12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða hér um landhelgismálið.

Ég hygg að flestir landsmenn hafi búist við því að á miðnætti í nótt, þ. e. í lok 12. nóv. og í byrjun 13. nóv., gengi úr gildi samningur breta og annarra útlendinga um fiskveiðar í fiskveiðilögsögu okkar. Nú sé ég í blöðum í dag að einhver vafi leikur á því hvenær samningar þessir falla úr gildi, þ. e. a. s. hvort þeir falla úr gildi í nótt eða einum sólarhring siðar. Í mínum augum skiptir það ekki öllu máli, hvort heldur er, en rétt er og nauðsynlegt að fá um þetta atriði skýrar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. Í samkomulaginu við breta segir að það taki gildi 13. nóv. og sé til 2 ára. Hitt mun vera rétt, að samkomulagið hafi ekki verið staðfest og undirritað fyrr en síðdegis hinn 13. nóv. 1973. En vegna óvissunnar í þessum efnum óska ég eftir því, að hæstv. ríkisstj., hæstv. dómsmrh. eða hæstv. forsrh., gefi hér um yfirlýsingu þannig að það þurfi ekki að vera neinn vafi á því hvenær þessir samningar eru taldir falla úr gildi og hvenær er óheimilt fyrir öll erlend skip að stunda veiðar í okkar fiskveiðilandhelgi.

En það atriði landhelgismálsins, sem mestu máli skiptir þegar veiðiheimildir útlendinga falla úr gildi, er hvernig þá verður staðið að gæslu hinnar nýju fiskveiðilandhelgi. Ég tel að það sé réttlát krafa allra landsmanna að ríkisstj. gefi um það atriði skýra og ótvíræða yfirlýsingu nú þegar eða áður en sú stund rennur upp, að allar veiðar útlendinga í fiskveiðilandhelginni séu óheimilar.

Það er enginn vafi á því að fyrstu viðbrögð okkar íslendinga við ólöglegum veiðum útlendra skipa geta haft mjög mikil áhrif á framhald málsins. Einörð framkoma okkar og hiklaus framkvæmd á því að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar í fiskveiðilandhelginni með öllum tiltækum ráðum okkar mun strax sannfæra jafnt erlenda sjómenn og erlenda stjórnmálamenn um alvöru okkar í þessu máli. Minnsti undansláttur af okkar hálfu er stórhættulegur og ýtir aðeins undir ágengni þeirra sem vilja brjóta niður okkar landhelgislög. Ég tel að allir landsmenn eigi ótvíræðan rétt á því að fá að vita um fyrirætlanir ríkisstj. í þessum efnum. Af þeim ástæðum óska ég eftir því að hæstv. forsrh. lýsi því hér yfir fyrir hönd ríkisstj. að strax og undanþágusamningar útlendinga falla úr gildi verði fiskveiðilandhelgin varin með öllum tiltækum ráðum og gæsluskipum okkar falið að taka þau útlend skip, sem tilraunir gera til að brjóta lögin, og að undantekningarlaust verði klippt á veiðarfæri landhelgisbrjóta þar sem hægt er að koma því við séu ekki möguleikar á beinni töku á þeim landhelgisbrjótum. Yfirlýsingu þessa efnis þarf ríkisstj. að gefa, þannig að þjóðin öll heyri hana og þar með talið gæslulið okkar á varðskipunum, svo að ekkert fari á milli mála um undanbragðalausa framkvæmd í málinu.

Ég veit að það er ákveðin skoðun þeirra sem best eru kunnugir landhelgisgæslu okkar, að við getum fullkomlega varið landhelgina fyrir erlendum skipum ef aðeins öllu afli okkar er beitt, þ. e. a. s. öllum varðskipum okkar og e. t. v. nokkrum viðbótarskipum sem við eigum og getum auðveldlega bætt við í gæsluna. Að sjálfsögðu er það háð því grundvallarskilyrði að gæslumenn okkar megi beita þeim tækjum, sem þeir ráða yfir, samkv. eigin mati og eigin dómgreind.

