11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 667 er till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1976–1979. Það er ekkert nýtt að vegáætlun sé seint á ferð hér á hv. Alþ., og verð ég að lýsa þeirri sök á hendur mér að ég hef ekki verið betri í þeim efnum en fyrirrennarar mínir. Er það miður að ekki er hægt að hraða þessu máli meira en orðið er, en hv. þm. er kunnugt um ástæðurnar fyrir því því það er alltaf verið að reyna að fá meira fé til vegaframkvæmda, eins og nauðsyn ber til, en er seinlegt verk fyrir núv. samgrh. sem aðra.

Áætlun um fjáröflun til vegagerðar fyrir árin 1976–79 skiptist í tvo meginþætti. Það eru markaðar tekjur, sem svo er aftur skipt í innflutningsgjald af bensíni, þungaskatt og gúmmígjald, og sérsök fjáröflun, sem skiptist í almenna og sérstaka lánsfjáröflun.

Áætlun um markaðar tekjur er í meginatriðum byggð á sömu forsendum og tekjuáætlunin 1974–77 sem lögð var fyrir Alþ. vorið 1975. Markaðar tekjur nettó lækka þó í heild fyrir árið 1976 úr 2570 millj. kr. í 2484 millj., en hækka aftur 1977 í 2824 millj.

Lækkaðar tekjur 1976 stafa aðallega af minnkandi eldsneytiseyðslu bensínbifreiða, þannig var meðaleyðsla á bíl á árinu 1974 og næsta ár þar á undan 1750 lítrar, en lækkar niður í 1600 lítra á árinu 1975 eða um rúmlega 9%. Aðrar breytingar, sem átt hafa sér stað á gjaldstofni markaðra tekna, eru þessar: Á s.l. ári var breytt reglugerð um þungaskatt. Í byrjun mars á yfirstandandi ári var gefin út ný reglugerð um þungaskatt þar sem eigendum dísilbifreiða undir 4 tonna heildarþunga er heimilað að velja um hvort þeir greiði fast árgjald, sem nú er 70 þús. kr. á ári, eða ákveðið gjald af km, sem nú er kr. 2.80. Þessi breyting eykur á óvissu um tekjur af þungaskatti auk þess sem hún hlýtur að hafa lækkandi áhrif á skattinn. Loks er í áætlun um markaðar tekjur Vegasjóðs gert ráð fyrir að gjaldstofnar hækki miðað við 1. maí s.l. samkv. nýrri heimild í lögum um fjáröflun til vegagerðar um að hækka megi þessa gjaldstofna samkv. breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar, og er þessi heimild nú notuð í fyrsta skipti.

Innflutningsgjald af bensíni hækkar á áætlunartímabilinu úr 1873 millj. kr. 1976 í 2288 millj. kr. árið 1979. Gjaldíð nemur nú á bensínlítra, eftir að síðasta hækkun átti sér stað fyrir nokkrum dögum, 17.59 kr. Við áætlun gjaldsins hefur verið tekið tillit til minnkandi kaupgetu almennings og hækkaðra innflutningsgjalda af bifreiðum, þannig að bifreiðum með bensinhreyfli fjölgi ekki nema úr 64300 bifreiðum um mitt s.l. ár í 77 200 árið 1979, en það er töluvert minna en þarf til þess að standa undir eðlilegri endurnýjun bifreiðaeignarinnar. Einnig er reiknað með að bensíneyðslan aukist aftur frá þeirri meðaleyðslu á bifreið sem var á s.l. ári, eða úr 1600 lítrum í 1620 lítra á þessu ári, og haldist sú meðaleyðsla óbreytt á áætlunartímabilinu.

Þungaskattur: Áætlað er að þær breytingar, sem áður er getið á innheimtu þungaskatts af dísilbifreiðum, gefi Vegasjóði 120 millj. kr. í auknar tekjur á ársgrundvelli. Áætlað er að skatturinn gefi á þessu ári nettó 562 millj. kr. Á næsta ári verður um verulega hækkun að ræða, ætti hann þá að fara upp í 720 millj. kr., árið 1978 í 763 og 1979 í 806. Skipting þungaskatts milli árgjalds og km-gjalds er í stórum dráttum þannig að árgjaldið nemi tæpum hluta skattsins, en km-gjaldið 3/4.

