11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

304. mál, kynlífsfræðsla í skólum

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og það gleður mig að tilraunakennsla skuli nú eiga að fara að hefjast, því að satt að segja hefur þessum málum lengi verið mjög ábótavant í skólum landsins. Í grg., sem var með frv. til fóstureyðingarlaganna á síðasta ári, kom fram í sambandi við námsefni og kennslu í skólum að af því námsefni, sem nú er til staðar í skólunum, má varla ráða hvernig á að búa til barn, hvað þá hvernig eigi að koma í veg fyrir getnað. Og fáviskan er ótrúleg á þessum sviðum. Hún er ótrúlegri en nokkur getur ímyndað sér. Ég get nefnt mjög nýlegt dæmi frá ráðgjafarþjónustunni sem er hér í Reykjavík, reyndar ekki í skólum, heldur í Heilsuverndarstöðinni, opin aðeins einu sinni í viku. Þangað kom stúlka nýlega 16 ára og var að biðja um ráð. Hún hafði ekki fengið blæðingar í langan tíma. Það kom í ljós að stúlkan var komin 61/2 mánuð á leið. Hún hafði ekki hugmynd um þetta. Ég bendi bara á þetta sem dæmi um það, hve fáviskan er ótrúleg og hve nauðsynlegt er að hefja þessa fræðslu snemma, þ. e. a. s. áður eða um leið og börn verða kynþroska.