11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4038 í B-deild Alþingistíðinda. (3338)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar till. um vegáætlun var lögð fyrir Alþ. fyrir um það bil ári gerði ég nokkuð að umræðuefni þá meginstefnu sem kom fram í þeirri áætlunargerð og þeirri till. sem þá var lögð fyrir Alþ. Ég vakti þá athygli á því að till. einkenndist af því að um gífurlega mikinn niðurskurð væri að ræða á vegagerðarframkvæmdum. Þá var ljóst að niðurskurðurinn mundi nema a.m.k. 25–30% miðað við magnframkvæmdir, vegna þess að ekki þótti þá, þegar sú till. var gerð, fært að hækka fjárveitingar þrátt fyrir hækkaðan framkvæmdakostnað nema að sáralitlu leyti. Ég benti þá á, að sú till. væri algjörlega óraunhæf og fengi í rauninni ekki staðist í framkvæmd og það yrði að takast á við það vandamál að útvega Vegasjóði auknar tekjur með einum eða öðrum hætti, annaðhvort með því að auka beinar tekjur hans eða þá með lánsútvegunum. Ég gerði þá einnig að umtalsefni nokkuð þá stefnu, sem fram kom í þeirri till. varðandi skiptingu þessa takmarkaða vegafjár, og benti þá á að augljóst væri að nú væri sótt í það horfið að skipta vegafénu allmikið öðruvísi en verið hafði um alllangt skeið, þ.e.a.s. það var augljóst að það var verið að auka fjárveitingar til hraðbrautaframkvæmda á kostnað annarrar vegagerðar í landinu. Við þessu varaði ég einnig þá. Mér sýnist sú till. að vegáætlun, sem hér liggur nú fyrir þar sem um er að ræða endurskoðun á áætlunum fyrir árin 1976 og 1977 og nýjar áætlanir síðan fyrir 1978 og 1979, þessi áætlun sé byggð upp á mjög svipaðan hátt og fyrri till. var, sú sem ég fann mest að í umr. í aprílmánuði í fyrra.

Ég vil vekja athygli á því, að gert var ráð fyrir í fyrri áætlun, þeirri áætlun sem raunverulega er í gildi, að 1976 yrði heildarfjárveitingin 4120 millj. kr. Nú er hins vegar þessi fjárhæð hækkuð í 4614 millj. kr. En þá er þó gert ráð fyrir því nú að verja 100 millj. kr. af þessari upphæð í skuldagreiðslu, þannig að það má tala um að heildarfjárveitingin eftir þessari endurskoðunartill., sem hér liggur fyrir fyrir yfirstandandi ár, verði rétt rúmlega 4500 millj. kr. Eins og þegar hefur verið bent á í þessum umr. er alveg ljóst, miðað við hækkandi framkvæmdakostnað, að þá er hér um að ræða minnkun beinna framkvæmda í vegagerðarmálum sem mun nema í kringum 25%, og þetta kemur til viðbótar við hliðstæðan niðurskurð sem varð á s.l. ári.

Þetta er auðvitað mjög alvarleg þróun, og það er ómögulegt annað en að hæstv. samgrh. hljóti að taka það alvarlega til athugunar ásamt með öðrum þm. hvernig eigi að bregðast við vanda af þessu tagi ef ekki er úr meira fjármagni að spila til vegagerðarmála. Ég fullyrði að þessi niðurskurður í fjárveitingum til vegagerðar er miklum mun meiri en til annarra hliðstæðra framkvæmda í landinu um þessar mundir. Ef t.d. er litið til hafnargerða og þar með teknar allar hafnargerðir í landinu, landshafnirnar og stóru hafnarframkvæmdirnar sem unnið hefur verið að, eins og í Þorlákshöfn og Grindavík, þá er hér um miklu meiri samdrátt að ræða í vegagerðarmálum en í hafnargerðarmálum. Sé á hliðstæðan hátt litið til íbúðarhúsabygginga, og hefur mönnum þótt þar vera um nokkurn samdrátt að ræða, þá kemur hið nákvæmlega sama út. Þar er ekki um nándar nærri jafnmikinn samdrátt að ræða í beinum framkvæmdum framkvæmdalega séð eins og á sér stað í vegagerðarmálum. Sé hins vegar litið til ýmissa ríkisstofnana, til þess fjármagns sem þær fá til sinnar ráðstöfunar, hvort sem það er Ríkisútvarpið, Landssíminn, Sementsverksmiðja ríkisins eða aðrar stofnanir, þá er hér um gjörsamlega aðra stefnu að ræða. Niðurskurðurinn í vegagerðarmálum er margfalt og miklu meiri en á öllum öðrum sviðum.

