11.05.1976
Efri deild: 102. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3997 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er nú á lokastigi, að því er mér virðist, mál sem lengi hefur verið lofað að yrði ráðin bót á, þ.e.a.s. fjármagnsþörf fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna. Á sínum tíma var það sett sem markmið að innan tiltölulega fárra ára skyldi vera mætt svonefndri umframfjárþörf námsmanna 100%. Það hefur nú fallið í hlut þriggja ríkisstj. að reyna að ná þessum áfanga, en ekki tekist. Og nú á að staðfesta um óákveðinn tíma fram í tímann að ekki verði staðið við þetta gamla fyrirheit, sem ég held að séu nærri 9 ár síðan var fyrst gefið, og orðalag 3. gr. á aðeins að vera: „Stefnt skal að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni“ — og svo eru fyrirvarar og svo eru fyrirvarar og möt og möt. Lengra treystir hv. Alþ. sér ekki að ganga og er það slæmt.

Í fyrstu ræðu hæstv. núv. fjmrh. boðaði hann að frv. um námslán og námsstyrki kæmi þá þegar fram og yrði afgr. við fyrstu fjárlög er hann stæði að. Það stóðst ekki. Og ríkissjóður stendur höllum fæti og glymur í tómum kassanum. Það er úr vöndu að ráða, og til þess að reyna að bæta hér úr hafa menn loksins náð samstöðu um að reyna að samþ. frv. er hafi eiginlega ekki hljómgrunn hjá neinum manni almennt talað. En það er kannske með þetta eins og margt annað, að það er ómögulegt að fá frv. er allir verða ánægðir með og þess vegna verði að höggva á hnútinn með eins konar Salómonsdómi. Og þetta er sá dómur sem meiri hl. hefur komið sér saman um nú að skuli gilda þar til annað verður ákveðið síðar meir. Við, sem stöndum að minni hl., höfðum í tíð vinstri stjórnar unnið að því í menntmn. að ná samkomulagi við fulltrúa námsmanna, og eins og frsm. minni hl. drap hér á, þá var vel á veg komið að ná samstöðu, en vegna annarra atvika brast hún á síðustu stundu. Tel ég að það hafi verið slæmt, því ella hefði staða þessa sjóðs verið miklu betri í dag og menn komið á raunhæfara samkomulagi milli ríkisvaldsins og námsmanna.

Það þýðir ekki að fárast um það sem ekki getur átt sér stað aftur. Það er liðinn tími. Við erum hér að fjalla um tiltekið frv., og meiri hl. leggur til að það verði samþ. eins og hann hefur frá gengið. Ég tel þetta slæmt. Ég tel það slæmt vegna þess að mikið undirbúningsstarf hafði farið fram, eins og síðasti ræðumaður drap á, og hér í hv. d. situr einn þm. er starfaði að þessu, og mér skildist á fulltrúum námsmanna að þeir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum, þegar þeir sáu þetta frv., og alls ekki átt von á því.

Það er eðlilegt að fulltrúar námsmanna vilji halda dauðahaldi í þau góðu kjör sem þeir höfðu á sínum tíma. En þó gerðu menn sér ljóst að slíkt gat ekki haldið óbreytt áfram. Þess vegna er það rétt, og það munu allir staðfesta, að þeir voru tilbúnir og eru tilbúnir að taka á sig verulegar kvaðir og jafnvel miklar kvaðir fyrir suma hópa, að endurgreiðsla lána hækki verulega og vísitala komi inn, þannig að sjóðurinn fái árlega verulega stóran hluta af sínu fjármagni aftur, því það er viðurkennt af öllum, hvort sem menn eru fulltrúar stjórnar eða stjórnarandstöðu, að óhægt er fyrir ríkissjóð og vonlaust í framtíðinni að punda út milljörðum í þetta sem beinum styrkjum. Það dettur engum slíkt í hug. Hins vegar taldi ég alltaf, eins og var á sínum tíma, fyrir 3 árum, rétt að hafa þessi lán í tvenns konar formi, og harma ég að það skuli ekki vera tekið upp og því haldið áfram. Ég vildi hafa A-lán, ef við köllum það svo, og B-lán, sem ég mundi þá kalla styrki, hafa þá minni. Og einmitt vegna þess, eins og síðasti ræðumaður drap á, að margir vilja vinna vel yfir sumarið og maður má ekki refsa slíkum mönnum sem vilja leggja á sig mikla vinnu, bæði til lands og sjávar, og tengjast þjóðlífinu miklu betur en margir hafa talið æskilegt að menn geri, og það tel ég plús, þá var skynsamlegra að mínu mati að rétta mönnum styrki, hafa þá tölu lægri, hafa nokkra tugi milljóna til reiðu í því skyni eða jafnvel á annað hundrað milljónir og hvetja menn til að spjara sig og fá um það góðar umsagnir og láta menn velja og hafna. Ég tel að ríkissjóður hefði sloppið betur út úr því og viðkomandi maður getað ráðið því hvaða kerfi hann vildi fara inn í.