Þegar veiðiheimildir útlendinga eru um það bil að renna úr gildi og 200 mílna fiskveiðilandhelgin raunverulega að koma til framkvæmda er enn verið að ræða um nýja undanþágusamninga útlendinga. Við vitum að tvisvar hafa formlegar viðræður átt sér stað við breta um hugsanlegar veiðiheimildir þeirra og einu sinni formlegar viðræður við vestur-þjóðverja og einu sinni við belga. Þó að þessar formlegu viðræður hafi átt sér stað hafa enn ekki verið gefnar út neinar almennar upplýsingar, ekki sem hægt er að telja fullnægjandi, fyrir almenning í landinu um þessar viðræður, um hvað þær hafi snúist, hvað þar hafi komið fram, hver sé ágreiningurinn. Það eina, sem menn hafa við að styðjast hvað raunverulega sé að gerast í þessum efnum, eru skrif í stjórnarblöðunum þar sem mjög er skrifað um þessi mál undir rós. Og enn er allt á huldu um stefnu ríkisstj. í þessum viðræðum. Hitt liggur ljóst fyrir, að í landinu er gífurlega sterk andstaða gegn nýjum undanþágusamningum, og má segja að það hafi í rauninni dunið á ríkisstj. áskoranir og mótmæli — áskoranir um að semja ekki og mótmæli gegn nýjum samningum. Í hópi þeirra, sem gert hafa slíkar samþykktir eru ýmis sterkustu og fjölmennustu félagasamtök í landinu. Ég tel því alveg ljóst að ríkisstj. hefur ekki umboð þjóðarinnar til þess að gera nýja undanþágusamninga. Ef slíkir samningar eru gerðir við þessar aðstæður, þá eru þeir gegn vilja þjóðarinnar augljóslega og eiga þar með engan rétt á sér.

Það er þó ljóst af skrifum stjórnarblaðanna að enn er samningamakk af þessu tagi í fullum gangi. Í aðalstuðningsblaði ríkisstj., Morgunblaðinu, er t. d. sagt í leiðara í dag orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, — eftir að búið er í leiðaranum að ræða nokkuð um möguleika á nýjum undanþágusamningum og m. a. möguleikum á að semja við vestur-þjóðverja, þá segir orðrétt: „Þess vegna virðast nú nokkrar líkur á því að hægt væri að ná hagkvæmu samkomulagi við vestur-þjóðverja.“

Já, það er beinlínis talað um það í leiðara þessa blaðs að það liti út fyrir, að hægt sé að ná hagkvæmu samkomulagi við vestur-þjóðverja um veiðiheimildir þeim til handa. Það er tiltölulega létt að skrifa þannig um málið á meðan haldið er fyrir landsmönnum réttum upplýsingum um, hvað fram hefur komið í þessum samningaviðræðum. En þó að ég sé enn sem komið er — ég vona að það verði ekki lengi eftir þennan dag — bundinn af trúnaði í sambandi við upplýsingar varðandi þessi mál, þá tel ég mig ekki brjóta þar neinn trúnað þó að það komi fram — hliðstætt því sem kemur fram í Morgunblaðinu — að það hefur ekkert komið fram enn þá í viðræðum við vestur-þjóðverja sem bendir til þess að þeir vilji hnika til um þau veiðisvæði sem þeir hafa jafnan krafist áður og samningaviðræður við þá voru byggðar á áður af þeirra hálfu. En þar er einmitt um að ræða einn viðkvæmasta þátt málsins.

Þó að vestur-þjóðverjar lýsi því nú yfir að þeir geti fallist á að draga frystitogara sína með öllu út fyrir mörkin, þá er það ekki meginmál. Það var vissulega stórt mál af okkar hálfu en það, hvar þeir ættu að fá að veiða, m. a. upp að 12 mílum eða á ýmsum viðkvæmustu fiskimiðum við landið, það var enn þá meira stórmál.

Ég tel að öllum feluleik í þessu máli af hálfu ríkisstj. verði að ljúka og ríkisstj. beri nú skylda til að gefa út opinbera skýrslu fyrir alla landsmenn um þær viðræður sem fram hafa farið við útlendinga um hugsanlega nýja undanþágusamninga, þar sem undanbragðalaust sé skýrt frá því hverjar eru kröfur útlendinga í þessum efnum, hvað það er sem íslensk stjórnvöld geta hugsað sér í sambandi við nýja samningagerð, svo að afstaða þjóðarinnar geti komið skýrt fram til málsins.

