11.05.1976
Neðri deild: 105. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4001 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

115. mál, íslensk stafsetning

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það var aðeins um það, að eins og öllum er nú kunnugt, þá er hér á ferðinni mikið áhuga- og kappsmál margra hv. þm. og því vilja allir vera viðstaddir þá merkilegu atkvgr. sem á að fara fram um þetta mál. En svo vill til að í mínum flokki vantar tvo þm. eins og sakir standa, en þeir munu hins vegar mæta til þings væntanlega á morgun eða koma í bæinn á morgun. Ég vil ekki fara fram á það að þessari atkvgr. verði frestað, af því að hér er um 2. umr. að ræða, en fer eindregið fram á það að 3. umr. um málið fari ekki fram fyrr en á fimmtudag, hún fari sem sagt ekki fram á morgun, vegna þess að þessir þm. eða a.m.k. annar þeirra kemur í bæinn á morgun og er mjög óvíst að þeir geti tekið þátt í atkvgr. En eins og ég segi, þar sem hér er um slíkt örlagamál að ræða sem allir þekkja, þá fer ég mjög eindregið fram á að þessi háttur verði hafður á, þó að atkvgr. við 2. umr. fari nú fram.