Þetta fékk ekki hljómgrunn núna í þessu frv., hvað sem hefur valdið. Þó að á sínum tíma væri verulegur áhugi á þessu, að mér skildist, hjá öllum aðilum, þá hefur ekki orðið niðurstaðan á að hafa þetta í þessu formi. Við í minni hl. viljum hafa meira svigrúm í 8. gr., sem er raunar aðalgrein þessa frv., um veitingu lánanna og hvernig á að mæta þörfum námsmanna við hinn mikla og vaxandi námskostnað, sem er mikill hér á landi og ekki síður erlendis. Það kom skýrt fram hjá fulltrúum námsmanna að tekjur langskólamanna eru afar misjafnar, og það er hv. þdm. mætavel kunnugt um. Það má segja að í eðli sinn sé lánið fjárfesting og fjárfestingin eigi að skila sér aftur í auknum tekjum og jafnvel betri lífsafkomu. En reynslan sýnir samt sem áður að ekki bera allir það mikið úr býtum að þeir séu til stórra átaka í framtíðinni, hverju sem um er að kenna. Ég tel því eðlilegt að nokkuð rúmt svigrúm sé fyrir hendi í löggjöfinni að íþyngja mönnum ekki um of, þó ég styðji það eindregið að þegar menn hafi miklar tekjur og tryggar, þá greiði þeir mjög hátt hlutfall, mjög hátt og fast að fullu. Annað er ekki sæmandi fyrir nokkurn mann er tekur við miklum launum og háum í þjóðfélaginu en að standa skil á því fjármagni sem hann hefur fengið að láni frá ríkisvaldinu til að skapa sér þessar tekjur.

Með þessu frv. verður að vera tryggt, en það tel ég að sé ekki gert, að allir eigi jafnrétti til náms. Fulltrúar námsmanna, fjölmargir, ólíkir hópar, margtaka fram í fjölmörgum bréfum, og ég efast ekki um að það sé rétt staðhæfing, að þetta frv. tryggi ekki þennan rétt og að því leyti förum við aftur á bak. Það er hálfslæmt að hæstv. menntmrh. skuli ekki geta sinnt hv. d. með því að vera hér viðstaddur, því hann var borinn þungum sökum af frummælanda minni hl. hér í gærkvöldi og nótt, og ég vil endurtaka það, að það eru þungar sakir að staðfesta það — og ég hef þá skoðun — að þetta frv. geri mönnum mishátt undir höfði. Það nær ekki nokkurri átt að afgreiða lög um þessi mál er gera mönnum mishátt undir höfði. Frv. verður að tryggja það að hver sá maður, sem til þess hefur hæfileika, eigi kost á því námi er hann vill stunda. Annað er ekki sæmandi í dag á Íslandi.

Ef þetta sjónarmið verður ekki viðurkennt í þessum lögum með breytingum, þá er illa farið og til þess að ná þessari túlkun fram og þessum tilgangi verður að fallast á brtt. minni hl. Annars tryggir löggjöfin ekki þetta grundvallaratriði sem ég trúi ekki öðru en allir séu sammála um. En menn brestur aðeins kjark til að takast á við þann vanda sem er að tryggja þennan eðlilega og sjálfsagða rétt í nútímaþjóðfélagi öllum til handa, sama hvaðan námsmaðurinn kemur og hverja hann á að.

Menn hafa látið í það skína að 60–80% greiðslukvöð væri sanngjörn, og hún er sanngjörn fyrir einstaka hópa manna, en hún er gjörsamlega ofviða öðrum. Því er óhjákvæmilegt að svigrúm um endurgreiðslu sé allrúmt og verði að fara eftir ýmsu í því efni. Það er ekki tryggt með því að setja fasta tölu inn sem lágmarkstölu. Þetta liggur fyrir hér skjalfest í mörgum bréfum, en er of langt mál að fara að rekja það. Hv. þdm. hafa fengið þessi bréf, og ég verð að ætlast til þess að þeir líti á þau og hlusti á þau rök sem þar eru skriflega sett fram. Ef ekki er hlustað á þessi rök, þá er það trú mín að margir hverfi frá námi, og þá er illa farið og þá hefur þetta frv. og þessi lög neikvæð áhrif fyrir jafnvel hundruð ungra námsmanna. En það er öðru nær að þau eigi að túlka slíkt, lögin, þau eiga að hjálpa mönnum.