Áætlun tekna af gúmmígjaldi er byggð á bifreiðainnflutningi og endurnýjunarþörf á hjólbörðum þeirra bifreiða sem eru í notkun. Á árunum fyrir 1975 var meðalendurnýjun á bifreið 23 kg, en fór niður í 16 kg á s.l. ári. Við áætlun gúmmígjaldsins er gert ráð fyrir að endurnýjunin verði 18 kg á bifreið á þessu ári, en aukist á áætlunartímabilinu upp í 22 kg á bifreið. Auk þess er reiknað með gúmmígjaldi af innfluttum bifreiðum. Áætlað er að gjaldið nemi 77 millj. kr. á þessu ári, en verði orðið 110 millj. á síðasta ári áætlunartímabilsins.

Þá er komið að hinum aðalþættinum, lánsfjáröfluninni, hinni sérstöku fjáröflun, sem skiptist, eins og áður segir, í almenna lánsfjáröflun og sérstaka fjáröflun. Í vegáætlun er gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun að upphæð 1050 millj. kr. hvort áranna 1976 og 1977. Í lánsfjáráætlun fyrir árið 1976 er gert ráð fyrir sömu fjárhæð vegna Vegasjóðs í samræmi við gildandi vegáætlun. Af þessari fjárhæð er gert ráð fyrir að 500 millj. kr. verði aflað með sölu happdrættisskuldabréfa samkv. heimild í l. nr. 36 1975, um fjáröflun til Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norður- og Austurveg og l. um fjáröflun til vegagerðar. Sökum mikils fjárskorts Vegasjóðs er gert ráð fyrir að aflað verði viðbótarlánsfjár að upphæð 300 millj. kr., sbr. lög um þetta efni sem nýlega hafa verið samþ. á Alþ. Gert er ráð fyrir að almenn lánsfjáröflun til Vegasjóðs árin 1977–1979 nemi sömu heildarupphæð eða um 1350 millj. kr.

Gert er ráð fyrir sérstakri lánsfjáröflun á þessu ári að fjárhæð 250 millj. kr. Hér er um að ræða skammtímalán, til eins eða tveggja ára, hjá framkvæmdaaðilum og verða þau endurgreidd af fjárveitingum í vegáætlun á árunum 1977 og 1978.

Heildarfjáröflun samkv. því, sem hér er sagt að framan, verður á þessu ári 4 milljarðar 614 millj. kr., á næsta ári 4 milljarðar 724 millj. kr., á árinu 1978 4 milljarðar 896 millj. og 1979 5 milljarðar 74 millj. kr., en það jafngildir 2.4% hækkun 1977 frá 1976, 3.6% hækkun á milli áranna 1977 og 1978, 3.6% á milli áranna 1978 og 1379.

Skipting útgjalda samkvæmt þessari þáltill. um vegáætlun: Útgjöld á vegáætlun eru miðuð við verðlag eins og það er í dag, og eru því teknar inn þegar umsamdar kauphækkanir og þær verðhækkanir sem vitað er um. Hins vegar er miðað við óbreyttan taxta vinnuvéla, en líkur eru fyrir því að þeir hljóti að breytast eitthvað til hækkunar. Útgjöldum er skipt í nokkra liði í áætluninni, eins og sést á töflu á blaðsíðu 2, og verður hér fjallað nokkuð um hvern lið fyrir sig.

Stjórn og undirbúningur: Til þessa liðar er áætluð 251 millj. kr. á þessu ári, en það er um 5.4% af heildarútgjöldum. Á síðasta ári áætlunarinnar, 1979, er þessi líður kominn upp í 295 millj. kr. eða 5.8% af heildarútgjöldum þess árs. Áætlað er að til starfa í þessari deild verði samtals fengnir 23 opinberir starfsmenn á áætlunartímabilinu. Við þessa tölu er þó það að athuga að 16 af þessum mönnum eru þegar starfandi hjá Vegagerðinni, þar af 8 undirverkstjórar, en heimilt hefur verið að ráða 2 undirverkstjóra árlega sem verkstjóra. Ekki verður aukið við mannafla Vegagerðarinnar nema brýna nauðsyn beri til og þá samkvæmt eðlilegum reglum þar um. Í dag er ráðið í 130 stöður á kjörum ríkisstarfsmanna hjá Vegagerð ríkisins, en fyrir hendi er heimild fyrir ráðningu í 136 stöður. Þannig er óráðið í 6 stöður og er þar um að ræða skrifstofufólk o.fl. óvíst er að hve miklu leyti verður ráðið í þessar stöður á áætlunartímabilinu og verður reynt að gæta hins mesta hófs í því.

