12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4084 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Með örfáum orðum vil ég lýsa afstöðu minni til þessa frv. og þessara samninga. Hér er um að ræða afstöðu til þegar gerðra samninga milli ríkisvaldsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og í raun og veru er hér ekki um að ræða meginspurninguna, þ.e.a.s. um fullan og óskoraðan samningsrétt til handa BSRB, heldur mjög svo takmarkaðan samningsrétt.

Ég hlýt að gera aths. við það, sem hér hefur komið fram áður, að þd að einhvers staðar í einhverra röðum vaxi þeirri skoðun fylgi að verkföll séu úrelt fyrirbæri, þá sýnir reynslan okkur allt annað. Reynslan frá síðasta vetri er t.d. gleggst til vitnis þar um, þegar verkalýðsfélögin áttu einskis annars úrkosta en reyna þá leið til þess að ná í nokkru fram sínum rétti. Ég held því að það líði langur tími þangað til við komumst svo langt á þróunarbrautinni að verkföll verði úrelt fyrirbæri, þau eigi ekki fullan rétt á sér. En þau eru vitanlega alltaf, eins og tekið er fram af verkalýðshreyfingunni, hennar nauðvörn, hennar síðasta tækifæri til þess að leiðrétta sinn hlut.

Þessir samningar, sem hér er um að ræða, eru áfangi sem samtök ríkisstarfsmanna í heild, þrátt fyrir einstakar deildir e.t.v., hafa fallist á sem fyrsta skrefið að fullum samningsrétti í líkingu við þann samnings- og verkfallsrétt sem aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa nú. Það er rétt að það virðist nú sótt að þeim rétti, sem verkalýðsfélögin hafa haft og hafa, og þann rétt verður að vernda, á það skal lögð þung áhersla. En á þennan áfanga ber auðvitað að líta fyrst og fremst í ljósi þess að hér er um fólk að ræða sem alls engan slíkan rétt hafði. Einmitt með tilliti til þess ber þó að fagna áfanganum, þó að ég viti að félagar BSRB, sérstaklega þeir lægra launuðu, telji hann yfirleitt of skammt ganga.

Mönnum verður ansi tíðrætt um atvinnuöryggið margumtalaða með æviráðningunni svokölluðu. En mér er sagt að sú æviráðning og það öryggi, sem henni fylgir, sé nú æ meira að hverfa og í einstökum tilfellum sé hún nær alveg horfin, menn séu ráðnir til ákveðins tíma og um æviráðningu sé ekki að ræða. Hitt vill mönnum líka gleymast æðioft, hve láglaunahóparnir innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eru margir og hvað kjör þeirra eru í raun hrakleg. Og ég fullyrði að kjör margra þeirra væru betri í dag hefðu þeir haft þennan rétt sem þeir öðlast nú með þessu lagafrv.

Ég get nefnt dæmi um það ótalin sem opinber starfsmaður um mína atarfsævi alla þegar á opinberum starfsmönnum hefur verið brotið óvægilega einmitt vegna réttarstöðu þeirra gagnvart kjaramálum sínum — eða réttara sagt réttarleysis þeirra. Og vitanlega hefur það ævinlega komið harðast niður á þeim lægst launuðu í þeirra hópi. Ég veit líka um þau neikvæðu áhríf sem dómar Kjaradóms, sem einu sinni áttu allt að leysa, höfðu iðulega og réttláta reiði opinberra starfsmanna af þeim sökum. Ég veit t.d. að ekki fór mín stétt, kennarastéttin, varhluta þar af, svo mjög sem sérstaða þeirrar stéttar hefur verið teygð og toguð langt um of til þess einmitt að halda kjörum kennarastéttarinnar niðri til stórskaða fyrir stéttina í heild.

Það er líka rétt að undirstrika nauðsyn þess fyrir svo fjölmenn samtök sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að þurfa ekki að vera eins gersamlega háð samanburði við Alþýðusamband Íslands og verið hefur, þó að stundum hafi sá réttur meira að segja verið algerlega af þeim tekinn, að verða að una við það eitt að sitja aðgerðalausir með öllu, svo fjölmennur launþegahópur, þegar einstök verkalýðsfélög eða heildarsamtök þeirra hafa oft með fórnfrekri baráttu verið að vinna að bættum launakjörum opinberra starfsmanna um leið. Með þessum áfanga er a.m.k. úr því dregið, að að ég álíti sem opinber starfsmaður alla mína starfsævi að þá hljóti takmark opinberra starfsmanna, og það veit ég að er yfirgnæfandi meiri hl. fyrir í þeirri starfsstétt sem ég hef tilheyrt, kennarastéttinni, — markmið þeirra og takmark hljóti og eigi að vera að sitja við sama borð og meðlimir Alþýðusambands Íslands, heyja baráttu fyrir sínum kjörum, færa sínar fórnir ef því er að skipta.

Þar sem hér er um margt merkilegan áfanga að fullum samnings- og verkfallsrétti opinberra starfsmanna að ræða hlýt ég að styðja þessi frumvörp, fjögur samtengd sem hér eru nú til 2. umr., en eingöngu — og það skal ítrekað — sem réttarbót þeirra sem engan rétt höfðu, fyrsta skrefið til þeirra sem höfðu áður — ég vil segja nær engan rétt til beinna ákvarðana um kaup sitt og kjör.Í þjóðfélagi eins og okkar hlýtur nefnilega fullur samningsréttur að vera lokatakmarkið hjá opinberum starfsmönnum, að þeir sitji þar sem næst við sama borð og verkalýðshreyfingin í dag, eigi þar þann sama rétt sem hefur bjargað verkalýðshreyfingunni til þessa dags þegar í nauðir hefur rekið og verður áfram hennar helgasti réttur.