12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4091 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

261. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jón G. Sólnes:

Herra forseti, Í sambandi við þá brtt., sem hér hefur verið borin fram við afgreiðslu þessa frv., þá get ég tekið það fram að ég er alveg samþykkur þeim tilgangi eða þeirri hugsun sem stendur að baki þessarar till., og ég hef oft látið þá skoðun í ljós að ég teldi ekki óeðlilegt um svo gífurlega innheimtustarfsemi sem þarna er lögð á herðar hinum ýmsu atvinnurekendum og ýmsu aðilum í þjóðfélaginu í sambandi við innheimtu á veigamikilli tekjuöflun ríkisjóðs, þá væri það ekki ósanngjarnt að þessum aðilum væri veitt nokkur umbun af hálfu hins opinbera. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að slík tilhögun gæti beinlínis borgað sig fyrir ríkissjóð, þannig að ef þetta yrði gert innan skynsamlegs ramma, þá gæti slík tilhögun að vissu leyti verkað sem nokkur hvati á menn að standa betur skil á þessum skatti, og ég held að þessi tilhögun gæti að mörgu leyti orðið til góðs. Hins vegar finnst mér ekki eðlilegt að ákvörðun í þessu sambandi sé tengd lögum um laun starfsmanna ríkisins, því að ég vil ekki eiga aðild að því að fara óbeinlínis kannske að fjölga allt í einu ríkisstarfsmönnum um nokkur þúsund manna í viðbót við allan þann mikla hóp sem telst innan þeirra raða í dag. Af þeirri ástæðu get ég ekki lagt þessari brtt. hv. 12. þm. Reykv. lið.

Annað er einnig í þessu sambandi sem hindrar mig í að fylgja þessari till. Nú er staðreynd að í fjárl. yfirstandandi árs er ákveðin upphæð sem ríkissjóður leggur til hagsmunasamtökum kaupsýslustéttarinnar í landinu. Ég var á sínum tíma á móti þessu fjárframlagi úr ríkissjóði, en þá var mér skýrt frá að þetta fjárframlag væri komið inn í fjárlög sem nokkurs konar málamiðlun eða viðurkenning af hálfu ríkissjóðs og hugsað sem umbun til verslunarstéttarinnar fyrir þá þjónustu sem hún lætur af hendi í sambandi við innheimtu söluskatts. Ef á að taka upp einhverja ákveðna tilhögun um það að veitt verði einhver innheimtuþóknun fyrir að innheimta og standa skil á söluskatti, þá vil ég að það verði gert á þann veg, að a.m.k. verði gengið frá því að þessi liður fjárlaganna falli þá niður um leið og frá slíkri ákvörðun um þóknun fyrir innheimtu hefur endanlega verið gengið. Því mun ég greiða atkv. gegn þessari till.