Eins og kunnugt er var tekin upp sú stefna hjá Vegagerð ríkisins fyrir nokkrum árum að setja upp útibú úti á landi, umdæmisskrifstofur sem þjónuðu bókhaldsþörf viðkomandi umdæmis. Sú reynsla, sem þegar hefur fengist af þessari tilhögun, er mjög góð. Vegagerðin hefur nú keyrt bókhald sitt í tölvu um tveggja ára skeið. Er nú hægt mánaðarlega að fá yfirlit yfir stöðu einstakra verkefna og starfsemi Vegagerðarinnar í heild. Bókhaldið er þannig orðið virkt tæki til stjórnunar fyrirtækisins. Þrátt fyrir þetta aukna upplýsingamagn, sem hefur fengist með þessu nýja bókhaldskerfi, hefur reynst mögulegt að fækka um 5 starfsmenn við skrifstofuhald hjá Vegagerðinni.

Um viðhald þjóðvega er þetta að segja: Þessi liður er áætlaður 1411 millj. kr. á yfirstandandi ári, eða 30.6% af heildarútgjöldum. Á síðasta ári áætlunartímabilsins er þessi fjárhæð komin upp í 1735 millj. kr., sem er heldur hærra prósentuhlutfall af heildarútgjöldunum eða 34.2%. Hins vegar má áætla að vísitala viðhalds 1. júlí n.k. hækki frá því í janúar um 54.6%. Ekki er unnt sökum fjárskorts að hækka fjárveitingar til vegaviðhalds í samræmi við ofangreinda breytingu á verðlagi. Er till. um hækkun vegaviðhalds árið 1976 miðuð við 28.7% heildarhækkun og tillaga um fjárveitingu til vegaviðhalds í heild á árunum 1977–1979 við það miðuð að hækka fjárveitingu þessi ár í áföngum til þess að mæta miklum verðhækkunum.

Viðhaldi þjóðvega er skipt í þrennt, þ.e.a.s. sumarviðhald, vetrarviðhald og vegmerkingar. Á yfirstandandi ári er áætlað að 1129 millj. kr. fari til sumarviðhalds eða um 80% af viðhaldinu í heild. Í athugasemdum við vegáætlunina er ítarlega fjallað um sumarviðhald. Þar kemur fram m.a. að til þess að endurnýja malarslitlag á vegi landsins geti talist eðlilegt að malbera árlega um 1366 km. Á síðasta ári var varið 73.5 millj. kr. til viðhalds vega með bundið slitlag. Ekki hefur verið gerð úttekt á endurnýjun slitlags næstu árin, en á þessu ári þarf að endurnýja slitlag fyrir um 70 millj. kr.

Um viðhald brúa og vegheflun er það að segja að fjárveitingar eru þar í algjöru lágmarki og þyrfti t.d. fjárveitingar til viðhalds brúa að hækka verulega til þess að það gæti verið í góðu lagi. Vegheflunina er ekki unnt að minnka neitt að ráði því að verði langt tímabil á milli heflunar myndast djúpar og stórar holur sem auk þess að vera hvimleiðar fyrir umferðina valda því að næsta heflun verður verulega dýrari en að öðrum kosti hefði orðið. Lagt er til að fjárveiting til vegheflunar verði 210 millj. kr. á árinu 1976, 220 millj. á árinu 1977 og 251 millj. á árunum 1978 og 1979, á hvoru árinu fyrir sig.

Til rykbindingar er varið á þessu ári um 40 millj. kr., 50 millj. á næsta ári og 57 millj. á árunum 1978 og 1979. Sé það markmið sett að rykbinda alla vegi með meiri umferð en 600 bíla á dag og einnig að rykbinda alla þá vegkafla, sem liggja nálægt byggðum bæjum, þjónustumiðstöðvum og í nágrenni við þéttbýli þó að þar sé minni umferð, þarf að rykbinda samtals um 432 km. Til þess að hægt væri að ná þessu marki í ár þyrfti að verja til rykbindingar 85.1 millj. kr. eða meira en helmingi hærri upphæð en áætlunin gerir ráð fyrir.

Til vinnslu efnis er lagt til að fjárveiting verði 19& millj. kr. á þessu ári, 216 millj. 1977 og 246 millj. á árunum 1978 og 1979. Með vaxandi umferð og meiri kröfum til veganna er nauðsynlegt að vinna efni í slitlag malarvega. Eftir því sem meira er vandað til malarslitlags, því lengur endist það í veginum og minnkar við það nauðsynleg vegheflun.

