11.05.1976
Efri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3990 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég lagði á það áherslu við 1. umr. þessa máls að mér fyndist það á allan hátt óeðlilegt að áður en slík ákvörðun sem þessi væri tekin, þá lægju ekki fyrir skýrar línur um það hvernig heildarskipulag yrði í raforkumálum þjóðarinnar. Að vísu hefur orðið sú breyting á, að hér er aðeins um heimild að ræða. En ég hefði talið að það hefði verið á allan hátt eðlilegra að fyrst hefði verið mótuð heildarstefna um framtíðina, sem ég veit að hæstv. iðnrh. vinnur að, og ég veit einnig að það er mikið verk að vinna slík mál og ég skil fyllilega að það taki alllangan tíma. Hins vegar þykist ég vita að það muni ekki líða á löngu þangað til slíkt liggur fyrir, og hefði ég talið eðlilegra að þetta mál biði betri tíma eða fram til haustsins.

Það hefur verið gerð sú brtt. við 5. gr. að eignir Rafmagnsveitna ríkisins skuli afhentar Orkubúi Vestfjarða miðað við stofnkostnað, að því er mér skilst, en aftur skuldir skv. samkomulagi. Hér hlýtur að vera um afskaplega þýðingarmikið mál að ræða varðandi rekstrarafkomu þessa væntanlega fyrirtækis, því það hlýtur að skipta sköpum fyrir væntanlegt Orkubú á hvaða verði þessar eignir eru yfirteknar og hvaða skuldir fylgja þar með. Það kom hér fram í umr. að Rafmagnsveitur ríkisins legðu á það áherslu að Orkubúið ætti að sjálfsögðu að yfirtaka hlutdeild í rekstrarskuldum. Hins vegar virtist mér að það hefði ekki verið gert ráð fyrir því þegar frv. var samið. Svona óvissuatriði, sem nú er verið að athuga betur, hefði ég talið að þyrfti að skoða gaumgæfilega og hvaða áhrif það hefði á rekstrarafkomu þessa væntanlega fyrirtækis. Mér finnst á allan hátt óeðlilegt að þetta mál sé afgr. með slíkum hraða að það liggi ekki betur fyrir hv. Alþ., vegna þess að ég trúi því vart að það sé í slíkt óefni komið í þessum málum fyrir vestfirðingum að þeir geti ekki beðið með að stofna fyrirtæki sitt fram til haustsins. Mér finnst á allan hátt óeðlilegt að Alþ. sé að gefa heimildir, ýmiss konar heimildir, án þess að það liggi ljóst fyrir hvort þær verði notaðar eða ekki. Mér finnst að það hafi komið fram vissar efasemdir við þessar breyt. sem hér hafa komið fram, og sýnist mér málið hafa verið sótt af heldur miklu kappi og vantað meiri forsjá.

Þá kemur fram það innskot í 12. gr. að það eigi að heimila allt að 2500 millj. kr. lántöku. Ég veit ekki betur en að ríkisstj. hafi mótað þá stefnu í haust að það skyldi lögð lánsfjáráætlun fyrir Alþ. á hverju þingi, og mér þykir það á margan hátt óeðlilegt að nú sé komin lánsfjárheimild inn í þetta frv. Það er að vísu rétt að það hafa verið samþ. ávallt sérstök lög um lánsfjárheimildir fyrir Landsvirkjun. En ég hefði talið að þær upphæðir ættu einnig að vera í lánsfjáráætlun, og ég tel á allan hátt óeðlilegt að fara nú að setja lánsfjárheimildir inn í þessi lög. Það er eðlilegt að slíkar lánsfjárheimildir séu skoðaðar betur með tilliti til framkvæmdanna, arðsemi þeirra. Við höfum yfir litlu fjármagni að ráða, og mér er ekki kunnugt um að það séu til mjög hagkvæmir virkjunarmöguleikar á Vestfjörðum. Þess vegna tel ég varhugavert að ráðast í vatnsaflsvirkjanir þar og hefði verið hagkvæmara að leggja þangað línur. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að það, sem er kannske þýðingarmest fyrir vestfirðinga nú, það er að koma hitaveitumálum sinum áfram. Ég hef grun um að það liggi ekki heldur nægilega vel fyrir hvaða árangurs er þar að vænta af þeim borunum sem nú fara fram.

Ég vil sem sagt taka það fram, að mér finnst hafa komið upp mikil óvissa í sambandi við þessi mál í þeim umr. sem hér hafa farið fram. Ég viðurkenni það að ég hef ekki átt sæti í þeirri n. sem um það hefur fjallað, en ég hef ekki fengið sannfæringu fyrir því að hér sé verið að stíga rétt spor, hvorki fyrir þjóðina né vestfirðinga, og því mun ég ekki treysta mér að standa að afgreiðslu þessa frv.