11.05.1976
Neðri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4015 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Af því tilefni, hversu langt er líðið á fundartíma og honum er raunar lokið, mun ég stytta mjög mitt mál og hafa það mun styttra en ég gerði ráð fyrir þegar ég bað um orðið utan dagskrár. En ástæðan fyrir því, að ég bað um orðið hér utan dagskrár, er sú, að mér þykir rétt að gera örþrifatilraun til þess að reyna að fá hv. Nd. og hv. Alþ. til þess að sinna þeim mikilvægu og afdrifaríku málum sem til d. hefur verið beint um úrbætur í dómsmálum og rannsókn sakamála nú í vetur. Ljóst virðist nú vera að hv. Alþ. ætlar að heykjast á því að afgreiða svo mikið sem eitt einasta af þeim fjölmörgu málum í þessum málaflokki sem fyrir Alþ. hafa verið lögð. Fari svo, þá tel ég að Alþ. hafi brugðist skyldu sinni og valdið almenningi í landinu sárum vonbrigðum, fólki sem beðið hefur eftir því í allan vetur að löggjafarsamkoman reki af sér slyðruorðið og geri þær úrbætur í réttarfarsmálum þjóðarinnar sem svo lengi hefur verið látið dragast að gera, en till. hafa nú verið lagðar fram um hér á Alþ.

Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um ástandið í þessum efnum, það hef ég áður gert og það margsinnis í ræðum á Alþ. í vetur. Ég ætla aðeins að vekja athygli á því að nú hefur það gerst í fyrsta sinn um langt skeið að fjöldi frv. og þáltill. hefur verið lagður fyrir hv. Alþ., og vil ég þar sérstaklega nefna frv. hæstv. dómsmrh. um rannsóknarlögreglu ríkisins og fylgifrv. þess sem lögð voru fram fyrir þessa hv. d. fyrr í vetur. Ekki vantaði að þessi frv. fengju góðar viðtökur þegar þau voru lögð fram á sínum tíma. En það hefur bókstaflega ekkert gerst, ekki nokkur skapaður hlutur, í meðferð Alþ. á þessum málum, þrátt fyrir það að hæstv. dómsmrh. hefur æ ofan í æ fundið sig knúinn til þess að óska sérstaklega eftir því við þessa hv. d. að hún reyndi að ljúka afgreiðslu þessara frv.

Sú ákvörðun var tekin á fundi allshn. þessarar hv. d. s.l. föstudag að afgreiða þessi frv. ekki. Ég á sæti í þessari n., en boðaði veikindaforföll fyrir þennan fund og var því ekki viðstaddur. Hins vegar tók ég málið upp að nýju á fundi allshn. í morgun og reyndi að fá þar fram afstöðubreytingu. Það virtist hins vegar ekki unnt. Þá lét ég bóka hörð mótmæli við þessari afstöðu meiri hl. n. þar sem ég tel bæði rétt og skylt að afgreiða þessi frv. og vel unnt þrátt fyrir ósamhljóða umsagnir ef vilji er fyrir hendi. Sú afstaða, sem hv. allshn. hefur tekið í þessu máli, er sú versta sem hægt er að taka undir þessum kringumstæðum og langt í frá vansalaus fyrir Alþ., sýnir sinnuleysi sem fólk hlýtur að eiga erfitt með að trúa eins og málum er háttað. En enn er þó ekki of seint að reyna að rétta hér við.

Í gær lét hæstv. ríkisstj. frá sér fara lista yfir mál þau sem afgreiða á fyrir þinglok. Í þeim lista var engin upptalning á þeim málum sem hæstv. dómsmrh. hefur óskað eftir að afgreiða, en mun hafa verið sett fram í dag frá hæstv. ráðh., og þar mun fram koma að hann óskar eftir því að þetta frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins verði afgreitt. Ég ætla eindregið að skora á þá stjórnarsinna að verða við þessum tilmælum hæstv. ráðh. og taka það fram fyrir hönd mína og minna flokksmanna að við erum reiðubúnir til þess að stuðla að afgreiðslu þessara mála.

En ég get ekki látið hjá líða að minnast á eitt annað mál þessu skylt og vona að ég sé ekki farinn að syndga of mikið upp á náðina. Ég á örfá orð eftir ósögð. (Forseti: Jú, hv. þm. er nú farinn að syndga upp á náðina. Þau mega þá ekki vera nema örfá.) Þau eru örfá. Og það er um þáltill. sem við höfum flutt, þremenningarnir, ég, hv. þm. Jónas Árnason og hv. þm. Karvel Pálmason. (Forseti: Ég vil nú biðja hv. þm. að fara ekki að ræða um þingmál efnislega, hann hafði fengið orðið í fundarlok til þess að reka á eftir afgreiðslu vissra mála, en ekki til að fara að ræða mál efnislega.) Það ætla ég ekki heldur að gera, hæstv. forseti. Ég ætla bara að ítreka það, að ég óska eftir því að þessi þáltill. sé einnig afgreidd frá n., en hún hefur hlotið sömu afgreiðslu n. og önnur mál varðandi dómsmálin, að n. hefur tekið þá afstöðu að afgreiða málið ekki. Og það segir sitthvað um afstöðu n. að komast að slíkri niðurstöðu, vegna þess — og það skulu vera mín síðustu orð — að það hafa borist óskir frá þeim, sem rannsókn mála sinna, um að heimilað verði að fjölga starfsmönnum við þessar rannsóknir. Þeim óskum hefur ekki verið sinnt þar eð talið er að vanti nauðsynlegar heimildir á fjárl. til þess að fjölga starfsmönnum við slíkar rannsóknir. Ef Alþ. afgreiðir þá till., sem við höfum lagt fram, er sú heimild fengin. Ef það verður hins vegar staðið við það sem hv. allshn. eða meiri hl. hennar hefur ákveðið, að fresta málinu og afgreiða það ekki, þá jafngildir það yfirlýsingu til handhafa framkvæmdavaldsins um það að Alþ. fyrir sitt leyti vilji ekki fallast á tilmæli þeirra um aukinn starfskraft til þessara starfa. Og ég vil bara hvetja þm., og lýk máli mínu með því að vitna í leiðara Morgunblaðsins frá því í morgun, leiðara málgagns hæstv. forsrh., þar sem mjög eindregið er tekið undir nauðsyn þeirra aðgerða sem þáltill. okkar þremenninganna lýtur að.