Loks er í sumarviðhaldinu gert ráð fyrir 72 millj. kr. á þessu ári vegna vatnaskemmda og ófyrirséðra atvika. Þessi tala er 85 millj. kr. á næsta ári og 94 millj. kr. á árunum 1978 og 1979. Reynslan hefur verið sú að á hverju ári hefur stórfé verið varið til viðgerða vegna vatnaskemmda og annarra ófyrirséðra atvika og er því hér varla ofáætlað.

Þá er komið að vetrarviðhaldi. Í aths. með vegáætluninni er yfirlit yfir vetrarviðhaldið á árunum 1967–1975. Kemur þar fram að að meðaltali hefur kostnaður við vetrarviðhald verið tæpar 225 millj. kr. á ári miðað við verðlag 1975. Miðað við áætlaða vísitölu í júlí n.k. áætlast þessi kostnaður 264 millj. kr. á þessu ári og á næsta ári, en 300 millj. kr. á árinu 1978 og 342 millj. á árinu 1979.

Í till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1974–1977, sem var samþ. á Alþ. vorið 1975, var reiknað með að snjómokstursreglum yrði breytt haustið 1975. Eins og fram kemur í skýrslunni um framkvæmd á vegáætluninni sem ég var að lesa hér áðan var með eindæmum snjóþungt viða á landinu frá áramótum til vors 1975. Á áætluðu verðlagi 1975 var reiknað með að snjómoksturskostnaður yrði 147 millj. kr., en það var meðaltal áranna 1967–1973. Síðan var bætt við þá fjárveitingu sem nam 47 millj. vegna þess að fyrirhugað var að breyta snjómokstursreglum. Heildarfjárveitingin var því 194.7 millj. kr. Kostnaðurinn við snjómoksturinn á árinu 1975 nam hins vegar 321.7 millj. kr. Þar sem kostnaður fyrri hluta ársins var meiri en sem nam fjárveitingunni til vetrarviðhaldsins með breyttum reglum síðari hluta árs þótti ekki tiltækt að breyta reglunum að því sinni.

Samkvæmt till. um breytingu á snjómokstursreglum er reiknað með að kostnaður vegna vetrarviðhaldsins hækki um 83 millj. kr. á ári miðað við áætlað verðlag í júlí n.k. Miðað við verðlag, sem viðhaldskostnaður er reiknaður á árin 1978 og 1979, verður kostnaðaraukinn 92 millj. kr. vegna breytinga á snjómokstursreglum.

Til vegamerkinga eru áætlaðar 18 millj. kr. á ári allt áætlunartímabilið og fjárveiting til þessa liðar nokkuð hækkuð. Er það m.a. gert til þess að hægt sé að halda áfram endurnýjun á vegvísum og leiðarmerkjum helstu vegamóta á landinu, en það er gert samkvæmt áætlunum um endurskipulagningu vegvísakerfisins. Hluta af þessari fjárveitingu verður eins og undanfarin ár varið til að setja upp ný merki samkv. reglugerð um umferðarmerki og til viðhalds á eldri merkjum.

Til nýrra þjóðvega: Heildarfjárveiting í þessum flokki er á yfirstandandi ári 2 milljarðar 124 millj. kr. eða 46% af heildarfjárhæðinni. Þessi fjárhæð verður nokkru lægri á næsta ári eða 2016 millj., 1940 millj. 1978 en 2026 millj. 1979. Til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta er á yfirstandandi ári gerð till. um sömu fjárveitingar og í gildandi vegáætlun. Fyrir árin 1977–1979 er till. miðuð við svipaðar heildarupphæðir til þessara vegaflokka í heild og þeim er skipt í sömu hlutföllum og á árinu 1976. Á yfirstandandi ári eru fjárveitingar til þessara þriggja vegallokka 80% af fjárveitingunni til nýrra þjóðvega í heild.

Fjárveiting til girðinga og uppgræðslu meðfram vegum er óbreytt frá því sem var í síðustu vegáætlun, eða 40 millj. kr. á árunum 1976 og 1977, en hækkar í 50 millj. á árunum 1978 og 1979. Í árslok 1975 námu ógreiddar kröfur vegna girðinga samkvæmt girðingalögum alls 242 millj., svo sem nánar greinir í skýrslum um framkvæmd vegáætlunarinnar, eins og ég skýrði áðan. 2/3 þessarar fjárveitingar hefur á undanförnum árum verið varið til girðinga, en 1/3 til sáningar á grasfræi. Á fjórum árum vegáætlunar mun því um 120 millj. kr. verða varið til girðinga eða sem nemur tæpum 50% af lögmætum kröfum um síðustu áramót.

