11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi við þá skoðun síðasta ræðumanns að þessar 500 millj. eða svipuð tala hlýtur að standa sér, annað er ekki hægt. Og það er ekki hægt að taka þessa áætlun til meðferðar í fjvn. fyrr en við vitum um það að það fái að halda. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun. Ég studdi frv. á sínum tíma og sú skipting, sem frv. gerir ráð fyrir, — en ég held að hv. ræðumaður hafi ekki drepið beint á það, hann hefur auðvitað gengið út frá því að allir kynnu það utan bókar, það er svo einfalt, 2/3 gagnvart Norðurlandi og 1/3 í Austurveginn, sem yrði þá samkomulag um hvernig dreifðist þar, — sú tala, sem þetta frv. tryggir í sérstakri áætlun, hlýtur að vera sér. Og við verðum að fá það staðfest, sjónarmið ráðh. að það haldi. Við getum ekki haldið áfram að vinna í fjvn. í þessu máli ella. Ég styð það eindregið og tek undir ósk hans og kröfur um að það liggi á hreinu þegar í fyrramálið.

Það hefur verið vikið hér nokkuð aftur í tímann og þá hafa rifjast upp atburðir sem áttu sér stað 1974. Það vill nú svo til að ég hef nú það blað hér við höndina er ég hlustaði á ræðu hv. 1. þm. Suðurl. og skrifaði allmikið úr ræðu hans. Væri nú fróðlegt að rifja það dálítið upp. A einum stað segir hann: „Vegamálin komin í þrot — orðrétt tilvitnun — og frestun gífurleg, jafnvel allt að 43% bæði árin og stefnir í hrein vandræði. Þó hefur ríkissjóður haft auknar tekjur í bensínsölu um 400 millj. kr., segir ræðumaður, og hlýtur að geta verið aflögufær. Og hækkunin á tveim s.l. árum á öllu þessu mikla fjármagni, sem hann sér þá að Vegasjóður hljóti að hafa, nálgast 100%, segir hann, og framkvæmdagetan ætti að vera gífurleg. Svo komst hann í meiri hl. og við skyldum nú ætla að þessum orðum fylgdi gífurlegur kraftur og framkvæmdageta. En því miður hefur verðbólgudraugurinn verið slíkur á veginum að hamlað hefur eðlilegri för, og framkvæmdagetan hefur ekki orðið eins og hugur hefur staðið til hjá þessum aldna og virðulega þm.

Þessi áætlun, sem hér liggur fyrir nú, er enn ein staðfesting á því hversu óhemjulega verðbólgudraugurinn hefur leikið illa fjármagn til framkvæmda. Það væri auðvitað ánægjulegt og um það geta allir verið sammála — að hafa meira fé til ráðstöfunar. En þá verða menn að þora að horfast í augu við þann vanda að fást við það að tryggja aukið fjármagn. Hins vegar er á það að líta að margt stjórnleysi hér á landi hefur stuðlað að þessari þróun og ekki síst nú seinast t.d. vörugjaldið sem kemur afar illa fram í framkvæmdum við vegagerð og öllum vélum. Ég hef hér gamalt yfirlit — það er nú orðið allgamalt — frá Vegagerð ríkisins um vélakost Vegagerðar ríkisins, og sýnir það að hún er heldur fátæklega búin að vélakosti og hefði betur mátt gera um mörg ár hjá mörgum ríkisstjórnum. en samkv. áætluninni 1973 greiðir hún fyrir leiguvélar 536 millj. kr., en notar eigin tæki fyrir 207 millj. kr. Og í þessari áætlun núna er reiknað með 20 millj. kr. fjármagni til að kaupa vinnuvélar. Það er andvirði lítillar jarðýtu. Meira að segja kunningi minn, bóndi sem býr í kjördæmi hv. 1. þm. Suðurl., var að kaupa jarðýtu ekki fyrir alllöngu og ætlar að vinna fyrir Vegagerðina. Sú jarðýta kostaði tæpar 40 millj. kr. Þetta er ungur, duglegur piltur og er búinn að vinna fyrir Vegagerðina með jarðýtu undanfarin ár og hefur gert það bara gott, eins og sagt er, — röskur, duglegur maður og vinnur vel og mikið. Þess vegna finnst mér 