Það er vissulega alvarlegt, þegar komið er nú að þessum tímamótum í okkar landhelgismáli, að þá skuli vera stanslaus undansláttaráróður í stjórnarblöðunum í þá átt að það sé betra að semja en að vera samningslausir vegna þess að annars taki útlendingar bara meiri afla á okkar miðum. M. ö. o. þarna er á ferðinni hreinn og algjör uppgjafartónn, og hann er auðvitað í fullkominni andstöðu við það sem kemur fram hjá þeim sem gerst ættu um að vita, — þeim sem hafa einmitt staðið í því að verja okkar landhelgi á undanförnum árum, eins og skipherrarnir á gæsluskipum okkar, þegar þeir halda því fram að þeir geti fullkomlega komið í veg fyrir veiðar útlendinga ef beitt sé öllu því afli sem við ráðum yfir, — að vísu háð því einu að ekki komi erlendur herskipafloti. Þá vitum við að við eigum ekki sakarafl við hann. En það er annað mál.

Ég er ekki trúaður á að slíkur herskipafloti verði hingað sendur nema til að láta þá gefast upp sem sýna hræðslumerki á sér.

Ég álít líka að það sé með öllu óverjandi að heyra það af hálfu stjórnvalda að minni háttar vandamál varðandi viðskiptamál eigi að ráða um afstöðu okkar í þessu stóra máli. Hins vegar tel ég að á meðan raunverulega eru sviknir á okkur samningar, viðskiptasamningar við Efnahagsbandalagið, eins og verið hefur nú um alllangar. tíma, þá eigum við að svara slíkum svikum með því að leggja sérstakan aukatoll á vörur frá Efnahagsbandalagslöndunum og nota þann toll, sem þannig fæst, m. a. til þess að leysa þann minni háttar vanda sem kemur upp hjá einstökum útflytjendum okkar hér heima.

Í sambandi við þær viðræður, sem fram hafa farið og enn eru boðaðar, því að enn er verið að boða það að breskur ráðh. sé hér á næsta leiti og það eigi að taka upp framhaldsviðræður við hann um hugsanlegar undanþáguveiðar, hlýtur að koma í hug skýrsla Hagrannsóknastofnunarinnar um stöðu fiskstofnanna við Ísland sem hefur verið rætt allmikið að undanförnu. Nú mun liggja fyrir að það er í öllum meginatriðum samkomulag fiskifræðinga okkar og breta um stöðu fiskstofnanna hér við landið, m, ö. o. að breskir fiskifræðingar hafa fallist á sjónarmið okkar manna, á þá háalvarlegu aðvörun sem Hagrannsóknastofnunin hefur sent frá sér varðandi þessi mál. Þegar þetta er haft í huga og við vitum að við íslendingar höfum á undanförnum árum veitt álíka mikið magn á miðunum hér við land af þeim fisktegundum, sem helst eru í hættu, og fiskifræðingarnir telja að megi raunverulega við núv. aðstæður taka úr þessum fiskstofnum, — þegar það liggur fyrir, að við höfum veitt svona mikið magn eins og má taka úr stofnunum, þá gefur auga leið að það er ekkert svigrúm til samninga við núv. aðstæður — ekki um aukaveiðar handa útlendingum. Auðvitað ætti hæstv. ríkisstj. við þessar aðstæður að hætta með öllu að hugleiða meir að til slíkra samninga geti yfirleitt komið. Ég spyr: Hvað á að gera í málefnum okkar sjálfra ef samið yrði nú um veiðiheimildir handa bretum, vestur-þjóðverjum, færeyingum, norðmönnum, belgum og Austur-Evrópuþjóðum, — þær hafa verið nefndar líka, — þó að maður hugsaði sér að farið yrði í algjört lágmark í þessum samningum? Ég hef reyndar enga trú á, ef menn fara að ljá máls á samningum á annað borð, að það verði samið um neitt slíkt lágmark. Þó að aðeins yrði samið um 100 þús. tonn af þorski fyrir alla þessa aðila, en heildaraflamagnið, sem innlendir og erlendir fiskifræðingar telja að megi taka úr stofninum, er ekki nema 230 þús. tonn, hvað á þá að gera við okkur íslendinga sjálfa? Á að setja kvóta á íslensk veiðiskip, heimila þeim aðeins að veiða rúmlega helming af því, sem þau geta veitt og hafa veitt? Á að stöðva veiðarnar þegar líður á árið, þegar komið er upp að vissu hámarki? Eða á að taka hina alvarlegu skýrslu fiskifræðinganna og kasta henni beint í körfuna, rétt eins og menn hafi aldrei séð hana? Hver er meiningin? Ég tel fyrir mitt leyti að við þessar aðstæður eigi að svara slíkri ósvífni sem kemur fram af hálfu samningamanna breta, þegar þeir láta það frá sér fara að í rauninni skipti þá engu máli hvort íslenskir og breskir fiskifræðingar séu sammála um þetta ástand þorskstofnanna — það skipti þá í rauninni engu máli, þeirra afstaða sé eftir sem áður óbreytt um kröfu á veiðum hér, — það er mín skoðun, að slíkri framkomu eigi að svara á þann hátt að segja alveg umbúðalaust við slíka menn að við teljum þá ekki viðtalshæfa, við getum ekki rætt þessi mál við þá, eins og eðlilegt er að segja við þann aðila, sem hótar manni herskipaárás, að við hann sé ekki hægt að tala. Ég tel, eins og nú er komið, að það sé orðið aðkallandi að hæstv. ríkisstj. taki allan vafa af í þessum efnum og segi þjóðinni og Alþ. alveg hreinlega til um það hvað hún hyggist fyrir í þessum málum.