Til sérstakra áætlana, þ.e. Austurlandsáætlunar, Norðurlandsáætlunar og Djúpvegar, er samtals varið á þessu ári 377 millj. kr., á næsta ári 325 millj. og eins árin 1978 og 1979.

Á árinu 1977 er fjárveiting til Austurlandsáætlunar hækkuð úr 75 í 100 millj. kr. og er sú fjárveiting látin haldast á áætlunartímabilinu. Með þessari hækkun á að vera unnt að ljúka jarðgöngum um Oddsskarð á árinu 1977, en ekki verður hægt að ljúka öllum verkum í Austurlandsáætlun á áætlunartímabilinu.

Fjárveiting til Norðurlandsáætlunar er hækkuð úr 175 millj. kr. á árinu 1977 í 200 millj. og er sú fjárveiting látin haldast út áætlunartímabilið. Þessi hækkun er sérstaklega ætluð til endurbyggingar á Norðurlandsvegi á Holtavörðuheiði ásamt öðrum fjárveitingum á öðrum liðum á vegáætlun til þess verks.

Fjárveitingu til Djúpvegar er haldið óbreyttri áætlunartímabilið, 25 millj. kr. á ári.

Til fjallvega o.fl.: Þessum liðum er skipt í aðalfjallvegi og aðra fjallvegi, reiðvegi og þjóðgarðsvegi o.fl. Fjárveitingin í heild er 32 millj. kr. hvort árið 1976 og 1977 og 35 millj. árin 1978 og 1979. Af þessari fjárhæð er veitt til aðalfjallvega, sem taldir eru 900 km 7 millj. kr. hvort árið 1976 og 1977, en 8 millj. á árunum 1978 og 1979. Lagt er til að fjárveiting til annarra fjallvega verði 14 millj. kr. á árunum 1976 og 1977 og 16 millj. kr. á árunum 1978 og 1979.

Til þjóðgarðsvega og vega aðfjölsóttum ferðamannastöðum er lagt til að fjárveitingin verði 10 millj. kr. árlega á áætlunartímabilinu og til reiðvega 1 millj. kr. á ári.

Til brúargerða er gerð till. um óbreytta fjárveitingu frá gildandi vegáætlun eða 226 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir smávægilegri hækkun á árunum 1978 og 1979. Af þessari fjárhæð fer mikill meiri hluti til brúa sem eru 10 m og lengri.

Um sýsluvegasjóði er þetta að segja: Með breytingu á 19. gr. vegalaga, sem samþ. var á s.l. vori, voru heimreiðar að einstökum bæjum styttar úr 200 m í 50 m. Þegar breyting þessi var gerð var áætlað að heildarlengd sýsluvegakerfisins mundi aukast um 15% vegna breytingarinnar. Fyrir liggur nú að heildarlengingin er 281 km eða 9.6%. Sýsluvegir voru fyrir breytinguna 2927 km, en ern nú taldir á fylgiskjali með þáltill. 3208 km. Til þess að styrkja fjárhagsstöðu sýsluvegasjóðanna var einnig samþ. á s.l. vori sú breyting á vegal. að heimila einstökum hreppsfélögum að innheimta tvöfalt gjald í héraði, þ.e. fyrir sex dagvinnustundir

í stað þriggja, og fá á móti tvöfalt framlag frá Vegasjóði á sama ári. Var þetta fyrst og fremst gert til þess að styrkja stöðu þeirra sýsluvegasjóða þar sem unnið er að tankvæðingu vegna mjólkurflutninga. Sökum þess hvað lagabreyting þessi var samþ. seint á s.l. vori var í rauninni aðeins 1/4 hluti hreppa sem notfærði sér þessa heimild. Þegar liggja fyrir yfirlýsingar frá mun fleiri hreppum um að notfæra sér heimildina nú, og er gert ráð fyrir því að helmingur allra hreppa í landinu muni notfæra sér hana í ár og 2/3 hlutar allra hreppa á árunum 1977–1979. Miðað við þessar forsendur mun ráðstöfunarfé sýsluvegasjóðanna aukast úr 180 millj. kr. á árinu 1976 í tæpar 280 millj. á árinu 1979. Ljóst er þó að efla þarf fjárhagsaðstöðu sýsluvegasjóðanna enn frekar og er það eitt af verkefnum þeirrar n. sem skipuð var á s.l. vori til að endurskoða vegalögin. Mun vera samstaða í meginatriðum um leiðir til úrbóta í þessu efni.