Það er athyglisvert að við erum hér í þann veginn að afgreiða frá d. frv. sem felur í sér að þeir, sem taka þessi lán með aðstoð ríkisvaldsins, sæti verri lánskjörum en nokkrir aðrir þegnar í þjóðfélaginu. Það hefur þó verið talið hingað til að heilbrigt nám og skynsamlegt nám væri hin besta fjárfesting sem hægt væri að gera í þjóðfélaginu. En af því að fjárfestingin er svona góð, eiga þá kjörin að vera verri en nokkurs staðar annars staðar í þjóðfélaginu? Eru það rökin fyrir því að hafa kjörin svona slæm? Það þykir mér undarleg röksemdafærsla.

Borið er við einni ástæðu í fyrra og nú — og hvað á næsta ári? Árferðið er svo slæmt, segja menn, að ekki sé hægt að ganga lengra. Er hæstv. ríkisstj. þá tilbúin, ef árferðið verður betra á næsta ári, að breyta lögunum og rýmka um lánsheimild? Ég held að enginn maður taki mark á slíkri yfirlýsingu, það eru þegar komnar svo margar yfirlýsingar að þær eru orðnar fleiri en legíó, og nennir enginn að eltast lengur við slíkar yfirlýsingar. Þær hafa ekki staðið deginum lengur. Það er því ekkert val um annað en að hlusta á þær brtt. sem við flytjum í minni hl., ef menn hafa það að markmiði, eins og núv. ríkisstj. og tvær ríkisstj. áður hafa margstaðfest og raunar allir stjórnmálaflokkar þess vegna staðfest og gefið yfirlýsingar um eða talsmenn þeirra, að stefnt skuli að því að umfram fjárþörf námsmanna verði að fullu mætt. En þetta frv., sem á nú að verða að lögum, gerir það ekki. Þess vegna eru það brigðmæli að standa ekki að því.

Ég trúi því ekki að menn vilji ekki sameinast um þetta nú, þrátt fyrir að nú sem stendur er heldur þungt fyrir fæti hjá ríkissjóði og þjóðarbúinu í heild. En það léttir ekki á að láta marga hverfa frá námi, sem þegar eru byrjaðir, vegna þess að þeir treysti sér ekki til að taka lánin, bókstaflega treysti sér ekki. Og það er líka trú mín að ábyrgðarmenn fáist ekki til að standa á bak við skuldbindingar með þá greiðslubyrði sem þetta frv. á að leggja lántakanda á herðar. Ég vil vænta þess a.m.k. að því atriði, að krefjast þess ekki af lántakanda að hann útvegi tvo ábyrgðarmenn í viðbót við sínar tryggingar, sé haldið til streitu. Yrði stórhjálp fyrir marga að fella burt það atriði. Ef stjórn Lánasjóðsins getur ekki tryggt með öðrum hætti að námsmaðurinn geti staðið í skilum, þá á Alþ. og löggjöfin ekki að knýja það fram að mínu mati, alls ekki. Það er ekki sanngjarnt ákvæði, ekki undir neinum kringumstæðum, og alls ekki þegar svona er staðið að verki. Ég ætla því að vænta þess, að þó meiri hl. vilji ekki hlusta á allt sem við leggjum til, verði a.m.k. samþ. að þetta ákvæði falli burt. Ef þeir ágætu menn, sem veljast í stjórn þessa sjóðs, eru ekki færir um að meta hvað er raunhæf trygging, þá eru þeir raunverulega ekki færir um að sjá um rekstur á þessu mikla kerfi sem hér er fyrir hendi þegar í dag og á að vera fyrir hendi og veltir milljörðum. Gífurleg skriffinnska er kringum þetta ákvæði, það er óeðlilegt, það er óheilbrigt og það er ósanngjarnt.

Það mætti fjalla um þetta mál mun lengur og vitna hér í ýmis erindi sem til okkar hafa komið, og við, sem höfum fjallað um þetta mál undanfarin mörg ár raunar og hlýtt á marga námsmenn og margar sendinefndir, gætum innbyrðis skipst á skoðunum hér lengi. En ég held að í sjálfu sér séum við ekki svo langt frá því að vilja allir takast á við þennan vanda og leysa hann sómasamlega. Það skortir aðeins í dag þrek til að þora að spá fram í tímann og hafa löggjöfina þannig að hún fullnægi því gamla loforði sem allir stjórnmálaflokkar hafa lýst yfir, að innan fárra ára fái námsmenn 100% fjármagn fyrir sínar umframþarfir, til þess að hver maður á Íslandi eigi þess kost að læra það sem hugur hans stendur til. Og annað er ekki sæmandi fyrir Alþ. en að tryggja slíka löggjöf.