12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að kvarta undan þessum umr., því að mér finnst þær ekki hafa dregist úr hófi og hér er ekki um neitt smámál að ræða, svo að það er fullkomlega eðlilegt að hér fari fram nokkrar umr. um þetta mál. Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti sjái ekkert við það að athuga. Hitt tel ég nokkurn veginn gefið, að það þurfi ekki að óttast að umr. leggi undir sig allan fundartímann,

Hæstv. dómsmrh. svaraði tveimur af þeim fsp. sem ég lagði áherslu á í framsögu minni. Hinni fyrri, varðandi skilninginn á því hvenær undanþáguheimildir breta og annarra útlendinga féllu úr gildi, svaraði hann skýrt og greinilega, og ég hef hef ekkert við það að athuga og þakka honum fyrir það svar, það var skýrt. Mér er alveg ljóst, eins og ég kom strax að í upphafi míns máls, að það gat vel komið til mála að það væri rétt að túlka þetta á þennan veg. Þó hygg ég að flestir hafi allt fram að þessum degi skilið þetta á annan veg, enda þegar svo er orðað að ákveðið samkomulag taki gildi tiltekinn dag, þá meina menn venjulega að sá dagur sé einnig þar með. Hafi sá dagur áður verið með í framkvæmd, þá á hann ekki að koma aftur nú. En það skiptir engu höfuðmáli og ég tel þetta vera skýrt. Þá verður staðið þannig að framkvæmdinni að þessar veiðiheimildir falli að fullu og öllu úr gildi eftir rúman sólarhring hér frá.

En ég var ekki jafnánægður með svör hæstv. dómsmrh. varðandi þá aðalspurningu mína sem snerti það hvernig staðið yrði að framkvæmd gæslunnar eftir að undanþágusamningarnir falla úr gildi. Ég tel satt að segja yfirlýsingu um að það verði staðið að gæslunni með venjulegum hætti, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, ákaflega lítils virði.

Ég hlýt að spyrja í sambandi við þetta orðalag, þegar sagt er að það eigi að standa með venjulegum hætti að framkvæmdinni, hvort það þýði að landhelgisgæsluskipstjórum beri að taka þau brotleg skip sem á vegi þeirra verða ef þeir geta tekið þau. Mega þeir beita öllum sínum tækjum til þess að stöðva lögbrjótana og taka þá, eða þurfa þeir að biða eftir fyrirmælum úr landi? Og getur þá komið fyrir, eins og ábyggilega hefur komið fyrir, að fyrirmæli um að það megi halda strikinu áfram úti á sjónum komi ekki? Ég endurtek spurningu mína, ég spyr hæstv. dómsmrh.: Þessi venjulega framkvæmd, sem hann orðar, þýðir hún það að skipstjóri á gæsluskipi hafi fullt vald til þess samkv. eigin mati að stöðva landhelgisbrjót með þeim tækjum, sem hann hefur yfir að ráða, og taka hann fastan, án þess að hann þurfi sérstaklega að sækja um leyfi í land til þess að standa þannig að málum? Þetta er ákveðin spurning.

Ég spyr einnig: Þýðir þetta, að það eigi að standa að gæslunni á venjulegan hátt, að það sé á valdi skipherrans á gæsluskipinu að taka ákvörðun um að klippa veiðarfæri aftan úr landhelgisbrjót, eða þarf hann einnig að sveima lengi á hafinu, bíðandi eftir samþykki úr landi, hvort hann megi gripa til þessara ráða eða ekki?

Vegna alls þess, sem á undan er gengið og fram hefur komið opinberlega um þessi mál, einnig frá gæslunnar mönnum, er alveg nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. tali hreint út í þessu máli. Verði það ekki gert nú, áður en að hin nýja skipan kemst á, þá verður það ekki tekið alvarlega af neinum íslendingi þó að því verði haldið fram á eftir að við höfum ekki reynst færir um að koma í veg fyrir að hin erlendu skip stunduðu veiðar hér í landhelginni. Við höfum aðeins verið að elta þá og reka og stugga við þeim, eins og orðað hefur verið. Þá hefur ekki fengið að reyna á það hvort að við værum þess megnugir að stöðva landhelgisbrjót. Ég legg áherslu á að þetta varð verði í höndum skipherranna á gæsluskipunum, það verði þeirra eigin dómgreind sem ræður til hvaða ráða þeir grípa hverju sinni, en það sé ekki margfaldar gæslustöðvar hér í landi sem geti raunverulega dregið þá dag eftir dag eða tíma eftir tíma á því hvað skuli gera.

