íslenska tungu. En ég held hins vegar að við þurfum að aðgæta vel um þá aðferð sem við viljum beita í því sambandi. Ég hef margsinnis lýst þeirri skoðun minni hér, að ég er andvígur því að Alþ. fjalli um stafsetningarmál með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að það sé að fjalla um stafsetningarmál í einstökum smáatriðum. Ég held að það sé langaffarasælast eins og verið hefur ætíð, að það sé á valdi ráðh. að ákveða stafsetningu. Ég held að það sé langheppilegasta aðferðin að svo sé, það sé gert með reglugerð, eins og ætið hefur verið gert og hefur gefist vel. Hins vegar get ég vel tekið undir þá stefnu sem hæstv. menntmrh. hefur sett fram í frv. sínu í Nd.- máli nr. 194. Ég get vel tekið undir það, og það er þess vegna einmitt sem ég hef fylkt mér í lið með minni hl. Í menntmn. í þessu máli, en á ekki samleið með meiri hl. sem hefur tekið það að sér að ganga á mjög óeðlilegan og óviðurkvæmilegan hátt gegn hæstv. menntmrh.

Svo er nú það atriðið sem stendur upp úr mönnum mjög hér, þeim sem fylgja þessu frv. sem hér er til umr., að það þurfi að vera festa í stafsetningarmálum. Ég held að við séum öll sammála um að það sé nauðsynjamál að það sé festa í stafsetningarmálum. En ég held að það sé síst meiri festa og raunar sé það nokkurn veginn víst að það tryggi ekki festu í stafsetningarmálum að láta Alþ. fjalla um einstaka þætti stafsetningar. Ég er sannfærður um að heppilegra er að það mál sé í höndum ráðh. og hann muni betur tryggja það heldur en Alþ. að slík festa sé í stafsetningarmálunum. M.a. af þeirri ástæðu hlítt ég að vera á móti því að fela Alþ. að fjalla í einstökum smáatriðum um stafsetningarmálin.

En ég skal ekki teygja lopann öllu lengur eða fara að rekja hér einstakar skoðanir mínar á því hvernig ég vil láta stafsetja íslenska tungu. Það skal ég ekkert fara út í, enda er ég enginn sérfræðingur í því sérstaklega. En ég vil leyfa mér að beina máli mínu enn til virðulegs forseta um það að atkvgr. verði ekki látin fara fram um þetta mál nú í kvöld.