12.05.1976
Efri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

275. mál, stofnlánasjóður vörubifreiða

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur að beiðni samgrh. flutt frv. til l. um stofnlánasjóð vörubifreiða á flutningaleiðum. Í frv. þessu er kveðið á um að myndaður verði stofnlánasjóður til að veita lán til að aðstoða við kaup á vörubifreiðum, sem annast vöruflutninga út á land. Slíkir flutningar með vörubitreiðum hafa farið ört vaxandi og er það bæði vegna þess hvað flutningaþörfin hefur aukist og einnig hins, hvað vegakerfið hefur batnað, nýjar leiðir hafa opnast og stærri bifreiðar verið teknar í notkun, en það hefur gert flutningana hagkvæmari. Að einu leyti má þó segja að um öfugþróun hafi verið að ræða þar sem á sama tíma hefur dregið tiltölulega mjög úr flutningum á sjó — þar sem þó hefur verið hægt að koma slíkum flutningum við. En vegakerfið er hins vegar víða illa undir það búið að þola margfaldan umferðarþunga. Það er tvímælalaust brýnt verkefni að endurskipuleggja flutninga á sjó með það fyrir augum að þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru um öryggi og hraða og verði að því leyti samkeppnisfærir við landflutninga. En þrátt fyrir það þó að slíkt takist getur það ekki nema að takmörkuðu leyti komið í staðinn fyrir vöruflutninga með bifreiðum þar sem það er víða eini möguleikinn, eins og t.d. á Suðurlandi.

Það er því augljóst að þörfin fyrir stofnfjársjóð fyrir slík flutningatæki verður fyrir hendi og fer vaxandi þar sem flutningatækin stækka og endurnýjun þeirra verður þar af leiðandi erfiðari. Þetta hefur einmitt komið glöggt í ljós að undanförnu. Þess vegna hefur landsfélag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum samþykkt að greiða 1% af veltu sinni til að stofna slíkan sjóð. Samkv. lauslegri áætlun er gert ráð fyrir að það framlag geti verið 8 millj. kr. árlega og samkv. þessu frv. greiddi ríkissjóður sömu upphæð. En þar sem staða bifreiðaeigenda var ákaflega erfið s.l. ár veitti framkvæmdasjóður þá bráðabirgðalán að upphæð 40 millj. kr. í þessu skyni til Iðnaðarbankans sem endurlánaði það síðan til vörubifreiðakaupa til skamms tíma. Hugmyndin var sú, að þetta lán gæti gengið til væntanlegs stofnlánasjóðs svo að hægt væri að breyta þessum skammtímalánum í föst lán. Þetta nær þó ekki fram að ganga fyrr en Alþ. hefur staðfest stofnun hans. Alþ. hefur líka viðurkennt þörfina fyrir úrlausn á þessum málum með samþykkt þáltill. um stofnlánasjóð vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla sem samþ. var hinn 18. mars s.l. Þar er hins vegar um miklu umfangsmeira verkefni að ræða svo að undirbúningur þess tekur lengri tíma. Samþykkt þessa frv. ætti þó ekki að tefja það, þar sem auðvelt ætti að vera að samræma það hinu væntanlega frv., en hins vegar knýjandi að finna lausn á því bráðabirgðaástandi sem ég gat um hér að framan að er á þessum skammtímalánum. Í þessum tilgangi er þetta frv. flutt.