Til vega í kaupstöðum og kauptúnum: Með breytingu á vegal. s.l. vor voru íbúamörk þeirra kaupstaða og kauptúna, sem njóta sérstaks framlags samkv. 30. gr. vegal., færð úr 300 í 200. Við þessa breytingu fjölgaði þeim stöðum, sem framlags njóta samkv. þessari grein, um 7 og eru þeir nú alls 61. Við breytinguna hafa þjóðvegir í þéttbýli lengst um 7.1 km og eru nú taldir 131.3 km. Skipting þessara vega á einstök kjördæmi og ástand þeirra er sýnt á fskj. 2.7.-1 í þáltill. Heildarframlag til þessara vega hækkar úr 292 millj. kr. árið 1976 í 397 millj. kr. árið 1979. Þá er gert ráð fyrir að skiptitala á hvern íbúa verði 1150 millj. kr. á yfirstandandi ári.

Næst er um véla- og verkfærakaup og byggingu áhaldahúsa. Gert er ráð fyrir að fjárveiting til véla- og verkfærakaupa verði óbreytt frá fyrri vegáætlun á árinu 1976 eða 20 millj. kr., síðan sama upphæð á næstu árum eða alls 80 millj. kr. á áætlunartímabilinu. Gert er ráð fyrir því fé ásamt afskriftafé véla verði eins og að undanförnu fyrst og fremst varið til endurnýjunar á þeim vinnuvélum sem Vegagerðin þarfnast en ekki fást leigðar á almennum markaði, svo sem vegheflum, vélum til malarvinnslu, vélum til brúargerða o.s.frv. Hefur það komið fram hér að ef breyting sú á snjómokstursreglum, sem verið hefur til umr. að undanförnu, nær fram að ganga verður ekki unnt með ofangreindri fjáröflun að auka vélakost eins og nauðsynlegt er til að mæta auknum snjómokstri.

Gert er ráð fyrir að fjárveiting til bygginga áhaldahúsa verði á þessu ári óbreytt frá fyrri vegáætlun eða um 30 millj. kr. Af henni er áætlað að nota 4.5 millj. kr. til kaupa á íbúð fyrir umdæmisverkfræðing á Reyðarfirði, en að öðru leyti verði fjárveitingunni varið til að ljúka byggingum á Hvammstanga og til minni framkvæmda við önnur áhaldahús. Auk þess verður henni varið til að undirbúa mörg önnur aðkallandi verkefni sem fyrir dyrum standa. Af þeim má sérstaklega neina áhaldahús á Ísafirði, Sauðárkróki og á Húsavík í stað ófullnægjandi húsa þar. Einnig þarf að undirbúa stækkun vélaverkstæðis á Reyðarfirði. Á árunum 1976–1977 var lagt til í síðustu vegáætlun að fjárveiting á þessum lið yrði hækkuð úr 18 í 30 millj. kr. hvort árið með það fyrir augum að byggja hús fyrir Vegamálaskrifstofuna í Reykjavík því hún er nú til húsa á þremur stöðum við mikil þrengsli, en af því leiðir augljóslega óhagræði og verulegan aukakostnað í daglegum rekstri. En þar sem fjármagn til áhaldahúsabygginganna er ekki meira en það sem þessu nemur þykir ekki ráðlegt að hefja framkvæmdir við þetta hús fyrr en kostnaðaráætlun og fjármagn liggur fyrir til þess að ljúka framkvæmdum. Hluta af þessari fjárveitingu verður varið til þess að undirbúa þessa framkvæmd.

Til tilrauna í vegagerð: Þessi fjárveiting er 1/2% af mörkuðum tekjum Vegasjóðs samkvæmt lögum og nemur 15 millj. kr. á þessu ári, 17 millj. á næsta ári og 18 og 19 á síðari hluta vegáætlunartímabilsins. Áætlað er að haldið verði áfram tilraunum við ýmsa þætti til vegagerðar á þessu vegáætlunartímabili, eins og verið hefur.

Halli á vegáætluninni: Frá því að vegáætlun var samþ. árið 1975 varð óhjákvæmilegur halli á nokkrum líðum. Vegur þar þyngst að fyrri hluta vetrar var snjómoksturinn mjög dýr, eins og áður hefur komið fram. Þá urðu tekjur 139 millj. kr. undir áætlun. Að öðru leyti skiptist hallinn þannig: Á stjórn og undirbúningi 16 millj. kr., á vetrarviðhaldi 133 millj. kr., á viðhaldi brúa 20 millj. kr. og á brúagerðum 22 millj. kr. Samtals er þessi halli á áætlunartímabilinu 191 millj. kr. Þegar hallanum á tekjuáætluninni, 139 millj. kr., er bætt við verður halli samtals 330 millj. kr. Í þeirri till. um vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að greiða 100 millj. kr. af hallanum á þessu ári, en afganginum verði jafnað á árin 1977–1979.

