11.05.1976
Efri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3994 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

257. mál, jarðalög

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Vegna tilmæla, sem komu fram í umr. um jarðalagafrv. á síðasta fundi þessarar hv. d., vil ég upplýsa að ekki hefur tekist að ná til forstöðumanns lagadeildar Háskólans til þess að fá umsögn deildarinnar um það hvort ákvæði 28. gr. frv. væru andstæð stjórnarskránni. Hins vegar tókst að lokum að ná sambandi við dr. Gauk Jörundsson prófessor sem staðfesti fyrra álit sítt varðandi þetta efni. Hann telur eins og áður að ákvæði 28. gr. stangist ekki á við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Landbn. þessarar hv. d. hefur tekið þetta atriði til umr. að nýju, og n. hefur orðið sammála um að flytja brtt. sem birtist á þskj. 729 og nýlega hefur verið lögð fram hér í d., og hefur orðalag 28. gr. með þeirri breyt. verið fært til samræmis við ákvæði í gildandi lögum um Jarðeignasjóð sem er að finna í 6. gr. þeirra laga, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Jarðir, sem ríkið eignast samkv. 1. gr. þessara laga, má selja sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum sem jörðin heyrir til, enn fremur einstaklingum til varanlegrar ábúðar.“ Einnig segir síðar í gr.: „Heimilt er og, að fengnum meðmælum Landnáms ríkisins, Búnaðarfélags Íslands og hlutaðeigandi sveitarstjórnar, að selja jarðir þessar öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til að bæta búrekstraraðstöðu þeirra.“

Landbn. leggur einróma til að hv. d. samþ. þessa brtt. og vænti ég þess að dm. geti þá orðið ásáttir um frvgr. með þessari breyt., þar sem hún er gjörsamlega færð til samræmis við orðalag hliðstæðrar gr. í gildandi lögum um þetta efni.