Ég vil vænta þess að hæstv. dómsmrh. svari þessu hér, hvort orðalag hans um venjulegan hátt á gæslustörfum þýðir það í framkvæmd og þá vil ég einnig vona að fréttamiðlarnir, m. a. útvarp og sjónvarp, segi hreinlega frá því, þannig að mennirnir á gæsluskipunum fái líka að heyra það, að því hafi verið lýst yfir á Alþ. að það sé á þeirra valdi skipherranna að meta það hvenær eigi að klippa og hvenær eigi að stöðva skip og hvenær eigi að taka það. Fáist ekki skýr svör um þetta, þá vitanlega er ekki hægt að segja neitt um að það hafi fengið að reyna á getu okkar í þessum efnum.

Hæstv. dómsmrh. sagði að hann vildi vænta þess að bretar héldu sig utan 200 mílna markanna eftir að undanþágusamningur þeirra fellur úr gildi, og sagði að hann teldi að fátt mundi greiða betur fyrir samningum en slík ráðstöfun af þeirra hálfu. Ég styðst í þessum efnum aðeins við það sem fram hefur komið í blöðum og útvarpi í yfirlýsingum af hálfu breskra aðila, jafnt breskra ráðh. sem forustumanna í samtökum togaraeigenda, þar sem þeir hafa lýst því yfir og það ekki aðeins einu sinni, heldur oftar, að þeir muni halda áfram veiðum þrátt fyrir brottfall þessa samnings eins og ekkert hafi í skorist og veiða eftir gömlu reglunum, alveg óbreytt frá því sem áður var.

Þetta er tilkynning frá þeim. Þetta er það sem liggur fyrir okkur, og við þetta verðum við vitanlega að miða ákvarðanir okkar um það hvernig við ætlum að standa að málunum. Ef þeir verða svo hyggnir að draga sín skip út fyrir og sjást ekki fyrir innan, þá þarf ekki að gera sér rellu út af því að okkar menn klippi og klippi og klippi of mikið, né heldur að gera sér rellu út af því, að þeir verði þá of frekir að taka þá, ef þeir koma ekki inn fyrir. Spurningin er auðvitað um það, hvernig við ætlum að standa að málum ef þeir gera það sem þeir segjast munu gera.

Ég tók eftir því að hæstv. dómsmrh. minntist hér á að hann gæti ekki farið að skýra hér frá viðbrögðum gæslunnar í einstökum atriðum, það yrði fyrst og fremst undir mati skipstjóranna sjálfra. Hér er ekki um það að ræða, hvorki um nein afbrigðileg tilfelli né nein einstök tilfelli, heldur um meginstefnu. Á það að vera meginreglan að skipherrarnir hagi sér í þessum efnum gagnvart erlendu skipunum eins og gagnvart þeim íslensku, þeir stöðvi landhelgisbrjót þegar þeir geta, taki hann og dragi hann til hafnar þegar þeir geta og klippi veiðarfærin aftan úr landhelgisbrjótum þar sem ekki er hægt að koma við annarri refsingu og þetta verði allt saman gert samkvæmt ákvörðun skipstjóranna sjálfra, það sé sem sagt meginstefnan?

Hæstv. dómsmrh. talaði um að hann vildi sjá fyrst það samkomulag sem hægt væri að gera áður en hann svaraði því til hvort hann yrði þar á móti eða ekki. Mér sýnist að þessi ummæli hans séu greinileg um það að hann vill gera samninga um meira eða minna af kröfum útlendinganna. Ég er hins vegar á því að það eigi að marka þá stefnu að það eigi að hafna kröfum þeirra alveg, eins og ástatt er. Hann dregur líka eins og hæstv. forsrh. greinilega í efa vilja þjóðarinnar, og mér fannst helst á máli þeirra beggja að þeir tækju ekki mjög alvarlega allar þær samþykktir eða áskoranir sem fjöldasamtök, og samtök fólksins í landinu, hafa verið að senda frá sér. Og hæstv. dómsmrh. lyfti sér hér í stólnum og sagði að hann hefði umboð út kjörtímabilið og gerði nánast, fannst mér, það sem honum sýndist.

