12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

96. mál, sjúkraþjálfun

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. hefur fjallað um frv. til l. um sjúkraþjálfun á allmörgum fundum. Þetta frv. hefur verið alllengi hjá n. til umfjöllunar og byggist það á því að ekki hefur verið fullkomin samstaða um málið hjá þeim aðilum sem við þessi lög eiga að búa ef frv. verður samþ. Að loknum viðræðum og fengnum umsögnum frá ýmsum aðilum, er þetta mál snertir, hefur n. sent frá sér brtt. á þskj. 721 og ætla ég aðeins að gera hv. dm. grein fyrir í hverju þessar breyt. eru fólgnar.

Fyrsta brtt. n. er við 2. gr., og leggur hún til að gr. orðist svo: „Leyfi samkvæmt 1. gr. skal veita þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa lokið prófi við skóla sem viðurkenndur er fullkominn sjúkraþjálfunarskóli af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í. Leita skal umsagnar stjórnar námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknis áður en leyfi er veitt.“ Þetta er nokkur breyt. frá frv. eins og sjá má.

Enn fremur leggjum við til að 3. gr. orðist svo: „Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur ekki íslenskt ríkisfang, og er þá ráðh. heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi til þess að stunda sjúkraþjálfun, enda hafi stjórn námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknir mælt með leyfisveitingunni.“

Breytingin er þá fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi að við bætum þarna við orðinu „ótakmarkað“ til viðbótar við „tímabundið“, og í öðru lagi að stjórn námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknir mæli með leyfisveitingunni. En eins og frv. hljóðaði var það Félag ísl. sjúkraþjálfara og landlæknir sem áttu að mæla með leyfisveitingunni.

Við leggjum enn fremur til, að 4. gr. orðist svo: „Sjúkraþjálfari starfar við hæfingu og endurhæfingu sjúkra og heilbrigðra sem fólgin er í þjálfun, fræðslu og kennslu.“ Hér er aðeins um að ræða aðra röðun orða.

Aðalvandamálið var varðandi 5. gr., en 5. gr. í frv. hljóðar svo: „Ekki má sjúkraþjálfari taka sjúkling til meðferðar án tilvísunar læknis.“ Í núgildandi lögum hljóðar aftur á móti gr. sem um þetta fjallar, þ.e.a.s. 3. gr., svo: „Ekki má sjúkraþjálfari taka sjúkling til meðferðar án tilvísunar og fyrirsagnar læknis.“ Þarna var nokkur skoðanamunur milli lækna og sjúkraþjálfara um hvernig þetta skyldi hljóða í framtíðinni, en aðilar hafa orðið á eitt sáttir um að samþ. þessa till., að 5. gr. orðist svo: „Ekki má sjúkraþjálfari taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni.“ Lögð er mikil áhersla á að fá samkomulag viðkomandi aðila um þetta atriði vegna þess að þeir þurfa að starfa mikið saman og í raun og veru ekki hugsanlegt annað en að þeir hafi samráð um meðferð sjúklinga.

Loks er svo ákvæði til bráðabirgða: „Þar til námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands tekur til starfa skal leita umsagnar Félags ísl. sjúkraþjálfara um þau atriði sem stjórn námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands er ætlað að fjalla um í þessum lögum.“

Þetta eru þær brtt. sem n. hefur látið frá sér fara og gefur frá sér svo hljóðandi nál.:

N. hefur rætt frv., leitað umsagna um það og fengið á sinn fund stjórnir félaga sjúkraþjálfara og orkulækna. N. leggur einróma til að frv. verði samþ. með þeim breyt. er hún gerir till. um á sérstöku þskj.

Til glöggvunar á þessu máli langar mig til að lesa hér bréf er við fengum frá orkulæknum og hljóðar svo:

„Í tilefni af frv. til l. um sjúkraþjálfun, sem nú liggur fyrir Alþ., vill Félag ísl. orku- og endurhæfingarlækna lýsa sig andvígt 5. gr. frv. Í grg. með frv. segir að gr. sé efnislega samhljóða 3. gr. núgildandi laga. Svo er þó ekki og vill félagið leggja áherslu á að 5. gr. í frv. verði shlj. 3. gr. núgildandi laga, en þar hljóðar hún svo: „Ekki má sjúkraþjálfari taka sjúkling til meðferðar án tilvísunar og fyrirsagnar læknis.“

Í þessu sambandi bendir félagið á að læknirinn skoðar, rannsakar og metur sjúkling, ekki aðeins hreyfikerfi hans, heldur einnig önnur líkamskerfi. Hann öðlast þannig bestu heildarinnsýn í ástand hans, andlegt og líkamlegt, og er þar af leiðandi kunnugastur hvaða meðferð hann þarfnast. Það er starf læknis að ákveða, veita eða segja fyrir um meðferð, ekki aðeins sjúkraþjálfara, heldur einnig aðra meðferð, svo sem skurðaðgerðir, lyf, geðræna hjálp o.s.frv. Hann er á þeim vettvangi sem öðrum ábyrgur gagnvart sjúklingi. Það er því fyllilega rökrétt að læknir segi fyrir um sjúkraþjálfun eins og aðra meðferð. Að því er félaginu er best kunnugt eru ströng ákvæði í siðareglum sjúkraþjálfara í flestum löndum heims um að sjúkraþjálfari taki ekki sjúkling til meðferðar nema læknir óski þess og ávísi meðferð. Sams konar eða svipuð ákvæði eru í lögum flestra landa um sjúkraþjálfun, að því er best er vitað, þar sem slík lög eru til á annað borð. Verði hins vegar talið nauðsynlegt að fella niður orðin „og fyrirsagnar læknis“, sbr. 3. kr. núgildandi laga, leggur félagið áherslu á, að 5. gr. frv. orðist svo: „Ekki má sjúkraþjálfari taka sjúkling til meðferðar nema í samráði við lækni.“

Þannig er það að báðir aðilar hafa fallist á þetta orðalag, og að þessum árangri náðum leggjum við sem sagt eindregið til að frv. verði samþ.