11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4059 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Páll Pétursson:

Herra forseti. Sumir þm. stjórnarandstöðunnar hafa býsnast hér yfir þessari áætlun og farið hörðum orðum um hæstv. samgrh. fyrir að leyfa sér að leggja þvílíkt plagg fram. Hv. 5. þm. Vestf. gekk svo langt að telja það langt til jafnað hvað þessi áætlun væri slæm og hvað þetta væri ómögulegur ráðh., og er þá væntanlega að meina örlagavald sinn, fyrrv. hæstv. samgrh., Hannibal Valdimarsson, sem lagði fram hér einar þrjár áætlanir fyrr á árum. Ég get hins vegar ekki tekið undir þennan söng. Ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með hæstv. samgrh. undanfarið, mér er kunnugt um að þetta hefur verið þó nokkuð ströng fjáröflun hjá honum, og ég held að hann hafi sýnt talsverðan framkvæmdahug, að draga þó þetta. Það voru nefnilega engar líkur á því á tímabili, sýndist mér, að krónutalan héldist. Auðvitað rýrna framkvæmdir ákaflega að magni til. en krónutalan hangir þó í þessari áætluðu tölu og það er þó alltaf nokkuð. Það má hins vegar ekki skilja orð mín svo að mér finnist

þessi þáltill. um vegáætlun neitt óskaplagg. Það er síður en svo. Ég vildi gjarnan að hún væri miklu reisulegri en mér sýnist hún vera, miklu rýmri en raun ber vitni.

Hv. þm. Ragnar Arnalds taldi málið stefna í rembihnút, eins og hann orðaði það. Við verðum að hjálpast að við að leysa þennan hnút, Ragnar. Og hnúturinn er m.a. þannig til kominn að það þarf að endurskoða vegalögin, en því miður er ekki búið að gera bað. Það er ekki búið að endurskoða þau og þess vegna stöndum við frammí fyrir ýmsum vanda sem annars væri auðleystari. Við verðum að hjálpa hver öðrum til þess að bjargast eins og best gengur.

Þessi flokkun í hraðbrautir, landsbrautir og þjóðbrautir er orðin ákaflega úrelt og afleit, það er rétt hjá hv. þm. Ragnari Arnalds.

Vegna ummæla hér í áætluninni um að fresta beri breytingum á snjómokstursreglum til ársins 1978, þá vil ég taka fram að ég tel það óviðunandi. Mér finnst að núv. reglur séu úreltar og slæmar, og ég hefði kosið að þeim væri breytt fyrr en 1978.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson lýsti eftir því hvert þessir snjómoksturspeningar hefðu farið. Ég get ekki stillt mig um að fletta upp á bls. 9 í skýrslu samgrh, um framkvæmd vegáætlunar 1975. Þar kemur sem sé í ljós að kostnaður við snjómokstur á leiðinni Reykjavík til Selfoss er 121/2 millj. kr., en á Holtavörðuheiði, sem er þó allt annar og meiri fjallvegur heldur en Hellisheiði, sem tæpast kemur nú snjór á, þar var ekki varið nema 7.2 millj. í snjómokstur. Á leiðinni frá Haganesvík og til Siglufjarðar var ekki varið nema 5.3 millj. Hérna sjáum við hvað þetta eru ómögulegar reglur. Það hlýtur að vera hægt að nýta þessa peninga betur. Það hlýtur að vera hægt að verja þeim þannig að opnaðir séu þeir vegir sem þarf að opna, en ekki sé verið að skakast á auðum vegi aftur og fram í góða veðrinu með snjómoksturstæki sólarhringum saman, eins og hlýtur að vera gert hér á Hellisheiði.

Ragnar Arnalds, hv. þm., talaði skynsamlega um það að auka fé til erfiðustu fjallveganna, og ég tek alveg undir þetta með honum um Holtavörðuheiðina, að þar þarf að gera myndarlegt átak. En hæstv. samgrh. taldi upp Holtavörðuheiðina einmitt sem eitt af þeim brýnustu verkefnum sem þyrfti að taka myndarlega á, og við verðum allir að hjálpast að við að verja myndarlega fé til Holtavörðuheiðar. Hins vegar voru hv. þm. Geir Gunnarsson og hv. þm. Jón Árm. Héðinsson að tala um veginn til Hafnarfjarðar. Ég hef farið hann stundum í vetur og ég hef aldrei orðið var við annað en hann væri sæmilega greiðfær. Ég fór hann seinast í fyrradag, þá var það alveg hlemmivegur. Hins vegar var Norðurárdalurinn bara drullusvað og nýlega búið að moka Holtavörðuheiðina. Þess vegna held ég að það liggi enn þá meira á því að lagfæra eitthvað þar heldur en nokkurn tíma á Hafnarfjarðarveginum.