10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3272)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. minni hl. (Magnús T. Ólafsson):

Hæstv. forseti. Það er annars leiðinlegt, finnst mér, hve jafnviðkunnanlegur maður á margan hátt og 3. þm. Austurl. getur verið fullyrðingasamur. Hann virðist tæpast geta sett fram það, sem hann vill koma að í þessum umr., án þess að taka í hverri grein eins stórt upp í sig og hann getur með nokkru móti ginið yfir. Ég hef hér á nokkrum blöðum ýmislegt af því sem hann vildi slá föstu í sínu ekki mjög langa máli og gæti talað langt mál þó ekki væri gripið nema á örfáum atriðum.

Hv. þm. lýsti yfir æ ofan í æ, og reyndar brá því líka fyrir í máli hv. 11. þm. Reykv., að í viðbrögðum við afgreiðslu á till. um z í ritmáli hefði, eins og hv. 3. þm. Austurl. komst að orði, „ályktun Alþingis verið foröktuð“, og hann sagði að Alþ. hefði „tekið af skarið svo að ekki verður um villst“. En hvernig var nú afgreiðslan á þessari margumræddu þáltill. um z í ritmáli? Á fundi Sþ. mánudaginn 29. apríl 1974 kom þessi till. til atkv. Hún var þar samþ. með eins atkv. meiri hl., en meðal þeirra, sem hjá sátu, var til að mynda einn þáv. hv. þm. sem gerði grein fyrir atkv. sínu á þessa leið:

„Herra forseti. Ég tel fjarstæðu að gera mál eins og þetta að þingmáli, tel það alls ekki koma Alþ. við hvort ákveðið er að rita y eða z eða einfaldan eða tvöfaldan samhljóða í ritmáli.“

Sem sagt, afstaða þessa þáv. þm. var sú, að slíkt mál sem þáltill. hv. 3. þm. Austurl. um z í ritmáli ætti alls ekki að koma til kasta Alþ. Annað mál er að einhverjum hefði nú kannske fundist rökréttara af hálfu þess fyrrv. þm., sem þar átti hlut, að greiða þá atkv. gegn till. sem þá hefði verið fallin, hefði þessi mæti maður haft til að bera meiri rökhugsun í þetta skipti. Þetta get ég ómögulega túlkað sem eindreginn, ótvíræðan þingvilja sem skilyrðislaust beri að breyta eftir, alveg burt séð frá því hver hefð ríkir um það hverja skyldu einfaldar þál. leggja á ríkisstj. og einstaka ráðh.

Hv. 3. þm. Austurl. ræddi mjög um, að það gæti nú dregið dilk á eftir sér ef ekki væri farið að sínum vilja í þessu máli, og beindi einkum orðum sínum til forsrh. Það hefur komið fyrir áður að í skeleggu máli hv. 3. þm. Austurl. skýtur upp öngum af ýmsum innanflokksvandamálum Sjálfstfl., sem að jafnaði geymast þar í þingflokksherbergi, en hv. 3. þm. Austurl. virðist taka mjög nærri sér, bera með sér af slíkri tilfinningasemi að hann ræður ekki við sig þegar í þingsalinn kemur og tæpir á slíku hér í ræðustól með hálfkveðnum vísum. Ég veit ekki hvort hv. þm. er með því að æra upp sult í okkur öðrum þm. sem kannske vildum vita meira en hann lætur uppi hverju sinni eða hvort hann er á þennan hátt að ná sér niðri á flokkssystkinum sínum. Þó er síðari skýringin nær mínum huga, og minnist ég þá hvassra orða sem hv. þm. viðhafði við Sunnlendingagoða, hv. 1. þm. Suðurl., eftir tiltekna kosningu í þingflokki Sjálfstfl. í fyrravor. En hvað um það, þetta er nú útúrdúr.

En varðandi margítrekað umtal hv. þm. um vantraust, þá get ég ekki annað en bent honum á að á sinum tíma, þegar till. um z í ritmáli var til afgreiðslu, þá var mér í lófa lagið að lýsa yfir að ég tæki samþykkt hennar sem vantraust á mig að gera hana bar með að hápólitísku máli. Þetta gerði ég ekki vegna eðlis málsins. En hins vegar hv. 3. þm. Austurl. fer hamförum til þess að gera þetta áhugamál sitt að flokksmáli Sjálfstfl., en virðist að dæma eftir ræðu hans hér áðan ekki hafa haft erindi sem erfiði. Bágindi á því heimili snerta mig ekki mjög djúpt. En hver veit nema við getum haft hv. 3. þm. Austurl. veðurvita um ástandið þar innan stokks og utan stokks hér eftir sem hingað til?