Herra forseti. Ég hef nú reynt í sem stystu máli að fara yfir till. þá til þál. sem hér er nú til umr. og meðferðar á hv. Álþingi. Áður en ég lýk máli mínu vil ég víkja nokkuð að þeim verkefnum, sem ég tel stærst af þeim sem unnið er að, og þeim, sem ég tel brýna nauðsyn til að vinna að, og þeim þáttum í vegamálum, sem ég vil aðeins fara nokkrum orðum um áður en ég lýk máli mínu.

Stærsta verkefni, sem nú er unnið að, er eins og kunnugt er brúargerðin yfir Borgarfjörð, en sú ákvörðun var endanlega tekin með atkvgr. hér á hv. Alþ. fyrir ári. Unnið hefur verið að þessari framkvæmd, og vegna þess að fjármagn skortir til vegamála verður að fara með minni hraða í framkvæmdina heldur en æskilegt er. Það, sem einna hættulegast er í sambandi við þetta mál að mínu mati, er að þær þrjár brýr á aðalveginum fyrir botni Borgarfjarðar, þ.e. brúin yfir Andakílsá, brúin yfir Hvítá og brýrnar yfir Ferjukotssíkin, þær muni bila undan þunga umferðarinnar áður en þessu verki verður lokið. Brúin á Hvítá bilaði í fyrrasumar, og er það nú svo að það er neðri bogi hennar sem heldur uppi því stykki sem endurbætt var í efri boganum til þess að umferðin geti verið með eðlilegum hætti. En ljóst er að brýr eins og þessar allar, sem eru um 50 ára gamlar og þaðan af eldri, þola ekki þá umferð sem nú er orðin. En þetta er aðaltengileiðin milli Norður- og Vesturlands við Suðurlandið og mundi því verða mikið áfall ef um bilun yrði að ræða.

Ég ætla samt ekki við þetta tækifæri að eyða fleiri orðum að þessu, en ég vek athygli á þessu og svo sem ég hef áður gert, að ákvörðun um þessa framkvæmd, sem hér var samþ., byggðist á þeim rannsóknarniðurstöðum sem áður höfðu fengist.

Eins og kom fram í því, sem ég hef sagt hér að framan, á göngunum í gegnum Oddsskarð að vera lokið á árinu 1977. Ég efast ekki um að þeir, sem þar standa að, hefðu óskað þess að það hefði getað orðið á árinu 1976, en samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef þar um, er það ekki talíð framkvæmanlegt, þó að fjármagn væri til þess að ljúka því verki á þessu ári, en hins vegar henti það vel tveggja ára framkvæmd til þess að ganga frá því svo sem æskilegt er. Verður það mikil samgöngubót, að maður vonar, þegar það er komið.

Verulegt átak var gert í veginum á Fjarðarheiði á s.l. ári, en því verki er ekki heldur lokið, eins og fleiri verkum sem við vinnum nú að. En áfram verður haldið með það verk og svo einnig að vinna að því að koma framtíðarvegi þeirra austlendinga fram fyrir Lónsheiði. Vonast ég til að hægt verði á þessu ári að gera þar þá tilraunaaðgerð sem nauðsynleg er talin vegna þess verks.

Eitt af þeim málum, sem ég hef mikla löngun til að geti verið kveikt á í sambandi við þessa vegáætlun, er brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef frá Vegagerð ríkisins, er það svo að margt af því, sem notað er við vegagerðina í Borgarfirði nú og verður meðan það verk stendur yfir, verður svo notað við brúargerð á Ölfusá hjá Óseyrarnesi því að það hentar á báðum þessum stöðum og mundi hún taka við þegar því verki væri lokið.

Sama er að segja um þá rannsókn, sem ég gat hér um áðan, um veg frá Ísafjarðardjúpi yfir í Barðastrandarsýslu, að rannsókn á því máli er ekki heldur lokið, en að því verður unnið og það verður eitt af framtíðarverkefnunum.

En í vegagerð mun ekki skorta verkefni á næstunni, og eitt af því, sem hefur orðið mjög áberandi nú á þessu vori, er að okkar gömlu vegir þola ekki þá umferð, sem er orðin um þá, og sérstaklega ekki þá stóru flutningavagna sem aka um okkar þjóðvegi. Þeir eru ekki byggðir fyrir þá. Hefur því viðhald og erfiðleikar á vegaumferðinni verið mjög miklir í vor. Viðhaldinu, sem við hv. þm. höfum nú kannske ekki verið nógu næmir fyrir, verður að sinna betur en gert er ef vel á að fara.