20 millj. kr. í þágu Vegagerðarinnar mjög lítið fjármagn og enn minna ef við ætlum að hafa óbreytta upphæð næstu 4 árin, 20 millj. á ári. Og svo segjum við þessum mönnum að spjara sig, og margt gott hafa þeir gert, en það er ekkert hægt að gera tækjalaus í þessu efni, hvort sem um er að ræða vegagerðarmenn undir stjórn hins ágæta vegamálastjóra eða einstaklinga sem ekki hafa góð tæki. Við verðum því að tryggja það, að Vegagerð ríkisins hafi sómasamlegan tækjakost, og tryggja meira fjármagn til endurnýjunar, annað gengur ekki. Það er einn þátturinn í því að tryggja meiri framkvæmdir þegar fjármagn er lítið til ráðstöfunar, að verk gangi vel, og ekki svo lítill þáttur í nútímatækni. Þegar við krefjumst þess að vegagerð sé góð og lagt næstum yfir eða gegnum hvað sem vera skal, þá hljótum við að vera okkur þess meðvitandi að góð tæki eru forsenda slíkrar vegagerðar. En vonbrigðin eru mikil með þessa áætlun eins og raunar hina síðustu sem við höfum. Það er sagt að ríkissjóður sé févana. Það er sagt að það vanti tekjur. Hins vegar er öllum það ljóst, er fá sér bíl, að bíllinn er orðinn rándýr og að mínu mati allt of dýr. Það hefur aldrei farið fram bein könnun á því meðal þm. hvort þeir vilji lækka bílinn og hækka bensínið. Ég er þó í þeim hópi sem vill hafa bílinn ódýrari, en bensínið hærra, og þá eru menn frjálsir að eyðslu.

Það hefur verið mikið rætt um það hér að illa horfði með hlutfallið á milli hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta og við, sem værum þéttbýlismenn, þyrftum verulegan hluta af lausu fjármagni. Nú geta allir reiknað það út og sett í hlutfall sjálfir ef þeir vilja. Ég hef gert það mér til dundurs. Þegar ég fór að bera þetta nákvæmlega saman var það ekki svo afleit þróun. Hún er ekkert geigvænleg. Hún er eilítið upp á við 1975, 1976 og 1977, en svo aftur niður á við. Það er ósköp eðlilegt ef við berum þetta saman. Það eru sérstök verkefni, sem miklu fjármagni hefur verið ráðstafað í, til þess að takast á við lágmarksvanda sem varð að leysa hér, stórátak í vegagerð, hraðbrautagerð við þéttbýlið. Nú er komið svo að eftir talningu eru hraðbrautir víða á landinu og blessunarlega er komið gott slitlag á veg langt austur frá Selfossi, það er byrjað að undirbúa það við Akureyri og við Blönduós og það verður gert lítils háttar á Austfjörðum. En hraðbrautir, ég hef lagt hér saman þessa flokka og gert samanburð á milli tveggja ára, en á Austfjörðum eru aðeins hraðbrautir 7.8 km. 1974 og hefur sú tala ekki breyst neitt að ráði í skýrslu vegamálastjórnar fyrir 1976, Vestfirðir með 8.2 hvort árið. 1974, 1976. Hins vegar er breyting á Suðurlandi, breyting nokkur Á Reykjanesi og lítils háttar hreyfing á hinum stöðunum. En umferðaþunginn er svo gífurlegur á vissum köflum, þar sem bílamergðin skiptir mörgum þúsundum á dag, jafnvel á annan tug þúsunda, að það er vonlaust annað en að mæta þeim þunga með hraðbrautagerð af fullkomnasta tagi. Annars fer allt í öngþveiti. Um þetta þurfa menn ekki að þrátta. Menn verða þá að flytja fólkið á milli með öðrum hætti. Og eins og hæstv. samgrh. drap á hér, þegar um 17 þús. bílar fara á sólarhring um þessa litlu brú sunnan Kópavogs, þá sjá allir menn hvers lags óhemjuþungi á sér stað á þeim vegarkafla. Það er ekkert val um að bíða lengur. Það þarf ekki nema að springi á bil eða lítils háttar óhapp eigi sér stað, þá er komin samfelld keðja af bílum hér frá Reykjavík og alveg suður í Hafnarfjörð á