Hv. 3. þm. Austurl. var að lýsa eftir því hvað menn ættu við með orðum sinum í þessum ræðustól. Mér er nú næst að spyrja: Hvað á hv. þm. við þegar hann talar um að það geti „farið í verra“. Hann viðhafði þessi orð ekki einu sinni, heldur oft og lagði á þau mikla áherslu. Er hann að tala um að teknar verði t.d. upp hólmgöngur? Eigum við hv. þm. að hittast með skammbyssur hér í alþingishússgarðinum einhvern daginn? Ætlar hann að skora mig á hólm? Eða ætlar hann að skora hæstv. forsrh. á hólm? Hverjum er hann að hóta? Hví þessa óskaplegu geðshræringu? Hefur eitthvað afskaplegt gerst í þingflokki Sjálfstfl., eitthvað sem kannske þyrfti að rannsaka? Þetta ætla ég nú að láta nægja að sinni um tóninn í máli hv. 3. þm. Austurl. En atriðin voru mörg í máli hans sem gefa tilefni til andsvara og leiðréttinga og nákvæmari frásagnar en hann temur sér þegar sá gállinn er á honum.

Til að mynda fór hann hér mörgum orðum — og beindi enn orðum sinum til hæstv. forsrh. — um það hvílíka fjárhagsþýðingu það hefði að láta standa núgildandi stafsetningarreglur, sagði alfarið að það útilokaði með öllu ljósprentun á merkum fræðiritum sem því miður voru gefin út í litlum upplögum í öndverðu og hafa verið ófáanleg, en menn vildu gjarnan sjá á bókamarkaði á ný. Um þetta er fjallað í grg. með frv. á þskj. 140. En það er bara ekki heil brú í þeirri röksemdafærslu. Það hafa fleiri þjóðir en íslendingar breytt ákveðnum stafsetningaratriðum. Það hafa danir gert, gerðu það upp úr 1950, ef ég man rétt. Það gerðu svíar, ég held nokkru fyrr. Síðan eru liðnir áratugir, ef þessi ártöl eru rétt munuð hjá mér. Enn í dag eru vel metnir bókaútgefendur með þessum þjóðum að gefa út ljósprentuð fræðirit sem komu á prent löngu áður en stafsetningarbreytingarnar áttu sér stað, algerlega án þess að láta setja þau upp og færa til núgildandi stafsetningar. Þau eru bara ljósprentuð eins og þau komu fyrir, til að mynda ekki minna grundvallarfræðirit um dönsk málvísindi heldur en Ordbog over det danske sprog eftir Dahlerup, og einhver annar kom þar við sögu, en Dahlerup er aðalhöfundur. Þetta verk er, ef ég man rétt, í 28 bindum. Þetta er sú ítarlega danska orðabók sem danir telja að muni endast sér enn um áratugi. Hún var þrotin og hún var ljósprentuð, og ekki var stafsetningarbreytingin þar til neins trafala. Þess vegna er þetta algerlega tilbúin tylliástæða, að ljósprentun fræðirita og hvaða rita sem er sé útilokuð nema að færa þar hvern stafkrók til þeirrar stafsetningar sem gildir þegar ljósprentun á sér stað. Einu ritin, sem þetta gildir um, eru skólabækur, vegna þess að sú auglýsing, sem ég undirritaði á sinum tíma um z, fjallar ekki um það að óheimilt sé að z sjáist á prenti í íslensku máli þó að einstakir menn hafi haft tilhneigingu til að túlka hana þannig. Hún fjallaði um það að z skyldi ekki lengur kennd í skyldunámsskólum né skólabækur í þeim skólum prentaðar á þeirri stafsetningu. Þetta er nú svo til allt gildissviðið. Það er ekki verið að torvelda eðlilega bókaútgáfu með þessu. En í grg. með frv. á þskj. 140 er gerður úlfaldi úr þessari mýflugu, talað um gífurlegan aukakostnað sem hljótist af slíkri stafsetningarbreytingu. Og hv. 3. þm. Austurl. kemur hér og gerir úr þessum úlfalda a.m.k. fíl, ef ekki hval. Svona röksemdafærsla er alls ekki samboðin hv. þm.

