11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3976 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég fer ekki mörgum orðum um hversu alvarlegir þeir atburðir voru sem áttu sér stað á miðunum s.l. fimmtudagskvöld. Þótt ýmislegt hörmulegt og hroðalegt hafi átt sér stað á miðunum eftir að bretar sendu flota sinn hingað á Íslandsmið og þótt þessir atburðir séu í sjálfu sér ekki annað en keðja af slíkum atburðum, þá hefur sjaldan áður skollið hurð eins nærri hælum og í þetta skipti og tæpar hefur vart staðið að mannslífum væri glatað.

Það er af þessu tilefni spurt um viðbrögð ríkisstj. Ríkisstj. hefur rætt þessi mál og hélt m.a. fund í gær og ákvað þar að taka málið upp í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og fastaráði Atlantshafsbandalagsins, og hafa ráðstafanir þegar verið gerðar til þess. Þá mun Einar Ágústsson utanrrh, fylgja málinu eftir og sækja mál okkar þegar bann sækir utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í Osló í næstu viku.

Ég tel að ég hafi með þessu svarað tveim fyrstu fsp. hv. 5. þm. Norðurl, e. og vil einnig láta það koma hér fram að mér var gert aðvart um ætlan þingmannsins að taka málið upp hér utan dagskrár, en mér er einnig kunnugt um að utanrrh. var ekki gert kunnugt um það og hann er bundinn af skyldustörfum sem löngu voru ákveðin,

Hér hefur það borið á góma, m.a. hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, 2. landsk. þm., að hann teldi að utanrrh. ætti ekki að sækja þennan fund, og fleiri hafa undir það tekið. En samt sem áður vildi hv. 2. landsk. þm. að málið yrði tekið upp og flutt á vettvangi Öryggisráðsins og fastaráðs Atlantshafsbandalagsins. Við eigum sem sagt að taka málið upp í Atlantshafsbandalaginu, en síðan eigum við ekki að mæta til þess að flytja málið. Hér er um slíka mótsögn að ræða sem óskiljanleg er hjá jafnskýrum, greindum og yfirveguðum þm. sem hv. 2. landsk. þm. er. Vitaskuld eigum við að flytja þetta mál á vettvangi bæði Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Við eigum ekki að gera andstæðingi okkar, bretum, þann greiða að hverfa af hólmi þegar við erum að flytja mál okkar til sigurs.

Þriðja fyrirspurn hv. 5. þm. Norðurl, e. var varðandi skrif Morgunblaðsins og samninga við breta. Ég svara aðeins hver mín skoðun er og vil ítreka það sem ég hef lýst hér yfir einnig fyrir hönd ríkisstj., að við breta er ekki samið meðan þeir hafa herskip innan 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Og fari þeir út með herskipin, þá fer það eftir því, hvert efnisinnihald væri mögulegt í slíkum samningum eða aðgerðum af okkar hálfu, hvort ég teldi fært að leysa deiluna með þeim hætti. En ef hv. þm. á við það, þegar hann segir að ég hafi ávallt viljað semja, að ég hafi ávallt viljað leysa þessa deilu með friðsamlegum hætti, þá hefur hann rétt fyrir sér. Ég hef ítrekað lýst því yfir að ég teldi það frumskyldu hverrar sjálfstæðrar, ábyrgrar þjóðar að leitast við að leysa deilumál sín með friðsamlegum hætti, með samningum ef mögulegt er. En ég hef ávallt tekið það einnig fram, að svo getur verið að eigi sé unnt að komast að sanngjörnum samningum, eins og raun hefur á orðið í þessu tilfelli, og þá er að taka því. En ómögulega getur þessi hv. þm., sem hefur e.t.v. öðrum fremur skreytt sig með friðarást og hlutleysishjali, verið á móti þessari grundvallarstefnu í samskiptum þjóða.

Ég tel ástæðu til þess að minnast á hér að gefnu tilefni að við íslendingar höfum vissulega ávallt haft frumkvæði í landhelgismálinu, bæði gagnvart bretum og öðrum þjóðum. Við höfum ávallt gert það, allt frá því að við ákváðum að færa út einhliða í 200 mílur og síðan, og þetta hefur borið þann árangur að við höfum takmarkað veiðar breta á tiltölulega litlum hluta af heildarsvæðinu sem 200 mílna lögsagan nær yfir. Engu að siður er það rétt, að veiðar breta valda okkur tjóni, og það er alvarlegt mál út af fyrir sig þótt ekki kæmu til þær sérstöku hættur sem eru á miðunum fyrir mannslíf vegna þeirra átaka sem þar eiga sér stað. Og sú ábyrgð er engu að síður á okkar herðum, stjórnmálamannanna.

Okkur ber að leitast við að standa undir þeirri ábyrgð með því að bægja þeim hættum frá eins og frekast er unnt. Auðvitað er ábyrgðin einkum og sér í lagi hjá andstæðingunum, bretunum, vegna þess virðingarleysis sem þeir með atferli sínu hafa sýnt fyrir mannslífum.