Þessa staðreynd eiga menn að virða fyrir sér og átta sig á því hvort þetta er sú stefna sem menn ætla að halda. Ég álít að hér sé um alranga stefnu að ræða. Þetta stafar að nokkru leyti af því að framkvæmdir í vegamálum hafa verið byggðar upp að undanförnu þannig að Vegasjóður hefur haft afmarkaðar tekjur sem ekki hafa farið hækkandi, jafnvel fremur lækkandi. Ríkissjóður leggur fram sáralítið til hreinna vegagerðarmála. Og þá er aðeins um að ræða lántökur sem á þennan hátt hafa orðið minni til vegagerðarframkvæmda heldur en til ýmissa annarra framkvæmda í landinu.

En það er ekki aðeins að þetta sé einkenni á vegáætluninni, þeirri sem lögð var fram fyrir ári og þá samþ. og er raunverulega gildandi í dag, heldur er þetta enn á ný megineinkennið á þeirri vegagerðaráætlun sem nú liggur fyrir. Ég vil segja það, að mér þykir næsta furðulegt að það skuli vera ráðh. úr hópi Framsfl. sem treystir sér til að leggja fram vegáætlun sem einkennist af þessari stefnu og það á þeim tíma sem ríkisstj. talar hvað mest um byggðastefnu og hvernig þurfi að styðja við bakið á landsbyggðinni, En þetta er sem sagt staðreynd sem menn standa frammi fyrir.

En það er enn annað og verra sem blasir við augum þegar þessi áætlun er skoðuð nánar og þegar litið er hér á heildina, en það er hvernig síðan er staðið að því að skipta þessu takmarkaða framkvæmdafé. Þá blasir við enn þá verri mynd að mínum dómi. Svo er nú komið að um helmingur, rétt í kringum helmingur af öllu framkvæmdafé til nýbyggingar vega gengur til svonefndra hraðbrauta. Þannig er vegáætlunin sem er í gildi nú í ár. Það mun vera á milli 49 og 50% af nýbyggingarfé sem ákveðið er að verja til hraðbrautabygginga, og það er einmitt þessi liður sem hefur vaxið mest þegar litið er á fjárveitingar í krónum talið, en auðvitað verður þá hlutur hinna veganna tilsvarandi miklu verri. Og hér er haldið áfram þessari sömu stefnu. Um helmingur framkvæmdafjárins á að ganga til hraðbrautagerðar.

Þegar hraðbrautirnar eru svo athugaðar út af fyrir sig, þá kemur t.d. í ljós að sá landsfjórðungur, sem ég er fulltrúi fyrir, Austurland, fær ekki eina einustu krónu af hraðbrautafé, — ekki eina einustu krónu. M.ö.o.: helmingnum af öllu nýbyggingarfé, því fé sem á að verja til þess að gera nýja vegi, er ráðstafað með þeim hætti að sá landshlutinn, sem er verst á vegi staddur í vegagerðarmálum alveg tvímælalaust samkv. opinberum tölum þar um, hann fær ekkert af helmingnum af því. Svonefndar hraðbrautir virðast hafa sérstakan forgang. Það er svo auðvitað enn saga út af fyrir sig að athuga nánar hvert þetta hraðbrautafé fer, því að því er ekki heldur skipt á neinn hátt eðlilega á milli hinna kjördæmanna, þar er um mikla misskiptingu að ræða.