Sömuleiðis er það hreinn tilbúningur að í stafsetningu ríki einhver glundroði og skólamenn viti ekki í hvern fótinn þeir eigi að stíga, móðurmálskennarar viti ekki hvað þeir eigi að kenna. Þetta er alger tilbúningur. Kennarasamtökin urðu einmitt fyrst til að mótmæla því að nokkur breyting yrði gerð í skyndi á þeim stafsetningarreglum sem á sínum tíma voru settar með minni undirskrift. Ef einhver glundroði hefur skapast, ef einhver óvissa er ríkjandi, þá stafar hún af því að þetta mál, sem borið er nú fram á þskj. 140, hefur verið sótt af offorsi, af ofurkappi, án þess að sjást fyrir í nokkru, án þess að flm. leiði hugann að því hverjar afleiðingarnar yrðu þegar til lengdar léti ef farið væri að vilja þeirra, alveg eins og fram kom í fyrstu orðunum sem hv. 3. þm. Austurl. mælti í þessum ræðustól hér áðan. Hann sló því nefnilega fram að fyrst gerði hann kröfu til þess að hafa sitt mál fram, svo væri hann til umr. um hvaða starfsreglur skyldi setja við meðferð stafsetningarmála. Fyrst yrði „undirstaðan réttleg að vera fundin“, eins og hv. þm. komst að orði. Þetta er að hafa alger hausavíxl á hlutunum. Undirstaðan er starfsaðferðin, síðan kemur framkvæmdin. Og þessi sami misskilningur kom í rauninni fram hjá hv. 11. þm. Reykv., frsm. meiri hl. menntmn. Hann sagði í sinni síðari ræðu að meiri hl. teldi að frv. á þskj. 140 ætti að hafa forgang, því að ef frv. menntmrh. yrði að lögum, þá sæju þeir, sem vildu að z yrði aftur tekin upp í stafsetningu, enga leið til að koma fram því máli sínu. Þetta er ekki bara misskilningur, þetta stappar nærri blindu, því að frv. hæstv. menntmrh. gerir einmitt ráð fyrir því að um nýjar stafsetningarreglur, breytingu á stafsetningu, þurfi Alþ. að fjalla í formi þál. Ég tel mér um það kunnugt að hæstv. menntmrh. hafi hug á því að taka einhver stafsetningaratriði til athugunar og þá yrði með þau farið eftir þeim reglum sem frv. hans gerir ráð fyrir yrði það að lögum. Sé nú meiri hl. stuðningsmanna frv. á þskj. 140 á Alþ. jafnótvíræður og þeir vilja vera láta, liggur þá ekki í augum uppí að til þess að koma fram reglum, sem hæstv. menntmrh. vildi setja á ný, eða breytingum, sem hann vildi gera, þá yrði hann til þess að fá samþykki Alþ. að láta fylgja þeim breytingum á þessu atriði sem fullyrt er að yfirgnæfandi meiri hl. Alþ. vilji fá fram fyrir hvern mun? Ef fylgið við mál flm. frv. á þskj. 140 er jafnmikið og eindregið og þeir halda fram, þá er þeirra hlutur jafnvel tryggður þótt frv. menntmrh. verði gert að lögum og eftir því farið. En þá er girt fyrir það að Alþ. verði að vettvangi átaka um einstök stafsetningaratriði æ ofan í æ eftir því hver vilji þm. er hverju sinni. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna hv. þm., sem meiri hl. skipa, gátu ekki sameinast okkur í minni hl. um það að mæla með samþykkt frv. hæstv. menntmrh. Sé þeirra fylgi jafneindregið og þeir halda fram, þá er þeirra hlutur jafnt tryggður, aðeins mundi líða heldur lengri tími þangað til hann yrði að veruleika. Ég vil biðja hv. þm. að hugleiða þetta og hvort þeir komist ekki að þeirri niðurstöðu við nánari athugun að þetta sé rétt mat.

Það er af svo miklu að taka í máli þessara hv. þm. beggja, 11. þm. Reykv. og 3. þm. Austurl., sem svara væri vert að þar verður að velja og hafna. En í framhaldi af því, sem ég sagði síðast, þá vil ég brýna það fyrir hv. þm. að þegar þeir tala um að taka af allan vafa nú með því að samþykkja frv. á þskj. 140 eru þeir síður en svo að ráða málinu til lykta í eitt skipti fyrir öll, því að ef sú starfsaðferð er viðhöfð sem þar er gerð till. um, þá getur hvaða þm. sem er tekið hvaða stafsetningaratriði sem honum sýnist upp þegar á næsta þingi í formi lagafrv., og svona getur þetta gengið koll af kolli. Þeir stefna í ófæru í stafsetningarmálum með starfsaðferðinni sem þeir vilja viðhafa. Það er mergurinn málsins.