hálftíma eða jafnvel styttri tíma. Sjá allir að þetta er ekki hægt, að hafa þennan flöskuháls, ef svo má segja, áfram. Það verður að leysa þann vanda, en það kostar mikið, því við getum ekki lagt í svona vegaframkvæmd sem á að duga nokkur ár, hún verður að duga jafnvel í áratugi. Hún er þess eðlis. En þegar þessum lágmarksátökum er náð hér í þéttbýlinu, þá er eðlilegt, og það kemur fram í vegáætluninni, að þetta hlutfall breytist aftur dreifbýlinu í hag, og ég er því alveg samþykkur. Þá mun áreiðanlega vegarkafli í gegnum Austfirði, einhverja staði þar, og á Norðurlandi og jafnvel hér á Vesturlandi fá.sitt hraðbrautafé án nokkurrar mótspyrnu frá þéttbýlismönnum, án nokkurrar mótspyrnu eða eftirsjá. En þar sem uppbygging á vegafé kemur frá umferðinni og umferðarþunginn er mestur á ákveðnum svæðum, þá hlýtur að vera eðlilegt að byrja á hraðbrautagerð þar sem umferðarþunginn er mestur, enda hefur það oft verið staðfest hér á hv. Alþ. og hlýtur að eiga sér stað í 1–2 ár enn þá.

Því miður er hæstv. ráðh. ekki við, en einn þáttur, sem fór fram úr áætluninni, var snjómokstur. Hann drap á að nýjar reglur um snjómokstur væru í athugun, en heildarhalli á vegáætlun var 333 millj. kr. og snjómokstur var stór þáttur í því, ef ég man rétt 133 millj. kr. Þetta er há tala, sumum kannske finnst að hún sé of lág, en nauðsynlegt er að fá nákvæma skiptingu um þetta og e.t.v. getum við fengið hana í n. Brúargerð fór 22 millj. fram úr áætlun, það kemur fram í grg. Það er ekki há tala, en erfitt er að hætta við brú nema sjá enda ná landi, svo það er eðlilegt að í verðbólguhreyfingu og verðhækkanahreyfingu fari það nokkuð fram úr áætlun. Heildarhreyfingin er ekki gífurlega mikil í svona mikilli veltu. En auðvitað þarf að leysa þennan vanda sem skapast hefur, þessar 330 millj. Hluta af þessum vanda er velt áfram í staðinn fyrir að takast á við að leysa hann strax. Ef menn treysta sér ekki til að gera það í þessari áætlun, þá verður ríkissjóður með öðrum hætti að bjarga þessu. Það er ekki sæmandi að velta þessum halla frá s.l. ári áfram í vegáætlun. Mér finnst það ekki sæmandi vinnubrögð. Það verður að gera sér grein fyrir því að þetta verður að leysast án þess að vera í vegáætlun mörg ár fram í tímann. Það er mikið vandamál, sem menn eiga við að etja, að skipta fjármagninu í nýja vegi og gamla vegi, og hér á bls. 24, neðst, segir: „Árlega þarf því að malbera 1366 km, en á síðasta ári voru malbornir 606 km.“ Þetta er óhæft ástand. Þetta er auðvitað óhæft ástand, og sérstaklega hlýtur þetta að vera bagalegt á vissum köflum á landinu. Og þá kemur togstreitan um það: Eiga menn að fara aðeins hægar í endurnýjun vissra vega og hafa þá sómasamlega nothæfa sem fyrir eru í landinu? Ég fæ ekki með nokkru móti séð skynsemi í því að rjúka svo hart áfram við nýbyggingu að ekki sé almennilega akfært á þeim vegum sem fyrir eru í landinu, því það hlýtur að vera dýr tollur fyrir alla að aka á nærri óhæfum vegi og stórskemma ökutæki. Það er dýr tollur. Og ég vildi að unnt væri að fá nánari upplýsingar um þetta, hvar þetta hefur helst átt sér stað, að menn báru ekki niður eðlilega á landinu, þegar hér er tekið svona til orða. En ég tel þessa setningu einkar athyglisverða,en hún er neðst á bls. 24, eftir að fjallað hefur verið nokkuð um vegaviðhald og nokkru nánar um það efni. En ég vil ekki tefja fundinn það lengi, herra forseti, með því að fara að lesa það upp. Það geta þm. sjálfir gert.