Það átti að heita svo á s.l. ári, á árinu 1976, að það væri þó varið 3 millj. kr. í Austurlandskjördæmi til þess að greiða þar gamla skuld, en síðan auðvitað ekkert, vegna þess að það eru nær engir vegir í því umdæmi sem eru flokkaðir undir þetta heiti, ná undir það að vera hraðbraut. En er það nú ekki einnig nokkuð kaldhæðið að það skuli vera ráðh. úr hópi Framsfl. sem gerir till. um að hækka fjárveitingar til hraðbrautaframkvæmda meira en áður hefur verið gert á kostnað fjárveitinga til þjóðbrauta og landsbrauta með þessari útkomu til dæmis fyrir Austurland? Ég vil biðja hæstv. samgrh, að taka þetta alvarlega til athugunar, og ég vil segja honum það, að menn á Austurlandi — og þeir munu reyndar gera það miklu viðar þeir taka þetta mjög alvarlega, og það mætti segja mér að þeir þyrftu að fara að gæta vel að sér, frambjóðendur Framsfl. á Austurlandi, ef þeir koma á nýjan leik með till. af þessu tagi. Það er auðvitað alveg furðulegt að ætla sér að standa að slíkum till. því í þessu felst svo mikil ósanngirni.

Það er augljóst mál að það, sem gerst hefur í þessum málum, er að þegar sú sérstaka fjáröflun sem í gangi hafði verið um skeið til þess að koma áleiðis framkvæmdunum á Skeiðarársandi, þegar hún féll niður, og var varið aðeins að litlu leyti á árinu 1975 til þeirra framkvæmda og síðan auðvitað að engu leyti nú á árinu 197&, þá var farin sú leið að taka það fjármagn, sem þá var hægt að taka, og setja það nær allt í svonefndar hraðbrautir. Þetta er auðvitað stefna sem er ekki hægt að standa að.

Þá vil ég einnig minna á það, að sett voru lög um það eftir allmiklar umr. hér á Alþ. að þeirri fjáröflun, sem í gangi hafði verið til vegagerðarmála fyrir framkvæmdirnar á Skeiðarársandi í formi happdrættislána, skyldi haldið áfram, en því fjármagni, sem fengist áfram samkv. þessari leið, skyldi varið til alveg ákveðinna framkvæmda. Ákveðið var með þessum lögum að þessum 600 millj., sem áætlað var að afla með þessum hætti, skyldi varið til svonefnds Norðurvegar héðan frá Reykjavík til Akureyrar og til Austurvegar frá Reykjavík um Suðurland til Austurlands. Og það kom alveg skýrt fram að menn voru sáttir um það að 2/3 af þessu áætlaða fjármagni skyldu á hverju ári renna í Norðurveg og 1/3 átti að renna til Austurvegar. Í vegagerðaráætluninni, sem lögð var fram fyrir ári og ég minntist á áðan, kom þessi fjárhæð skýrt og greinilega fram. Þar var liður sem hét Norður- og Austurvegur, 500 millj. kr. á árinu 1975, 500 milli. kr. á árinu 1976 og 500 millj. kr. á árinu 1977. Þetta kom skýrt fram í upphaflegu áætluninni sem lögð var fram fyrir ári. En þegar gengið var endanlega frá vegáætluninni fyrir árin 1975, 1976 og 1977 var hins vegar ekki búið að ganga formlega frá þessari samþykkt hér á Alþ. eða þessum lögum, og því miður var sá háttur tekinn upp að taka þetta fé, sem fékkst með þessari fjáröflunarleið, og bæta því, eins og ég sagði, að mestu við hraðbrautarframkvæmdirnar á árinu 1976. Og nú gerist það, þegar þessi áætlun er lögð fram fyrir árin 1976–1979, að þá týnist þessi löggjöf með öllu, þá finnur maður hvergi þessa áætluðu upphæð samkv. lögunum um 504 millj. til Norðurvegar og Austurvegar. Hún kemur hvergi fram. Hún týnist, og er þó bein lagaskylda að ráðstafa þessari fjárhæð á hverju ári til þessara vegaframkvæmda. Það er ekki hægt að sjá annað en að hæstv, ráðh, hafi annaðhvort gleymt því að taka inn þessa fjárhæð, og vonandi er þessi fjáröflun þarna eftir fyrir utan þær fjárhæðir sem eru tilgreindar í áætluninni, og fer þá heldur að vænkast hagurinn, eða þá að hann hafi tekið þessa fjáröflun og bætt henni ofan á hraðbrautaáætlanir sínar, eins og því miður varð ofan á árið 1976. En auðvitað verður ekki unað við að það verði ekki staðið við lög sem hér hafa verið samþ., og það verður að gera þessa breyt. á þessari áætlun sem hér liggur fyrir. Ég lít þannig á að t.d. varðandi svonefndan Austurveg héðan frá Reykjavík um Suðurlandsundirlendi og til Austurlandsins eigi um 170 millj. kr., þriðji partur af 500 millj., að koma fram á þessari áætlun og þar verði aðeins um það að ræða, væntanlega þá aðallega á milli okkar fulltrúa Suðurlandskjördæmis og Austurlandskjördæmis, að skipta þessari fjárhæð, 170 millj. kr., þar sem vegurinn liggur í gegnum þessi tvö kjördæmi. Þætti mér þá eðlilegt að í hlut okkar í Austurlandskjördæmi af þessu fé kæmi a.m.k. helmingur þessarar fjárhæðar á þessu ári, á árinu 1977, þar sem augljóst er að við höfum ekki fengið neitt af henni á árinu 1976. Hins vegar hefur upphæðin á því ári runnið til Suðurlandskjördæmis, þó nokkuð í formi hraðbrautaframkvæmda í því umdæmi.

