11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4043 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Till. til þál. um vegáætlun hefur loksins séð dagsins ljós og er óneitanlega furðulega seint á ferðinni. Þegar ein vika er eftir fram að áætluðum þinglausnum, þá birtist loksins þessi till. til þál. um vegáætlun sem bersýnilega er einhver ljótasti skapnaður í tillöguformi hvað snertir vegamál er lengi hefur sést hér í þinginu.

Ég tek hér til máls til þess að það komi alveg ljóst fram þegar við fyrri umr. þessa máls að ég er í grundvallaratriðum ósamþykkur þeirri stefnu sem lýsir sér í þessari till., og ég er auk þess sannfærður um að með flutningi þessarar till. stefnir hæstv. ráðh. afgreiðslu þessara mála í hinn mesta rembihnút. Ég þykist finna það á mér.

Hv. seinasti ræðumaður, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, gerði hér allmikið að umtalsefni hinn rosalega niðurskurð, einkum á sviði þjóðbrauta og landsbrauta, og ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þá hlið málsins. Ég vil hins vegar ræða þeim mun meira um þá skiptingu í meginútgjaldaliði sem þessi till. ber með sér.

Ég lít svo á að í vegamálum hér á landi sé um tvö meginverkefni að ræða sem séu nokkuð ólík að eðli. Annars vegar ern hraðbrautaframkvæmdirnar, þar sem er það mikla verkefni sem bíður okkar á næstu áratugum, að leggja varanlegt slitlag, olíumöl, malbik eða steypu, á ýmsar fjölförnustu leiðirnar. Hitt verkefnið er svo að byggja upp trausta malarvegi hvarvetna á fjölförnum leiðum, þannig að um sé að ræða nothæfa vetrarvegi sem standa upp úr í snjónum og breytast ekki í fúamýri að vorinu. Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum þarf að ríkja einhver ágreiningur um það að síðara verkefnið verður að hafa forgang og fyrra verkefnið á því aðeins rétt á sér að sæmilega miði varðandi þetta aðalverkefni, að byggja upp trausta malarvegi á öllum fjölförnustu leiðum. En það er skemmst frá að segja að í þessum tillöguóskapnaði, sem hæstv. ráðh. hefur lagt hér fram, er allt önnur stefna mörkuð, þveröfug stefna, og það blasir sem sagt við að lagning hraðbrauta gleypir svo óhæfilegan hluta framkvæmdafjárins að öll önnur vegagerð er stórkostlega skorin niður.

Ég skal nefna hér tölur. Á árinu 1976 er áætlað af 2124 millj., sem fari til framkvæmda í vegamálum, verði 1081 millj. varið til hraðbrauta eða rétt 50% og á árinu 1977 1046 millj. af 2016 eða 52%. Ég vil vekja á því sérstaka athygli að undir forustu núv. samgrh. hefur þessi nýja stefna verið tekin upp. Þessi stefna var ekki ríkjandi áður. Hún var t.d. ekki ríkjandi í tíð seinustu vinstri stjórnar. Hlutdeild hraðbrautaframkvæmda í samanlögðum framkvæmdum, heildarframkvæmdum í vegamálum, var á árinu 1972 246 millj. af 1119 eða 22%. Á árinu 1973 er sama hlutfall 23%, og á árinu 1974 var áætlað að verja 300 millj. af 1286 í hraðbrautaframkvæmdir, þannig að enn var gert ráð fyrir hlutfallstölu um 23%. Því verður nú hins vegar að bæta við, að á árinu 1974 urðu stjórnarskipti og á því ári urðu allmiklar verðlagshækkanir sem gerðu samgrh. kleift að gjörbreyta um stefnu í vegamálum þótt búið væri að samþ. samgönguáætlun fyrir það ár, og því fór það svo að í reynd var varið 516 millj. af 1706 til hraðbrautaframkvæmda á árinu 1974 eða 30% vegafjárins, sem sagt hlutfallstalan hækkaði um 7% frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegri vegáætlun sem ekki fékkst endurskoðuð á þinginu veturinn 1974. Ég get ekki fullyrt hverjir bera ábyrgð á þessari breytingu sem átti sér stað sumarið 1974, en það er þá sem þessi stóra breyting hefst, sumarið 1974, þegar hlutfallstalan hækkar úr 23 og upp í 30%. En svo er það á fyrsta heila ári núv. samgrh. í ráðherrastól sem fyrst verður gjörbreyting á þessum hlutföllum, því þá hækkar hlutfall hraðbrautaframkvæmda í heildarframkvæmdum upp í 48% úr 30% á aðeins einu ári, raunverulega úr 23% upp í 48%. Og eins og ég hef áður rakið, þá er nú ætlunin að fikra sig með þessa tölu upp í 50% á þessu ári og síðan upp í 52% á næsta ári.