Það getur vel komið upp í hugum okkar að það sé ekki sæmandi okkur að eiga skipti við slíka þjóð sem þannig hefur komið fram. Og við höfum sýnt það með einum hætti, með því að slíta stjórnmálasambandi við breta. Ég tel að ýmislegt fleira komi til greina áður en við gerum sjálfum okkur tjón og málstað okkar með því að flytja hann ekki meðal annarra vinveittra þjóða og mæta ekki á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í næstu viku, t.d. að hætta að einhverju leyti þeim ferðalögum og samskiptum sem við höfum við breta og Bretland. Það er þó hæpið að þetta sé okkar málstað til gagns, vegna þess að ég er sannfærður um, að við erum að vinna á, við erum að vinna almenningsálitið á band með okkur, bæði í Bretlandi, að ég tali ekki um á alþjóðavettvangi, og við verðum að nota hvert einasta tækifæri, sem við höfum, til þess að vinna betur að því að vinna málstað okkar stuðning. Þegar til lengdar lætur, þá er ég viss um að þetta almenningsálit, t.d. í Bretlandi, gæti orðið sterkara en áhrifamiklir pólitískir hagsmunir innanlands þar í landi, þótt við hljótum að vísu að gera okkur grein fyrir því að flokkaskipting og styrkleikahlutfall á breska þinginu eru svo jöfn að einstaka kjördæmi geta haft úrslitaáhrif á hvaða stjórn eða stjórnarstefnu er þar fylgt, og því er undir slíkum aðstæðum e.t.v. óeðlilega mikið tillit tekið til einstakra kjördæma sem gætu talist vafakjördæmi og áhrif þeirra því óeðlilega mikil. En þrátt fyrir það hef ég þá trú að almenningsálitið í heild sinni vinni á þegar til lengdar lætur og verði okkur styrkur og stuðli að sigri okkar einnig hvað varðar stefnu ríkisstj. í Bretlandi. Með sama hætti tel ég að við styrkjum stöðu okkar með því að flytja mál okkar á alþjóðavettvangi og meðal vina okkar og stappa stálinu í þær þjóðir sem eru þó þrátt fyrir allt þeirrar skoðunar að flotaíhlutun breta sé alvarlegt brot á þeim samskiptareglum sem hafa beri heiðri þjóða á milli.

Það er nefnt hér að ósamræmi sé í gerðum breta, og ég hef lagt áherslu á það ósamræmi. Ég hygg að flestar þjóðir sjái það. Á Hafréttarráðstefnunni og innan Efnahagsbandalagsins hafa þeir eina stefnu, aðhyllast 200 mílna fiskveiðilögsögu og einkalögsögu sjálfum sér til handa gagnvart öðrum Efnahagsbandalagslöndum. Hér á Íslandsmiðum neyta þeir hins vegar allra bragða og þ. á m. ofbeldis til þess að brjóta í bága við þessa alþjóðareglu sem nú má telja vera viðurkennda.

Í þessu sambandi má og nefna frumkvæði okkar í hafréttarmálum innan Sameinuðu þjóðanna og á fundum Hafréttarráðstefnunnar. Ég tel sérstaka ástæðu til að lýsa ánægju minni yfir þeim árangri sem náðist á síðasta fundi Hafréttarráðstefnunnar, og ég vil nota tækifærið til þess að þakka sendinefnd okkar á þeim fundi, en margir meðlimir hennar eru hér innan salar, og einnig þeim, sem utan salar eru, og alveg sérstaklega formanni sendinefndarinnar, Hans G. Andersen, fyrir frammistöðu þeirra og þann árangur að á þessum fundi tókst að vernda þau ákvæði uppkastsins að hafréttarsáttmálanum sem okkur eru mikilvægust. Enn kunna hættur að leynast, og við þurfum að vera á verði og halda áfram því árvakra starfi, sem unnið hefur verið á þessum vettvangi, þar til Hafréttarráðstefnunni lýkur. En einmitt þegar litið er á bæði þennan árangur á fundum Hafréttarráðstefnunnar, jafnvel þótt ekki fari þar allt að okkar óskum sem við þó skulum vona, og að þegar er kunngerð einhliða útfærsla margra þeirra ríkja sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu, er ljóst að sigur okkar er í sjónmáli. Þegar svo er, þá er ekki ástæða til að örvænta, eins og mér finnst gæta hjá ýmsum hv. þm., og ég held að fátt sýni betur árangur stjórnarstefnu og samhuga átaks allra þm., svo langt sem sá samhugur hefur náð.

Ég vil einnig láta í ljós þá skoðun mína að með samræmdum aðgerðum á stjórnmálasviðinu út á við og inn á við og aðgerðum Landhelgisgæslunnar, en starfsmenn hennar hafa sýnt mikinn dugnað og kjark í sínu starfi að öllu leyti og eiga þakkir okkar allra skilið, ég tel engum vafa bundið að með slíkum samræmdum aðgerðum fellur sigurinn í okkar skaut. Við skulum þó ekki ganga of fljótt um gleðinnar dyr, en átta okkur á því að baráttunni er ekki lokið. En vegna þess að sigurinn er í sjónmáli, þótt hann sé ekki þegar að öllu okkar, höfum við enga ástæðu til þess að sýna örvæntingu, heldur eigum við miklu frekar að efla samhug okkar til þess að ná settu marki.