Það kann vel að vera að það verði erfitt á þeim fáu dögum, sem eftir eru af þinghaldi að þessu sinni, að leysa þessi vandleystu fjármál vegagerðarinnar í landinu vegna þess hvað þessi mál liggja hér seint fyrir. En þá sé ég heldur ekki annan kost en þann að reynt verði að ná samkomulagi um viðunandi lausn á vegáætlun fyrir yfirstandandi ár, 1976, og þá í mesta lagi fyrir árið 1977, og svo verður að taka þetta mál fyrir á nýjan leik og gefa sér þá betri tíma, því það sjá allir að ekki verður við það unað að vegaframkvæmdir úti á landsbyggðinni, þar sem um er að ræða þjóðvegi og landsbrautir, þær framkvæmdir verði skornar jafnrosalega mikið niður eins og þessi till. boðar til viðbótar við þann niðurskurð sem varð með samþykkt síðustu vegáætlunar.

Ég efast ekkert um það af gömlum kynnum við hæstv. samgrh, að hann mundi auðvitað manna helst vilja fá einhverjar umbætur í þessum málum, þannig að um meira fjármagn væri að ræða. En hann á þá að leita eftir stuðningi Alþ. í þeim efnum. Hafi hann veríð kveðinn alveg í kútinn í ríkisstj. og neyddur til þess að leggja fram áætlun af þessari gerð, þá verður hann að leita til Alþ. Ég er alveg sannfærður um að alþm. geti ekki unað við áætlun í vegagerðarmálum sem einkennist af þeim tölum sem hér liggja fyrir. Þarna er um svo miklu meiri samdrátt í vegagerðarmálum landsbyggðarinnar að ræða en í nokkrum öðrum hliðstæðum framkvæmdum að það er engu saman að líkja.

Sú lítilvæga hækkun, sem hæstv. ráðh. hefur fengið fram á fjárframlögum til vegagerðarmála á þessu ári, fer öll í hækkun á stjórnunarkostnaði frá fyrri áætlun um um það bil 63 millj. kr. og til vegaviðhalds rúmlega 300 millj. kr., en að öðru leyti standa yfirleitt sömu tölur og áður, sem auðvitað þýðir að hér er um stórkostlegan niðurskurð að ræða í framkvæmdum. Ég vildi við þessa umr. vekja sérstaka athygli á þessu og vil nú vænta þess að hæstv. samgrh. og reyndar fjvn., sem fær málið til athugunar, taki málið fyrir á þessum grundvelli sem ég hef rætt, að leita að því hvernig hægt er að afla meira fjár til vegagerðarmála en hér er ráðgert, og að unnið verði síðan að því að skipta því fjármagni á réttlátari hátt en hér er lagt til. Ég tel að sú verulega aukna áhersla, sem lögð hefur verið á beinar hraðbrautaframkvæmdir frá því sem áður var, fái ekki staðist, það sé ekki réttlátt að ganga þannig á það fjármagn sem annars hefði átt að renna til almennra þjóðbrautaframkvæmda og landsbrauta með eðlilegum hætti.