Ég vil minna á að það er ekkert nýtt að hér á Alþ. sé kvartað yfir því að hraðbrautaframkvæmdir gleypi allt of stóran hluta af framkvæmdafénu. Ég þykist vita að á árunum 1969 og 1970, en þá átti ég ekki sæti á Alþ., hafi mikið verið yfir þessu kvartað. Ég hef ekki, því miður, þær tölur við höndina, get ekki borið þær saman við ástandið eins og það var síðan á tímum vinstri stjórnarinnar, en hitt er sjálfsagt flestum í minni, að á þinginu í fyrravor var mjög yfir þessari breyt. kvartað og hart deilt á hæstv. samgrh. yfir þessa afgerandi stefnubreytingu. Við fluttum þá, nokkrir þm., till. þess efnis að fluttar yrðu 525 millj. úr hraðbrautaframkvæmdum og yfir í framkvæmdir í þjóðbrautum og landsbrautum, og við bentum reyndar á með hvaða hætti þessi tilflutningur ætti að gerast. Við lögðum til að framkvæmdum við Borgarfjarðarbrú yrði frestað og þeim fjárveitingum, sem ætlaðar væru til hennar á þessum tveimur árum, 525 millj., yrði varið til framkvæmda við erfiðustu fjallvegi landsins og þá einkum Holtavörðuheiði, því að eins og flestir muna, þá leyfði hæstv. samgrh. sér á s.l. ári að standa að samþykkt vegáætlunar án þess að gert væri ráð fyrir að varið yrði einni einustu krónu til framkvæmda á Holtavörðuheiði, þessum erfiðasta þröskuldi á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hann fékk þessu sem sagt ráðið, að þessi till. var felld og ekki ein einasta króna var til Holtavörðuheiðarinnar, og líku gegndi um marga erfiðustu fjallvegi landsins.

Ég ætla ekki hér að fara að gera Borgarfjarðarbrúna að miklu umtalsefni því að við eigum eftir að ræða um einstakar framkvæmdir við 2. umr. þegar till. um þær koma fram. En ég er ansi hræddur um, úr því að verið er að rifja upp umr. um þetta mál frá því í fyrra, að veturinn í vetur hafi sannað nokkuð áþreifanlega hvort er meiri þröskuldur á leiðinni norður í land, Holtavörðuheiðin eða vegurinn um Borgarfjörð yfir Hvítá. Þar er vist æðimikill munur á ef menn á annað borð hafa augu og eyru og vilja vita hvernig ástandið er.

Ég vil sem sagt ekki fara að láta þessar umr. við fyrri umr. snúast allt of mikið um einstakar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða stórframkvæmdir í kjördæmi samgrh. eða aðrar framkvæmdir. En úr því að ég er búinn að nefna þessar framkvæmdir, þá get ég látið þess getið að ég er alveg jafnósáttur við það t.d. hvað snertir framkvæmdir í mínu kjördæmi, Norðurlandi vestra, að þar skyldi vera varið á s.l. ári 56 millj. kr. í vegarkafla, sem að allra dómi er einhver ágætasti vegarkaflinn á leiðinni norður í land, á sama tíma og margir verstu vegarkaflarnir voru algjörlega skildir eftir. En þetta átti sér stað vegna þess að hraðbrautastefnan varð ofan á og ákveðið var að verja mjög hárri upphæð í lítinn vegarspotta í kringum Blönduós sem að allra dómi í þessu kjördæmi, að því er ég held, er ekki brýnasta verkefnið þar um slóðir. Þannig er þetta hins vegar vafalaust viðar en í þessum tveimur kjördæmum.