Ég vil vara hæstv. ríkisstj. við því að stefna þessum málum í öngþveiti. Það er enginn vafi á því að mikill meiri hl. landsmanna lítur svo alvarlegum augum á þetta mál, eins og það liggur fyrir nú að það er ekki á valdi neinnar ríkisstj. á Íslandi að halda fram slíkri stefnu að ætta að semja við útlendinga undir þessum kringumstæðum. Hún ræður ekki við málið í framkvæmd. Það er rétt að menn hafi í huga hvaða dilk það getur dregið á eftir sér að ætla að gera samning í máli eins og þessu gegn vilja mikils meiri hl. þjóðarinnar og þar með alveg augljóslega í fullri andstöðu við alla sjómenn landsins og þá sem ráða ferðum okkar fiskiskipa. Ég vil vara hæstv. ríkisstj. við því að hætta sér út í einhverja vitleysu í þessum efnum.

Að lokum vil ég óska eftir því að hæstv. forsrh. gefi hér yfirlýsingu um að það verði hið snarasta skýrt opinberlega og það ítarlega frá þeim viðræðum sem átt hafa sér stað um hugsanlegar fiskveiðiheimildir útlendinga í fiskveiðilandhelginni, hvað þar hefur komið fram, um hvað er þar deilt, og létta hulunni af. Í öðru lagi skýri hann hér frá því hver stefna ríkisstj. er um framhald málsins, og helst af öllu að hann skýri frá því í þessum umr. að það verði engir undanþágusamningar við útlendinga gerðir. Auk þess ítreka ég svo fyrirspurn mína um hvernig verði haldið á landhelgismálunum nú þegar undanþáguheimildirnar falla úr gildi, hvort það sé ekki algjörlega ljóst að okkar gæslumönnum verði gefin þau fyrirmæli að þeir taki alla þá landhelgisbrjóta, sem þeir geta tekið, beiti til þess allri þeirri hörku, sem þeir ráða yfir, og klippi miskunnarlaust aftan úr hinum veiðarfæri ef stjórnendur gæsluskipanna telja sér það fært og telja það rétt. Það ríður á miklu að það liggi ljóst fyrir af hálfu ríkisstj. hvernig á þessum málum verður haldið, að það verði ekki liðið að það verði sýnd linkind og undanþágur verði veittar í framkvæmd nú á fyrstu dögum gæslunnar og að slíkt undanhald verði síðan notað sem röksemd fyrir því að við séum neyddir til samninga og það sé betra að gera vonda samninga heldur en að láta ofbeldið vaða yfir sig. Það á að reyna á það strax, hvort það er ekki rétt að við getum varið okkar landhelgi, eins og okkar landhelgisgæslumenn halda fram. Því þarf þessi yfirlýsing hæstv. ríkisstj. að liggja hér fyrir, að á þennan hátt verði staðið að framkvæmd gæslunnar nú þegar, um leið og undanþágusamningarnir falla úr gildi.