Við viljum allir fá góða vegi. Um það eru menn sammála. Menn eru hins vegar ekki reiðubúnir til að svara því eða það hefur ekki komið fram í ræðu nokkurs manns hér í kvöld hvort menn eru tilbúnir að leggja á aukna skatta í því efni. Þetta er auðvitað atriði sem þarf að fara varlega í við núverandi aðstæður, það viðurkenni ég fúslega. Ég hef þó látið þá skoðun í ljós að persónulega get ég staðið að því að hreyfa verð bílsins nokkuð niður á.við og bensínið þar með upp á við, en 1 kr. í bensinhækkun gefur ríkissjóði um eða yfir 100 millj. kr. Og ef ég man rétt er hér á einni bls. — það er hér á bls. 19 — rætt um innflutning á bílum, og sjá allir menn í hendi sér að þær gífurlegu sveiflur, sem eiga sér stað í bílainnflutningi landsmanna, eru óþolandi vinnubrögð — eru hreint óþolandi vinnubrögð, og það er miklu eðlilegra að geta haft þennan innflutning nokkuð jafnan á milli áranna. Það hlýtur að vera betra fyrir hæstv. samgrh. að geta gengið út frá eðlilegum innflutningi, segjum 7–8 þús. bílum á ári, heldur en að sjá það að eitt árið séu fluttir inn nærri 12 þús. bílar og svo komi annað ár á eftir með undir 4 þús. bilum. Meðalverð á góðum bíl í dag er um 11/2 mjllj. kr., jafnvel fast að 2 millj. kr. núna eftir aukaálögur. Það verður mönnum ofviða að kaupa bíl með þessum hætti og þegar víxilvextir eru orðnir svo háir sem raun ber vitni. En ríkissjóður fær mikið í aðra hönd frá bílnum, verulega mikið fjármagn, og bíllinn er ómissandi hverri fjölskyldu á landinu, enda er bilaeign landsmanna orðin slík að liðlega koma rétt 4 persónur á bil. Það er hlutur sem hver fjölskylda vill eiga og á að vera fært að eiga, en svo á að vera frjálst að nota hann og frjálst að eyða bensíni samkv. eigin geðþótta. Sumir munu segja að það komi illa við dreifbýlismenn að hafa bensínið dýrara. Það kann vel að vera að vissu marki. En menn eru þá frjálsir að því hversu mikið þeir vilja aka að óþörfu. En þéttbýlismenn eru allgjarnir á það um helgar að fara alls konar ferðir sem sumir mundu flokka undir óþarfa ferðir og jafnvel átroðning í því efni, en gæfu hins vegar ríkissjóði eða Vegasjóði í þessu tilfelli mikið laust fé.