Þá vil ég einnig minnast á það, að samkv. þessari áætlun er gert ráð fyrir því að fjármagn til Austurlandsáætlunar, sem hefur verið í gangi í allmörg ár, eigi að fara minnkandi. Þessi áætlun var á sínum tíma gerð með alveg ákveðnum samningi á milli þm. Austurl. og viðkomandi ríkisstj. á árinu 1970 og hún átti að ná yfir árin 1971–1975. Áætluninni átti að vera lokið á árinu 1975. Og hér var samið um ákveðnar framkvæmdir, þær kortlagðar og gerð áætlun yfir þær, og reynt var lengst af að standa við þessa áætlun og hækka árleg framlög miðað við það sem framkvæmdakostnaður hækkaði. En svo nú hin síðari ár hefur þetta snúist við. Þá er ekki lengur farið að standa við áætlunina og nú stendur þarna mikið út af. Það er gert ráð fyrir því í þeirri vegáætlun fyrir árið 1976 sem í gildi er. En hér er að vísu komin fram ný till. til endurskoðunar, að til Austurlandsáætlunar verði varið 177 millj. kr., en á næsta ári þar á eftir, á árinu 1977, verði aðeins um 100 millj. kr. fjárveitingu að ræða og síðan áfram á árinu 1978 100 milli. og enn á árinu 1979 100 millj. kr., svo eitthvað á bað að dragast heldur betur, að standa við framkvæmd á þessari áætlun. Ég álít auðvitað að það nái engri átt að ætla að gera ráð fyrir lækkandi framlögum til þess að ljúka þessari áætlunargerð.

Eins og ég hef bent á áður, þá er þarna um að ræða slíka aðstöðu viða á Austurlandi að það verða ábyggilega vandfundnir staðir á landinu sem búa við slík skilyrði eins og ýmsir staðir þar búa við. Ég veit ekki um neinn stað, sem hefur 1800 íbúa eins og minn heimastaður, Neskaupstaður, sem þarf að búa við það að vera utan vegasambands í 4 mánuði á ári og þar yfir, því venjulega verður, eftir að búið er að opna eða ryðja snjó, að bola þá að vegi sé lokað fyrir mestallri umferð í alllangan tíma á eftir vegna þess að vegurinn þoli ekki umferðina. Það er ekkert gaman að standa að almennum rekstri á stöðum þar sem þannig háttar samgöngum. Svipað er að segja um annan stað á Austurlandi, þar sem er Seyðisfjörður. Þar er verið að reyna að brjótast í gegn og ljúka við áætluð mannvirki, en það hefur ekki fengist nægilegt fjármagn og því hefur verkið dregist von úr viti. Og ég get ekki séð að það nái nokkurri átt, eins og komið er þessari áætlun, að gera ráð fyrir minnkandi fjármagni í þessu skyni. Ég held því að þarna þurfi fremur að auka fjárveitinguna en minnka, eins og þessi áætlun gerir ráð fyrir. Hitt viðurkenni ég, að það er hægara sagt en gert að gera ráð fyrir auknu fjármagni þegar úr litlu er að spila, sérstaklega ef sú stefna verður ofan á að það eigi að ráðstafa um það bil helmingi alls nýbyggingarfjár á hverju ári til svonefndra hraðbrauta. En þá er líka enn þá meiri ástæða til þess að t.d. Austurland fái ríflega fjárveitingu í gegnum Austurlandsáætlun til vegagerðarmála þegar það fær ekkert af svonefndu hraðbrautafé.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar að sinni, en vildi við þetta tækifæri aðeins vekja athygli á þessum alvarlegu hliðum málsins sem snerta hér heildarmyndina. En ég get ekki skilið að það verði hægt að búa við það að þannig verði staðið að vegagerðarmálum í ár og á næstu árum eins og þessi áætlun gerir ráð fyrir. Ég álít því að verkefnið sé að reyna að ráða fram úr því að hér geti orðið um meira fjármagn að ræða en áætlunin gerir ráð fyrir og einnig þurfi að skipta því á réttlátari hátt, eins og ég hef minnst á.