Ég tel þetta heldur kuldalega mælt. Því hefur verið haldið fram, og ég man ekki betur en hann hafi gert það sjálfur, hæstv. dómsmrh., að það væri ekki viturlegt að ætla að framkvæma það í stórmálum, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar væri á móti. Það er auðvitað hægt að halda uppi ágreiningi um hvað meirihluti þjóðarinnar vilji. En það er hægt líka að fá úr því skorið hver er meirihlutavilji þjóðarinnar. Vill hæstv. ríkisstj. fallast á það til samkomulags að engir undanþágusamningar um veiðar í fiskveiðilandhelginni taki gildi, jafnvel þó að hægt sé að knýja fram meirihlutasamþykkt hér á Alþ., nema slíkt samkomulag hafi fengið staðfestingu í þjóðaratkvgr.? Þá er hægt að fá úr því skorið hver er vilji þjóðarinnar. Það er hægt að hinda samkomulagið þeim skildaga. Þá þarf ekki lengur að þræta um það hvorum megin meirihlutavilji þjóðarinnar liggur. En ég held að ríkisstj. eigi eftir að reka sig á að það leikur enginn vafi á því hver er vilji meiri hluta þjóðarinnar í þessu máli.

Það er auðvitað alveg rangt hjá hæstv. forsrh. að skilja orð mín þannig, að ég sé að hóta ríkisstj. og að ég sé að hóta Alþ. Auðvitað liggur ljóst fyrir að ég ræð ekki yfir fiskiskipaflota landsmanna. Ég sagðist aðeins aðvara ríkisstj., af því að ég veit vel um þann þunga sem er á bak við þær samþykktir sem gerðar hafa verið. Ég aðvara hana að fara ekki fram með samninga þvert gegn vilja þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í rauninni engin ríkisstj. fær um að standa að samningum, eins og nú standa sakir, um undanþágur fyrir útlendinga til veiða í fiskveiðilandhelginni gegn vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar. Slíkum samningum yrði hrundið í reiði.

Hæstv. forsrh. vildi hér litlu svara af því, sem ég óskaði eftir svörum um. Hann vildi ekki gefa nein fyrirheit um það hvenær skýrt yrði opinberlega frá þeim viðræðum sem átt hafa sér stað um hugsanlegar veiðiheimildir útlendinga, og hann vildi ekki gefa fremur en áður neina yfirlýsingu um að það yrði ekki samið um undanþágur, eins og nú væri komið. Það er auðvitað ekkert við því að segja. Ríkisstj. getur ráðið því að ætla að halda þessum málum leyndum fyrir þjóðinni, ef hún kemst þá upp með það í reynd. En ég tel að landhelgismálið sé þess eðlis að það sé með öllu ósæmilegt að segja þjóðinni ekki í aðalatriðum frá því hvernig málið stendur, um hvað er deilt, hverjar eru meginkröfurnar. Og það er sérstaklega óviðurkvæmilegt að það sé verið að segja í stjórnarblöðunum utan og ofan af því, hvað fram hefur komið, og leggja út af því á þann hátt sem gert hefur verið. Það er vægast sagt óviðurkvæmilegt. En eins og ég sagði fyrr í minni ræðu hefur m. a. aðalstuðningsblað ríkisstj., Morgunblaðið, skýrt frá því að allar líkur bendi til þess að hægt sé að ná hagkvæmum samningi við vestur-þjóðverja. Hvers vegna þá ekkí að skýra mönnum frá því hver eru aðalatriði þessa hagkvæma samkomulags?

Ég skal svo ljúka þessu, hæstv. forseti, til þess að lengja þetta ekki frekar. Ég vona samt að þó að hæstv. ráðh. hafi reynst furðulega neikvæðir til þeirra atriða sem fyrst og fremst skipta máli og þumbist enn við og vilji ekki skýra þjóðinni frá því hvað er að gerast í þessu þýðingarmikla máli, þá smáþokist þeir í áttina til annarra landsmanna og létti hulunni fljótlega af og sannfærist um að þeim verður ekki stætt á því að taka frá íslendingum sjálfum þann fisk, sem þeir verða óhjákvæmilega að geta fengið sjálfir og fara að færa hann til breta eða annarra, af því að það er þarflaust eins og komið er.