Varðandi þessar tölur að öðru leyti og þar sem ég tala hér ekki hvað síst sem þm. norðlendinga, þá get ég ekki látið hjá líða að nefna það, að ég tel að norðlendingar beri alveg sérlega skarðan hlut frá borði í sambandi við þessa áætlun hæstv. ráðh. Ég minni á það að í vegáætlun 1974 var gert ráð fyrir því að Norðurlandsáætlun svonefnd fengi 175 millj. kr., og nú, þegar lögð er fram áætlun um vegaframkvæmdir 1976 og vitað er að á þessu tímabili hefur kostnaður við vegagerð meira en tvöfaldast, þá er enn gert ráð fyrir því að varið sé til Norðurlandsáætlunar 175 millj. kr. Sem sagt, hún hefur ekki hækkað um eina einustu kr. þrátt fyrir þær gífurlegu hækkanir sem orðið hafa á framkvæmdakostnaði. Já, það er greinilegt að peningarnir eiga að fara eitthvað annað í þetta sinn.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson ræddi áðan um hneykslið sem snertir happdrættisféð sem verja átti til Norðurvegar og Austurvegar, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem hann sagði þar um. Það er bersýnilegt að meiningin er hjá hæstv. ráðh. að taka það fé og demba því í hina almennu fjárþörf Vegasjóðs, stinga raunverulega algjörlega undir stól þeim lögum sem samþ. voru hér í fyrra. En það á kannske eftir að koma betur í ljós í umr. í fjvn. og við 2. umr. málsins hvað raunverulega á að verða af þessu fé.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri nú við fyrri umr. málsins. Ég bæti því bara við, að ég er sannfærður um að mikill meiri hl. alþm. er raunverulega ósamþykkur þeirri stefnu sem hæstv. ráðh. markar með flutningi þessarar till. Þetta er bersýnilega vond byggðastefna sem hæstv. ráðh. gerist hér talsmaður fyrir. Og ég tek undir það, sem áreiðanlega fleirum en hv. þm. Lúðvík Jósepssyni kemur í hug við lestur þessarar þáltill., að það er óskiljanlegt, að þegar ráðh. Framsfl. sem telur sig vera sérstakan talsmann hinna dreifðu byggða, þegar hann kemst loksins í ráðherrastól samgöngumála, þá er það hann sem hefur frumkvæðið að því að snúa stefnunni í vegamálum landsbyggðinni í óhag meira en nokkur fyrirrennari hans hefur gert, og er þá mikið sagt.

Ég vil leyfa mér að skora á hv. alþm. að taka hreinlega stjórnina af hæstv. samgrh. Héðan af veitir ekki af neinu öðru en því. Ég tel að það verði hreinlega að kollvarpa þessari vegáætlun sem hann hefur lagt fram. Það þarf í fyrsta lagi að skera verulega niður þær fjárhæðir sem hann ætlar til hraðbrautaframkvæmda, en auka í þess stað fjárveitingar til þjóðbrauta og landsbrauta, því að það er ljóst að ráðh. ætlar sér bersýnilega að vanrækja þá liði alveg sérstaklega. Fleiri breytingar kemur til greina að gera. Ég tel að þau skiptihugtök, sem notuð eru í vegáætlun, séu löngu orðin úrelt og mjög óheppileg og sé mikil þörf á að breyta þeim, að skipta vegum upp í hraðbrautir annars vegar og svo þjóðbrautir og landsbrautir hins vegar. Ég tel að það sé að mörgu leyti hæpið að skipta þessu svona strangt eftir kjördæmum eins og gert er. Það er alveg bersýnilegt að fjallvegirnir, erfiðustu þröskuldar á leiðum milli landshluta, eru þeir vegaspottar sem hafa verið útundan, og ástæðan er vafalaust sú, að þeir liggja gjarnan, þessir fjallvegir, á mörkum kjördæma. T.d. liggur Holtavörðuheiðin á mörkum þriggja kjördæma, og kannske á það sinn þátt j því hversu illa gengur að ná samkomulagi um fjármagnsútvegun til þessarar bráðnauðsynlegu framkvæmdar. Ég hefði því talið koma vel til greina að fjallvegir í hópi þjóðbrauta yrðu hafðir sem sérstakur liður í vegáætlun, og þá gæfist kannske betra tækifæri til að einbeita sér að því að fjármagna þá nægilega vel.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar um þetta mál nú við fyrri umr. málsins.