Þegar hv. 3. þm. Austurl. og ekki í fyrsta skipti tekur að vitna í nafnalistann, sem fylgir frv. á þskj. 140, og spyr þá sem á öðru máli eru: Hvar er ykkar nafnalisti? Því hafið þið ekki safnað undirskriftum? — þá er því fyrst til að svara, að sem betur fer, vil ég segja, hefur það verið starfsaðferð sómakærra alþm. hingað til að sækja mál sitt og verja hér í þingsölum fyrir þm., en ekki hlaupa af hverju tilefni út um borg og bý að safna undirskriftum undir eitthvað sem þá langar til að taka upp á þingi. En það hafa svo sem fleiri látið til sín heyra en þessir hundraðmenningar og það fólk sem ég tel síst hafa minni dómgreind til að bera um þetta efni. Ég gæti lesið lengi nætur ef ég færi að kemba rækilega úrklippusafn mitt. En ég ætla aðeins að grípa niður á einstökum atriðum.

Ég minni t.d. á grein úr sjálfu Morgunblaðinu, málgagni beggja hv. þm., 11. þm. Reykv. og 3. þm. Austurl., þar sem svo segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er ýkjalangt síðan tekið var að líta á íslenska málfræði sem mikils háttar náms- og fræðigrein. Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þessarar að henni var skipað til öndvegis í skólum landsins. Fullnaðarsigur þessarar stefnu var stafsetningin sem 33 þm. vilja nú að haldist óbreytt og ekki síður, vel að merkja, greinarmerkjasetning sú, sem jafnan hefur fylgt henni þótt reglugerð um hana væri víst aldrei gefin út. Nefnd sú, sem nýverið varpaði z fyrir borð og breytti reglunum um stóran og lítinn staf, gerði raunar meira, miklu meira, því að hún kollvarpaði gersamlega þessum hefðbundnu setningarfræðilegu greinarmerkjum og setti nýjar reglur þar um. Virðist bylting sú hafa farið fram hjá hv. þm. og mega það undur heita, því að hún er mun róttækari en þær lítilfjörlegu breytingar sem n. gerði á stafsetningunni.“

„Það á ekki að hringla með stafsetninguna, segja menn,“ segir Erlendur Jónsson enn fremur í Morgunblaðinu, „og undir það geta víst flestir tekið. Löggjafinn skyldi þá líka minnast þess að lög og reglur eru lítils virði ef þeim er ekki hlýtt, og hvaða reglur hafa verið þverbrotnar hér jafngengdarlaust síðustu áratugina og stafsetningarreglurnar? Örugglega engar. Vísvitandi brotnar, á ég þá auðvitað við, um hitt tala ég nú ekki. Z hefur í reynd verið litið meira en skólabókalærdómur og þó jafnvel hornreka sem slík, þar sem börn voru ekki látin læra hana fyrr en eftir fermingu.

Eftir að reglugerðin var gefin út um niðurfellingu z og breyttar reglur um stóran og lítinn staf ásamt gerbreyttum greinarmerkjareglum munu flestir hafa álitið að ekki yrði hróflað meir við íslenskri stafsetningu í bráð, og í þeirri trú hafa vafalaust margir hafist handa við samningu nýrra kennslubóka og breytingu gamalla í samræmi við hinar nýju reglur. Á nú að stöðva allt það verk og láta höfunda og bókagerðarmenn standa á hemlum á gulu ljósi og bíða eilífðarnóns eftir allsendis óvissum niðurstöðum, sem síðar kunna að verða ómerktar?“

Þetta segir Erlendur Jónsson í Morgunblaðinu. Ég gæti einnig vitnað í það sama blað um skoðanir til að mynda Jóns úr Vör sem hann hefur sett þar fram. Ég gæti vitnað í Þjóðviljann, t.d. það sem dr. Jakob Benediktsson, ritstjóri Orðabókar háskólans, hefur að segja. Ég tel hann vita síst minna um efnið en hvern þeirra hundraðmenninga sem hv. 3. þm. Austurl. vill leiða fram til vitnis hér. En ég er hér ekki til þess að halda uppi málþófi. Ég hef reynt að flytja rök fyrir því að sú stefna, sem við í minni hl. menntmn. setjum fram í nál. okkar, er öllum fyrir bestu. Hún er, ef menn fást til að líta fram fyrir líðandi stund, heilladrýgri heldur en að taka upp stefnu sem gerir hvaða stafsetningaratriði sem vera skal að rifrildisefni um ófyrirsjáanlega framtíð.