11.05.1976
Sameinað þing: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4066 í B-deild Alþingistíðinda. (3345)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður af því að það er liðið langt á kvöld. Það var aðallega eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., sem varð þess valdandi að ég kvaddi mér hljóðs, af því að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning sem mér fannst koma þar fram hjá honum. En þessi misskilningur hefur heyrst stundum áður.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh. að hann taldi að það væri nú kannske ekki mjög mikið við það að athuga þó að eitthvað hallaði á okkur austfirðinga í skiptingu vegafjárins núna þar sem við fengjum ekkert af hraðbrautafénu, en um helmingur stofnframkvæmdafjárins fer til hraðbrauta, vegna þess að áður hefðum við fengið stóran hlut og meiri hlut en aðrir, og var þá greinilegt að hann átti við fjárveitingar til framkvæmdanna á Skeiðarársandi. Hér er auðvitað um grundvallarmisskilning að ræða. Það er ekki með neinu móti hægt að telja þær framkvæmdir, sem gerðar voru á Skeiðarársandi, vegaframkvæmdamál fyrir Austurland sérstaklega. Þessu máli var stillt þannig af nær öllum sem þar komu nærri, að þetta ætti að teljast sérstök þjóðargjöf í tilefni hins mikla afmælis byggðar í landinu, og mér er nær að halda að allir hafi verið á einu máli um að þessi framkvæmd væri þess eðlis að það væri ekki hægt að flokka hana undir eitt eða neitt kjördæmi. Það verður því ekki afsökuð nein misskipting núna á vegafénu með því að það fé, sem gekk til Skeiðarársandsframkvæmdanna, hafi verið sérstaklega fjárveiting til austfirðinga. Ég vil líka geta þess í leiðinni að ef maður tekur vegalengdina frá miðstöðinni hér í Reykjavík til míns heimastaðar í Neskaupstað, þá er nákvæmlega upp á km jafnlangt að fara norður fyrir land eins og suður fyrir land, og líklega býr meiri hl. austfirðinga þannig að það er síður en svo að hér sé um neitt styttri leið að ræða. En vissulega er vegagerðin yfir Skeiðarársand þýðingarmikil, einkum fyrir suðurhluta okkar kjördæmis. En þetta var auðvitað liður í því að koma á hringvegi um landið sem hafði mjög almenna þýðingu fyrir ferðamál í landinu og fyrir landsmenn alla, og er auðvitað mjög óréttmætt að ætla að fara að flokka þetta sérstaklega til fjárveitinga til Austurlands. Ég álít að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðh. átti sig fyllilega á þessu og beri ekki neinu slíku við, vegna þess að það er óréttmætt og yrði þá til þess að hallað yrði verulega á okkur austfirðinga í skiptingu vegafjár ef þannig yrði hugsað.

En svo voru það nokkur önnur atriði sem komu fram hjá hæstv. ráðh. sem vöktu nokkuð athygli mína. Ég gat ekki heyrt að hann tæki hér neitt, nema með óbeinum orðum, undir þær ábendingar sem hér höfðu komið fram hjá mörgum þm. um að það þyrfti beinlínis að gera ráð fyrir meira framkvæmdafé til vegagerðar í landinu og það yrði að afla meira fjár í þessu skyni, annaðhvort með því að auka tekjur vegasjóðs eða afla frekari lána. Hann sagði að vísu að þessar raddir gleddu sig og hann væri ánægður að heyra þær o.s.frv., en frekari undirtektir komu ekki. Spurningin er sú, hvort hann vill snúast í því að reyna að fá hér fram breytingar eða hvort hann telur að það sé ekki kleift, vegna þess að það er auðvitað það stóra í þessu máli: Er hægt að breyta þessari áætlun þannig að hér verði meira til skiptanna, meira til framkvæmda í heild? Mér er alveg ljóst að það er ekki hægt að komast út úr þessum vanda með öðrum hætti en að hafa meira fé, þó að ég álíti það að það sé hægt að skipta fénu á réttlátari hátt en gert er ráð fyrir í þessum tillögum.