Þegar þetta allt er haft í huga, þá kemur að stóru spurningunni, og það er hvernig á að fjármagna þetta. Ég mun hafa orðað það einhvern tíma þannig hér á hv. Alþ., að það væri svo með útgjaldaliði að málefnin væru yfirleitt góð og væru öll góð mál þangað til þau væru orðin að einni samanlagðri tölu, þá væri þetta orðið vont mál því þá þyrfti að afla fjár til þess að rétta af slagsíðuna sem þar væri mynduð. Þannig er þetta með vegagerðina, að raunverulega vantar vegagerðina meiri tekjuöflun en hún hefur nú. Það er of mikið af framkvæmdum í vegagerð gert með lánsfé, og það er líka of lítið fjármagn sem fer til vegagerðarinnar í heild. Þetta er ég viss um að við erum sammála um, allir hv. þm. Á s.l. ári, eins og kom fram hjá mér fyrr, var ákveðið bæði í hinni almennu tekjuöflun Vegasjóðs og einnig í sérstökum lögum að selja happdrættisskuldabréf til vegagerðar, og í síðari lögum var ákveðin ráðstöfun á því sem að vísu er mjög viðtæk, því það var austrið, suðrið og vestrið og norðrið sem var að mestu leyti tengt, það var norðausturhluti landsins sem ekki var innan þessara vébanda. Við ákvörðun nú mun þetta að sjálfsögðu verða haft í huga.

Ég vil svo einnig segja það, sem ég man nú ekki hvort ég hef skýrt frá hér á hv. Alþ. áður, að á s.l. sumri skipaði ég n. til þess að endurskoða vegalögin. Í þessa n. var valið með tilliti til þess að allir stjórnmálaflokkar, sem eiga fulltrúa hér á hv. Alþ., ættu menn í n., en auk þess er svo ráðuneytisstjórinn í samgrn., sem er formaður, og vegamálastjóri, sem er varaformaður n. Þessi n. hefur unnið mikið verk, en ekki þó það mikið að hægt væri á þessu þingi að leggja niðurstöður hennar fyrir Alþ. Ég mun hins vegar óska eftir því að hún haldi þessu verki áfram. Og eitt af því, sem ég tel brýna nauðsyn til, er að gera aðalvegina heilsteypta þannig að það sé ekki verið að búta þá niður í hraðbrautir, þjóðbrautir eða landsbrautir. Það veldur vissum erfiðleikum við fjárskiptingu að hafa slíka flokkun á aðalvegum landsins. Þess vegna er það mín till. í sambandi við störf n. að stefna að þessu.

Ég mun nú senn ljúka máli mínu. En um leið og ég geri það vil ég leyfa mér að þakka Vegagerðinni í landinu fyrir gott samstarf og gott verk sem hún hefur unnið á s.l. ári og við undirbúning þessarar vegáætlunar eins og annarra vegáætlana sem lagðar hafa verið fram hér á hv. Alþ. Það er ekki þeirra manna sök þó þetta mál sé seint á ferðinni, Það er heldur sök okkar sem stjórnvöld köllumst og það er af þeirri ástæðu sem ég greindi frá áðan. Hins vegar er það afskaplega mikils virði fyrir okkur að eiga trausta og góða framkvæmdaraðila, eins og vegamálastjóri og hans starfsmenn eru, til þess að sjá um þessi mál í framkvæmdinni og reyna að gera sem mest úr þeim fjármunum sem til skipta eru. Ég vil einnig sérstaklega vekja athygli á því og þakka það jafnframt að þeir hafa með því verkfyrirkomulagi að dreifa starfskröftum sínum út um landið farið inn á þá braut sem við köllum nú byggðaþróun og gerir það að verkum að betra er að vinna að þessum málum vegna þess að starfsmennirnir, sem þessum verkum stjórna, hafa miklu meiri staðbundna þekkingu heldur en almennt gerist um slíkar framkvæmdir í okkar þjóðfélagi. Og ég segi það sem mína skoðun að ég mundi gjarnan vilja vinna að því, ef tök væru á, að taka fleiri málaflokka til slíkrar meðferðar, eins og t.d. hafnamálin í landinu. Ég tel að það væri mikils virði ef hægt væri að dreifa starfskröftunum þannig um landsbyggðina.

Ég vil nú, herra forseti, láta máli mínu lokið og óska eftir því að að lokinni fyrri umr. verði þáltill. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.