Það hefur komið hér fram allhörð gagnrýni frá stjórnarandstöðunni á þessa þáltill., og ég vil taka undir margt sem sagt hefur verið í því efni. Óeðlileg rýrnun framkvæmda á sér hér stað bæði í ár og á s.l. ári. Hún er óeðlileg, og hún er ekki í samræmi við aðra þróun í þjóðfélaginu, alls ekki. Það getur vel verið að ýmsum finnist að sé vel mögulegt að draga úr miklum framkvæmdum í vegakerfi landsmanna. En þá þyrfti að skipta upp nánar en hér er gert og gera sér betur grein fyrir því, en til þess gefst ekki nokkur kostur. Hæstv. ráðh. sá sig knúinn til þess í upphafi ræðu sinnar að afsaka það af hreinskilni að nú væri þessi áætlun svo seint á ferðinni að vart eða ekki væri verjandi. Okkur í fjvn. er gert að fara í gegnum þetta plagg og skila því sómasamlega frá okkur á svo stuttum tíma að það er naumast eða ekki hægt ef vel á að takast til, hvað sem orsakar þetta. Það var auðheyrt af orðum hæstv. ráðh. að honum leið ekki vel út af þessu og hann bauðst til að taka á sig vandkvæði í því efni. En það er ekki svona einfalt. Þetta verður að koma fyrr fram og Alþ. verður að hafa tækifæri til að fjalla nánar um þetta, sérstaklega þegar menn eru farnir að togast mjög á um skiptingu fjármagnsins og þegar slíkir annmarkar koma fram á þáltill. eins og síðasti ræðumaður drap hér á, og ég hef lýst stuðningi við skoðun hans í því efni, að þessar 500 millj. eða þessi sérstaka fjáröflun frá happdrættisfénu hlýtur að standa utan við þessa þáltill. og ekki inni í heildarfjármagninu, þó hún megi standa á síðum ályktunarinnar í sérstöku verkefni. Það er eðlilegt og sjálfsagt. En ég skildi þau lög aldrei þannig að það ætti, ef ég má orða það svo, að svína á þeim svæðum er lögin, happdrættislögin, björguðu fjármagni til. Stuðningur minn var aldrei bundinn slíku skilyrði, aldrei nokkurn tíma.

Ég stóð að því í fyrra að samþ. brúna yfir Borgarfjörð. Það má deila um hvað hratt á að takast á við það mikla átak. En við verðum að horfa á aðra hluti í því sambandi, að ákveðin brú er að gefa sig eftir nærri 50 ára góða þjónustu og annar vegarspotti er líka að gefa sig eftir mikla notkun, og við verðum að velja og hafna. Ég stóð að því með hæstv. ráðh. að stuðla að því — og gerði grein fyrir atkv. mínu hér í nafnakalli — að þessi brúargerð hæfist og ég vil halda henni áfram. Hins vegar get ég líka endurskoðað það og fallist á það, ef aðstæður eru mjög þröngar eins og þessi þáltill. ber virkilega með sér, að rétt sé að fara nokkru hægar í sakirnar með þessa brú og setja þá einhverjar þungahamlanir á gömlu brýrnar til þess að mæta knýjandi þörfum annars staðar á landinu. Þetta er atriði sem við eigum að hafa svigrúm til að vinna og meta í fjvn. En gefst það svigrúm? Fáum við þessar upplýsingar vegna tímaskorts? Ég dreg það því miður í efa. Þá verður kylfa að ráða kasti. En það er kannske ekki það æskilegasta í vegamálum að slíkt eigi sér stað.

Nei, því miður er margt neikvætt við þetta plagg. Sjálfsagt verður enginn ánægður, og þá er erfitt úr að ráða. Augljóst er að verðbólgudraugurinn er hér alls ráðandi og erfiðleikar því samfara, en það stafar að ýmsu leyti af stjórnleysi og ákvörðunum, sem ég gagnrýni harðlega, í verðbólguaukandi átt. því er réttmætt af okkur í stjórnarandstöðunni að gagnrýna þessa áætlun allharkalega, eins og þegar hefur komið fram.