Þá var annað atriði, og það var það að ég gat ekki heyrt það á máli hæstv. ráðh. að hann svaraði því á eðlilegan hátt að nauðsynlegt væri að breyta þessari áætlun þannig að það kæmi skýrt fram í henni að 2/3 af þeim 500 millj. kr., sem á að afla með happdrættislánaaðferðinni, gengju til Norðurvegar, frá Reykjavík til Akureyrar, og 1/3 ætti að ganga til Austurvegar, frá Reykjavík um Suðurland til Austurlands. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að jafnvel þó að hann vilji skýra till. sinar á þann veg að segja að það sé gert ráð fyrir því að þessir 2/3 hlutar af þessum 500 millj. gangi til Norðurvegar í gegnum hraðbrautaféð sem áætlað er á leiðina hér frá Reykjavík til Akureyrar, þá dugir þessi skýring ekki um Austurveg. Samkvæmt þeirri skiptingu, sem liggur fyrir hér og er gildandi vegáætlun, þar sem skipt er hraðbrautafé upp á 1081 millj., eins og er í till. núna, þá er í Suðurlandsveg skipt 65 millj. kr. og um aðra fjárveitingu er ekki að ræða í þessa braut, ekki af þessu fé. Það vantar a.m.k. algjörlega þann hlutann af þessu fé sem á að fara til okkar á Austurlandi, nema það eigi að fara þannig að því að segja bara: Gamla upphæðin sem fór áður til Austurlandskjördæmis, í þjóðvegi þar og í landsbrautir þar, það er innifalið í þeirri upphæð og það á bara að minnka við okkur á því sviði. Ekki vil ég nú trúa því að hæstv. ráðh. detti slíkt í hug. Það er alveg ljóst að áætlunin fær ekki staðist með neinum hætti gagnvart Austurvegi og verður að taka breytingum. En ég held að það verði að breyta henni líka gagnvart Norðurvegi, vegna þess að það hefur alltaf verið reiknað með því að þetta fé kæmi umfram aðrar fjárveitingar, en gengi ekki inn í almennar fjárveitingar til vegagerðar sem hafi verið reiknað með að meira eða minna leyti áður.

Ég skal nú ekki lengja þessar umr. frekar, en verð að segja það, að þó að hæstv. ráðh. minnist á það að hann hafi fengið í sambandi við efnahagsráðstafanir ríkisstj. nú nýlega nokkuð aukið fé til vegamála, eitthvað yfir 300 millj., þá er alveg augljóst að því fé, sem þar kemur, hefur öllu verið varið einvörðungu til þess að hækka stjórnun vegamála og til þess að hækka viðhald á vegum. En því hefur ekki verið varið samkvæmt till. til nýbygginga vega. Um það er ekki að ræða.

Ég sem sagt ítreka bara svo fyrri óskir mínar um að hæstv. ráðh. veiti því nú frekari athygli sem við höfum hér sagt um þessi mál og skiptir hér mestu máli. Ég hef aldrei tekið undir neinar deilur á hann út af því að hann hafi barist fyrir því að fá fram merkilega framkvæmd í vegamálum í sínu kjördæmi, þ.e.a.s. að koma á þessari margumtöluðu brú. Ég skil það mætavel að hann hefur barist fyrir því máli. Mér dettur ekki í hug að deila á hann fyrir það á nokkurn hátt. En hitt vil ég ekki ætla honum, að slík framkvæmd eigi að verða til þess að taka fé af þeim sem minnst hafa fyrir og hafa greinilega dregist aftur úr, af því að um það verður ekki deilt að t.d. þeir aðilar, sem ég hef verið að benda hér á, hafa dregist aftur úr og áður gefin loforð við þá hafa ekki verið efnd.